Nú er farið að hitna aðeins í kolunum, og gripið til meira (segjum…) umdeildra mynda. Fyrsti og annar hluti eru löngu komnir upp. Þá er komið að lokaúrvalinu…

 

Keeping Mum (2005)

Bretar kunna svo sannarlega að gera sótsvartar gamanmyndir og með Maggie Smith um borð var ekki um að villast að hér væri skemmtileg mynd á ferð. Það kom mér því verulega á óvart að þegar ég fór á sínum tíma á hana í bíó þá var hún sett í einn af minnstu sölum landsins þó hún væri meðal nýjustu myndanna. Það sem meira var þá vorum við 4 í salnum. Ekkert að því að fá nánast einkasýningu á skemmtilegri mynd með fullt af góðum leikurum, þar á meðal Rowan „Mr. Bean“ Atkinson og Patrick Swayze. Það er samt leiðinlegt að tala við fólk um þessa skemmtilegu mynd og átta sig á því að enginn kannast við hana.

Myndin kom út árið 2005 þegar Harry Potter kvikmyndaveislan var rétt um hálfnuð og því hefðu margir átt að kannast við leikkonuna Maggie Smith (sem þó var vel þekkt fyrir kraft sinn og fagmennsku í breskum og amerískum kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og í leikhúsum). En ræðum nú myndina. Hún er með einföldu sniði og laus við flóknar tölvubrellur þar sem hún treystir frekar á góða kvikmyndatöku og handrit. Myndin skartar þar að auki skemmtilegum orðsendingum og „puns“ milli persónanna sem leikaraliðið skilar allt vel af sér, sérstaklega Maggie Smith í atriðum með Patrick Swayze. Myndin er full af persónutöfrum sem fleiri þurfa að kynnast en fengu ef til vill ekki tækifæri vegna dræmra auglýsinga frá kvikmyndahúsum hérlendis.

Sigga Clausen

 

 

Brüno (2009)

Borat-hæpið á sínum tíma er ekki eitthvað sem auðvelt er að gleyma, enda myndin meinfyndin og sérupplifun út af fyrir sig að sjá nektaratriðið alræmda í hóp margmennis. En svo kom Brüno og gekk enn lengra.

Borat er skemmtilegri karakter, en Brüno þykir mér tvímælalaust vera betri myndin; brattari, með betri tök á feik-söguþræði sínum og hlaðin færri „fillerum“ eins og Borat. Auk þess er miklu minna feikað í þessari mynd, sem gerir suma kaflana alveg extra dásamlega og/eða vandræðalegri.

Hvað sem Sacha Baron Cohen var byrjaður að brillera með í Borat verður margfalt skarpara og skýrara hér, og kommenterían sterkari líkari. Ein af hugrökkustu og skemmtilegustu grínmyndum síðasta áratugs. Groddaralegur gimsteinn.

Tómas Valgeirsson

 

How Do You Know (2010)

Einkar vanmetin rómantísk gamanmynd sem enginn talar um í dag og fáir kunnu raunverulega að meta. Sem er mjög leiðinlegt því hér á ferðinni mjög snjöll og skemmtilega óvenjuleg mynd sem er í raun allt annað en hún lítur út fyrir að vera ef maður dæmir myndina af posternum einum.

Leikstjórinn James L. Brooks (sem líklega flestir þekkja úr kreditlistanum af The Simpsons sem hann hefur framleitt frá upphafi) hefur ekki gert mjög margar myndir en þær eru nánast allar frábærar (Terms of Endearment, Broadcast News, As Good as it Gets og fl.) og þessi er engin undantekning. Það er erfitt að lýsa henni í stuttu máli en hún er eins og blanda af Woody Allen og Cameron Crowe mynd, full af sérvitrum karakterum sem efast um sjálfa sig og tiltölulega laus við þá yfirborðskennd sem einkennir allt of margar rómantískar Hollywood myndir.

Atli Sigurjónsson

 

Trance (2013)

Ein af þeim bestu frá Danny Boyle síðan hann byrjaði (ásamt Trainspotting og Sunshine). Eins og gerist með flestar myndir hans byrjar hún sem eitt og verður síðan að einhverju allt öðru eftir fyrri helminginn, en það virkar! Trance er dáleiðandi og lifandi, fitusnauð, marglaga og blæðandi orku. Handritið er óvænt, spennandi, úthugsað (sem þýðir að hún verður betri í annað sinn) og öll samsetning gullfallega beitt og stílhrein.

Soundtrackið er helbert dúndur og leikurinn pínu layeraður. Boyle fékk skiljanlega ekki eins mikla athygli fyrir þessa mynd og Óskarsmyndirnar seinustu, enda ljót, ringluð en ekkert minna áhrifarík þrátt fyrir það. Ekkert meistaraverk svosem, en djöfull geggjuð og skemmtileg afþreying með aðeins meiru.

Tómas Valgeirsson

 

The One I Love (2014)

Margir fíluðu hana, en samt finnst mér eins og enginn kannist við hana…! Ein af betri myndum 2014 fannst mér, klárlega ein af óvæntustu perlunum sem ég rakst á síðustu ár án þess að vera skít um hana, annað en hverjir léku í henni (og myndin er aðeins borin uppi af tveimur leikurum – þeim stórskemmtilegu Mark Duplass og Elizabeth Moss) og lauslega það sem hún fjallar um. En meira var það ekki og – með akkúrat tilliti til þess að halda óvissunni – get ég vel sagt að hver sena eftir fyrstu 20 mínúturnar hélt mér í sjokkerandi óvissu um framhaldið.

The One I Love er fyndin, sérstök og undarlega marglaga mynd um sambönd. Frábært dæmi um hvað þú getur gert mikið við fáa leikara, eina staðsetningu og djúsí handrit. Það þurfa miklu fleiri að sjá þessa mynd, því það er heill hellingur af tvísýnu stöffi til þess að ræða um eftirá – eins og þessi endir…

PS. Leikstjóri myndarinnar er sonur Malcolm McDowell.

Tómas Valgeirsson

 

Pompeii (2014)

Paul W.S. Anderson er að mínu mati eini almennilegi 21. aldar arftaki John Carpenter og einn af fáu hasarmynda leikstjórum nútímans sem setur hugmyndir og útlit í framsætið af mikilli list. Get með sanni sagst vera hrifinn af öllum ræmunum hans en Pompeii mun líklega ávallt standa út meðal þeirra sem ég fíla hvað mest.

Hasarinn er sparlegur og í samanburði nær myndin ekki alveg að standa upp á móti bestu hasarmyndum síðustu ára en Pompeii er ekki beint hasarmynd af hefðbundnum hag. Hún einblínir heldur á mannúðarspeki, hreyfingu og umhverfi. Hlæðu eins og þú vilt að hreimnum hans Kiefer, atriðin þar sem eldfjallið og eyðileggingin eru í fyrirrúmi tel ég með flottustu notkunum á tölvutæknibrellum undanfarin ár (mun harma mistökin að sleppa að sjá myndina í 3D í bíó um ókomna tíð). Myndin skín einnig hvað mest þematískt innan um þessi atriði, þegar sviðljósinu er beint á hugleiðingar Andersons um takmörk eignarhalds í kapitalísku samfélagi sem og fórnir og góðmennsku mannsins þegar hann stendur frammi fyrir hörmungum.

Að lokum hefur Vesúvíus dæmt siðmenningu til dauða og það eina sem stendur eftir er ímynd ástarinnar steinrunnin og þar með ódauðleg. Segðu mér svo að W.S. sé ekki listamaður.

Hörður Fannar Clausen