Tíminn leiðir það yfirleitt í ljós hvernig líf bíómynd getur átt sér. Þótt sumar kvikmyndir séu ausnar lofi á gefnum tímapunkti er það ekki endilega ávísun á klassík sem mun lengi vera umtöluð eða dýrkuð. Sjáum t.d. hvða gerðist með The Thing, Vertigo, Fight Club, Blade Runner eða jafnvel 2001: A Space Odyssey á sínum tíma – allt myndir sem fengu nokkuð volgar viðtökur en fóru smátt og smátt að rísa á hærri stall og þykja í dag vera ómissandi.

En hvað með týndu meistaraverk þessarar aldar? Hvaða kvikmyndir hafa verið „ranglega“ dæmdar eða ekki hlotið þá víðu ást sem þær eiga skilið. Pennar Bíóvefsins ákváðu aðeins að draga út sín dæmi um slíkar myndir; myndir sem eru annaðhvort misskilin meistarastykki eða leyndir (og þ.a.l. grátlega vanmetnir) gullmolar.

Við erum þegar búin að renna yfir fáeinar í fyrsta hlutanum, en kíkjum endilega á fleiri:

 

The Village (2004)

Mynd sem er leidd áfram af tilfinningum, fremur en atburðum eða plotti.

Allar myndirnar hans M. Night Shyamalan bera sig til fulls tilfinningalega og því meira sem þær sýna, því neikvæðara virðist fólk bregðast við þeim. The Village er með „berustu“ myndum leikstjórans og er talin af mörgum vera sú sem setti „hinn næsta Spielberg“ upphaflega út af sporinu.

Dramatískasta augnablik The Village er jafn einfalt og ein hendi að grípa í aðra. Shyamalan reiðir kvikmyndagerð sína á þessu augnabliki. Ósnert einlægnin er í fyrirrúmi og ef hún bregst, þá bregst hann sem listamaður. Mér skilst að myndin hafi verið auglýst sem hryllingsmynd, þrátt fyrir að vera fyrst og fremst klassísk ástarsaga með gotneskum spennutryllisáhrifum. Hægt er að líta svo á að væmnin og skorturinn á bregðum sé misreiknun hjá Shyamalan, en það má ekki gleyma að hann er að skapa heim sem þarf að vera út úr norminu til að virka, því tilætlanir sögunnar verða þannig skýrari þegar litið er til baka.

Sjónrænt er hún líklega allra flottasta mynd Shyamalan enn þann dag í dag (að stórum hluta þökk sé Roger Deakins). Ég gleymi seint hvernig skærir litir skerast út úr skógarumhverfinu, hvernig kyndlarnir lýsa upp kolsvartar næturnar og hvernig náinn og viðkvæmur fókus á andlit vekur tilfinningar eitt og sér.

Þematískt hefur Night alltaf sagt svipaða sögu, svona í heildina. Myndirnar hans fjalla um fortíðina og hvernig persónurnar takast á við hana, það góða og slæma. The Village er tengd hvað mest inn í þessi minni þar sem titlaða þorpið er meira í takt við lifnaðarhætti á 17. öld en í nútímanum. Með söguna af Adam og Evu í huga skoðar Shyamalan hvernig útópía endist aldrei í mannshöndum, sem og afleiðingar sorgar og „göfugra“ lyga sem við segjum þeim sem eru okkur kærust til að vernda þau.

Hann lendir samt, á ósvikinn hátt á sömu vonarglætu í öllum hinum myndunum sínum:
„…she is led by love and the world moves for love, it kneels before it in awe.“

Aðeins næsta kynslóðin, full af mótþróa og ást, getur afrétt mistök fortíðarinnar.

Hörður Fannar Clausen


 

Ocean’s Twelve (2004)

Mögulega uppáhaldsmyndin mín í Ocean’s seríunni, en það mætti kalla þetta art-house blockbuster mynd. Efniviðurinn er blockbuster-legur en úrvinnslan er eins listræn og þær gerast. Soderbergh prufar öll möguleg sjónarhorn, tekst að gera hverja einustu senu sjónrænt áhugaverða og skýtur þær á hátt sem enginn annar myndi gera. Sagan er kannski ekki ýkja merkileg en myndin er í senn bráðfyndin, sjónrænt glæsileg og leikararnir virðast skemmta sér konunglega. Það er bara alveg feykinóg.

Atli Sigurjónsson


 

The Fountain (2006)

Margir þola ekki myndina því hún er of þungmelt, óvenjuleg og útvegar aldrei einföld svör (eða jú, leikstjórinn satt að segja veitir svarið, en áhorfandinn á að gera alla útreikninga). Þeir sem dýrka hana hins vegar eru þeir sem finna sig knúna til að kíkja á hana með reglulegu millibili. Hægt er að horfa á söguna frá ýmsum sjónarhornum og í öllum „útgáfum” er heilsteypt verk að finna. Greinilega er ég í síðarnefnda hópnum.

Líf, ást og dauði hefur sjaldan tekið á sig svona bitastæða og útlitslega óaðfinnanlega mynd í kvikmyndaforminu á þessari öld. The Fountain dílar við dauðann; þrjóskuna við það að sigrast á dauðanum, óttanum við hann og umfram allt það að sjá fegurðina í honum, svo eitthvað sé nefnt. Á bakvið öll lögin sem tengja saman fortíð, nútíð og framtíð er hins vegar óhefðbundin ástarsaga, og það að kalla hana „óhefðbundna“ er vægt til orða tekið.

Darren Aronofsky gerir aldrei neitt auðvelt fyrir mann, en dýrmætur er hann fyrir vikið. Allir sem hafa eitthvað vit á kvikmyndum ættu að geta skrifað langar greinar um það eitt hversu aðdáunarverður snillingur hann er eða getur verið. Það er varla hægt að deila um það að The Fountain er hingað til persónulegasta myndin sem hann hefur nokkurn tímann gert. Ef ég ber hana saman við hans bestu, að mínu mati, er hún ekki eins mikill andlegur hnífur í endaþarminn og Requiem for a Dream var (á góðan hátt samt, ef nokkuð er til í því), en hún er miklu, miklu dýpri, einstakari og elskulegri. Ég tel hana líka hafa verið langt á undan sinni samtíð.

Af öllum myndum leikstjórans er þessi sú sem er mest hægt að dást að, þó ekki nema bara fyrir það að hún gerist að miklu leyti í geimnum og aldrei eru notaðar tölvubrellur í stóru skotunum (lesið ykkur til um það, þetta er býsna geggjað!). Hún er líka í mestu uppáhaldi hjá mér og hefur oftast verið sett í gang á mínu heimili. Þegar það gerist, þá reyni ég ekki að horfa á hana, heldur upplifa hana – með góðu hljóði og á eins stórum skjá og ég kemst að. Persónusköpun og söguþráður skiptir minna máli, heldur meira frásagnarhátturinn og skilaboðin sem snúast í kringum persónurnar. Aronofsky í rauninni lýsir þessu best þegar hann segir að The Fountain sé einfaldlega „hugleiðing um dauðann“. Lýsingin hljómar leiðinlega, en til þess er leikstjórinn, svo hægt sé að setja einhvern kraft í þetta.

Tómas Valgeirsson


 

Halloween (2007) og Halloween II (2009)

(Unrated og Director‘s cut útgáfurnar)

Hef þessar tvær útgáfur saman sem eina af því hvorug virkar eins vel án hinnar.

Harmleikur um drauga fortíðarinnar, afleiðingar ofbeldis og hringrásir. Það eru örfáar slasher myndir þar sem ofbeldið er eins þungt og hræðilegt, hvert högg og hvert sár sem hryllingurinn skilur eftir sig verður að öri sem neitar að gróa til fulls. Laurie Strode er ekki lengur bara „the final girl“ sem lifir af og sigrar klikkaða vonda kallinn, Zombie gerir hana hérna að táknmynd þeirra sem hafa þurft að lifa í gegnum svipaðar aðstæður og svipaðan sársauka. Seinni myndin gerir sitt ýtrasta til að koma til skila bara hversu erfitt það getur verið að skilja við martröðina til fulls og verður því líkust martröð sjálf.

Frægi „upprunalegi“ slasher skúrkurinn Michael Myers er endurfæddur og gefin ný túlkun. Gamla hugmyndin um óskiljanlegu óstöðvandi illskuna er endurskoðuð og í staðinn fáum við fórnarlamb umhverfis og vanrækslu. Michael er líka fastur í sínum eigin sársauka, en í staðinn fyrir að sleppa frá honum endurtekur hann bara það eina sem hjálpar honum að komast áfram, aftur og aftur inn í gleymskunnar dá.

Hryllingurinn byrjar og endar með laginu Love Hurts, fyrst í frægari útgáfu Nazareth og síðar í útgáfu Nan Vernons sem flytur lagið eins og það sé vögguvísa fyrir þá deyjandi.

Love hurts, love scars, love wounds
And marks, any heart
Not tough or strong enough
To take a lot of pain, take a lot of pain
Love is like a cloud
Holds a lot of rain
Love hurts……ooh, ooh love hurts

Niðurdrepandi, en ómissandi kvikmyndaupplifun.

Hörður Fannar Clausen