Tíminn leiðir það yfirleitt í ljós hvernig líf bíómynd getur átt sér. Þótt sumar kvikmyndir séu ausnar lofi á gefnum tímapunkti er það ekki endilega ávísun á neina klassík sem mun lengi vera umtöluð eða dýrkuð. Sjáum t.d. hvernig fór fyrir The Thing, Vertigo, Fight Club, Blade Runner eða jafnvel 2001: A Space Odyssey á sínum tíma – allt myndir sem fengu nokkuð volgar viðtökur en fóru smátt og smátt að rísa á stærri stall og þykja í dag vera ómissandi.  (til að sjá nánara dæmi um klassískar myndir sem voru upphaflega hataðar, smellið hér)

En hvað með týndu meistaraverk þessarar aldar? Hvaða kvikmyndir hafa verið „ranglega“ dæmdar eða ekki hlotið þá víðu ást sem þær eiga skilið. Pennar Bíóvefsins ákváðu aðeins að draga út sín dæmi um slíkar myndir; myndir sem eru annaðhvort misskilin meistarastykki eða leyndir (og þ.a.l. grátlega vanmetnir) gullmolar.

Kíkjum yfir einhverja þeirra:

 

A.I. (2001)

Gosi fyrir tækni- og nautnaröldina. Þessi fallega mynd er afrakstur af hjónabandi framleiðslu sem Stanley Kubrick skildi eftir ókláraða við andlát sitt um aldarmótin og verks meistara Steven Spielberg sem var beðinn um að taka við þar sem Kubrick hætti.

Andi beggja leikstjóra er klárlega áþreifanlegur innan um metnaðarfullan framtíðarheim myndarinnar, en það kemur kannski mest á óvart að týpískari staðalímyndir um „stíla“ þeirra eru í raun ekki eins sterkar og það sem þeir eru lítt þekktir fyrir. Kubrick er ekki þekktur fyrir samúðarkennd en þegar hann hefur sýnt hana er það nær áferðinni sem A.I. hefur heldur en ótrúlega útpældu og ögrandi ræmurnar sem hann gaf frá sér (þó að A.I. sé það líka á sinn hátt). Hinsvegar er Spielberg þekktur fyrir væmni og stórsmelli. Sá Spielberg er vissulega til staðar hér, en „hinn“ Spielberg, þessi skrýtnari og kaldari sem gerði aðra Indiana Jones myndina, The Lost World og síðar Minority Report er við stjórnvöllinn meirihlutann af myndinni, sem gerir hana (furðulega) ennþá tilfinningaríkari þegar endirinn biður okkur að kreista fram tárin. Það sem gerir A.I. sérstaka er hversu vel þessi samruni á stílbrögðum Kubrick og Spielberg heppnaðist og hversu gáfulega og blíðlega myndin höndlar kaldan veruleikann sem hún gerist í.

Haley Joel Osment er síðan magnaður í aðalhlutverkinu sem véldrengurinn David (innan við tvö ár eftir Óskarstilnefningu fyrir The Sixth Sense) og blæs svo sannfærandi lífi í flóknar tilfinningar að það er erfitt að trúa að hann hafi varla verið kominn í gaggó þegar myndin kom út.

Þegar allt kemur til alls kemst ég heldur ekki hjá því að hampa myndinni meðal þeirra bestu sem fjalla um kvikmyndir og upplifun okkar á þeim (Spielberg hefur notast við þessa allegóríu a.m.k tvisvar síðan), um hvernig lygarnar sem kvikmyndir segja okkur geta verið nauðsynlegar og hættulegar samtímis. Endirinn finnur því hreinleikann í því óljósa og tvíræða, því mannseðlið er ekki bara svart og hvítt.
Stórbrotin.

Hörður Fannar Clausen

 


Confessions of a Dangerous Mind (2002)

Fyrsta mynd George Clooney sem leikstjóra og ennþá hans besta (já ég fíla hana betur en Good Night and Good Luck, eins frábær og hún er). Hún var líka skrifuð af Charlie Kaufman en þarna var hann meira “writer-for- hire”. Eflaust hafa margir verið fyrir vonbrigðum á sínum tíma því menn voru að vonast eftir einhverju á borð við Being John Malkovich. Ef maður strikar út þannig væntingar og tekur myndinni eins og hún er, þá er hún barasta stórskemmtileg. Myndin virkar kannski eins og týpískt “bio-pic” en svo blandast inn í allt þetta spæjara-element sem enginn veit hvort var raunverulegt eða ekki (líklega bara ímyndun hjá geðsjúkum eða athyglissjúkum manni) sem setur nýja vídd inn í myndina og hún verður í raun alls ekki “bio-pic” heldur mynd um hættur frægðarinnar og þá veruleikafirringu sem hún getur skapað. Svo er hún líka bráðfyndin og afskaplega vel tekin og klippt. Hinn vanmetni snillingur Sam Rockwell fer á kostum.

Atli Sigurjónsson

 


Miami Vice (2006)

Fáar myndir kalla jafn hátt „Velkomin í 21. öldina“ og þessi. Myndin kynnti til fulls möguleika stafrænnar kvikmyndatöku og trónir í raun ennþá á tindi þeirra sem hafa notfært sér þann stíl. Snillingurinn Michael Mann afhjúpar stafræna lúkkið sem ómálaðan striga fyrir ljóðrænan og hráan abstraktisma… nýja tegund kvikmynda. Gleymdu dópsmyglara-plottinu og týndu þér í ljósunum, kúlinu og ósvikinni tengingu rammans við tilfinningarnar. (Mojito-sötrun yfir þessari er valfrjáls, en meðmæld).
„Time is luck“

Hörður Fannar Clausen

 


Enemy (2013)

Denis Villeneuve er á meðal umtöluðu leikstjóra í dag, og réttilega svo – því hingað til hefur hann ekki ennþá gert slaka mynd. Allar þær eiga það líka sameiginlegt að vera gjörsamlega dropandi af andrúmslofti, vissum drunga og jarðbundnum realisma – oftast ofinn í kringum einhverja dulúð eða martraðarkenndan spíral þar sem karakterar upplifa ákveðna örvæntingu – eða geðtap.

Flestir kvikmyndaunnendur hafa verið duglegir að hrósa myndum eins og Incendies, Prisoners, Sicario og Arrival (sem er í dag sú bjartasta sem Denis hefur á ferlinum) – enda allar á sinn hátt frábærar – en ótrúlegt þykir mér að Enemy skuli alltaf vera skilin útundan. Það er svosem ekki erfitt að skilja það; myndin er súr, narsissísk á marga vegu, ákaflega óljós en í senn svo lagskipt, grípandi, útpæld og eftirminnileg. Og væri ekki fyrir hina ómetanlegu Nightcrawler myndi ég segja að Enemy skarti albestu frammistöðu sem Jake Gyllenhaal hefur sýnt. Í það minnsta er þetta a.m.k. óvenjulegasti leikur hans til þessa, og hvernig handritið spilar með „duality-ið“ hans er umhugsunarvert og hálf tragískt þegar svörin skýrast, og þessi yndislega tóbaksguli og eymdarlegi tónn sem fylgir atmóinu bætir miklu við.

Enemy er óvenjuleg mynd, en hún græðir svakalega á öðru og þriðja glápi – og að mati undirritaðs sú persónulegasta, tilraunarkenndasta og mögulega besta myndin frá þegar öflugum kvikmyndagerðarmanni.

Tómas Valgeirsson

 


The Counselor (2013)

Tveir tímar af púra níhilisma. Þú annað hvort fílar það eða ekki, giska ég. Margir hötuðu þessa mynd á sínum tíma, alveg hötuðu hana af öllum lífs og sálar kröftum. Ég sjálfur fattaði það aldrei alveg, myndin er full af (mjög köldum) húmor og er æðislega steikt og líklega var fólk að taka hana aðeins of bókstaflega af einhverri ástæðu. Það sem við höfum hér er mynd sem fær mann til að segja “what the fuck” með reglulega millibili, á góðan hátt. Leikararnir standa sig flestir stórvel en Javier Bardem stendur uppúr í æpandi Hawaiiskyrtu og með klikkaða hárgreiðslu. Mörgum finnst eflaust “píkan-á- framrúðunni” senan vera það eftirminnilegasta en af einhverri ástæðu er senan þar sem launmorðinginn mælir hæðina á mótorhjólinu sú sem situr eftir hjá mér, þá aðallega þegar maður fattar af hverju hann var að mæla hæðina. Þetta er mynd sem sýnir hluti sem fæstum myndi detta í hug að sýna. Ef aðeins Ridley Scott myndi gera fleiri svona myndir og færri myndir eins og Exodus og Robin Hood (eða enn eina Alien mynd).

Atli Sigurjónsson