Stutta útgáfan: Ef fyrri myndin var að þínu skapi (hvernig gat hún ekki verið það?) eru litlar líkur á því að Vol. 2 kæti þig ekki. Góður húmor, skemmtileg þemu og smitandi stemning. James Gunn má alveg leggja í eina í viðbót.

 

 

 

Langa útgáfan:

Eflaust voru margir sem fóru á Guardians of the Galaxy í bíó árið 2014, bjuggust við dæmigerðri uppskrift að Marvel-mynd sem gerist í geimnum en fljótlega áttað sig á því að um væri að ræða eitthvað nýtt, ferskt og yndislega súrt á sama tíma. Framhaldið virðist ætla byggja á svipuðum takti og forverinn með góðu upphafsstefi, fínum one-linerum og nóg af litasprengjum. Húmorinn er auðvitað til staðar en líka þessi alvarlega tilfinning eins og eitthvað merkilegt er að fara að gerast sem gæti haft áhrif á allt saman.

Á meðan fyrri myndin snérist mikið um að hópur einstaklinga leiddu saman hesta sína og urðu að teymi (og vinum) þá er þemað hér aðeins persónulegra. Í þetta sinn skiptir fjölskylda og fjölskyldutengsl miklu máli þar sem skyldmenni og ættingjar eiga leið hjá og hafa áhrif á framgöngu sögunnar. Vangaveltum um fjölskyldur og blóðtengslin er kastað fram og persónurnar leysa úr, hver á sinn hátt, hvað þau telja sína fjölskyldu.

Hér snúa aftur Star-Lord (Chris Pratt), Gamora (Zoe Saldana), Drax (Dave Bautista), Rocket (Bradley Cooper) og Groot (Vin Diesel) ásamt vinum sínum Yondu (Michael Rooker) og Nebula (Karen Gillan). Meðan Star-Lord og Gamora eru enn að vinna í þessum óræddu málum milli sín virðist Drax orðinn léttari á sér sem gæti stafað af því að banamaður fjölskyldu hans er ekki lengur á meðal vor. Rocket er sprenghlægilegur sem lítill uppfinningamaður og vopnasérfræðingur sem þarf að sjá um litla tréð sem gaf svo mikið. Baby Groot sér svo um að væta kverkarnar hjá okkur, fylla okkur af samúð og pirra okkur á því af hverju yngri börn taka ekki við einföldum fyrirmælum. Baby Groot er svo án efa límið í þessari brengluðu fjölskyldumynd þar sem út myndina skiptast meðlimir Milano-skipsins á að bera hann, hugga og sjá um á afar ástríka vegu.

Gamla gengið er samt ekki það eina sem við lærum að þekkja betur. Við fáum að kynnast nýjum persónum en þar á meðal er Ego, leikinn af Kurt Russell, sem er pabbi Star-Lord. Hjálparhella/gæludýr hans Mantis, leikin af Pom Klementieff er léttur karakter sem getur lesið í tilfinningar fólks og haft áhrif á með snertingu og ætlar í þessari mynd að vera glórulausi karakterinn sem fær okkur öll til að hlæja. Einnig birtist gulllitað illmenni sem kallast Ayesha og er æðstiprestur meðal snobbaðra og montinna Sovereign þegna. Hún er leikin af Elizabeth Debicki. Ekki má gleyma Sylvester Stallone sem leikur ræningjann Stakar Ogord og á forsögu með Yondu. Leikaraliðið stendur sig allt vel og fær mann enn einu sinni til að trúa að það sé hinn eðlilegasti hlutur að tala við tölvugerðan þvottabjörn og tréspýtu með hreyfigetu.

Tónlistin var einn af bestu hlutum fyrri myndarinnar og því stór spor að feta í fyrir þessa mynd. Hér á tónlistin oft vel við tóna myndarinnar þar sem hún er ekki léttskýjuð. Það er vesen að eiga fjölskyldu og helvíti mikið drama. Þegar horft er til þess hvernig heilsa móðurinnar og batahorfurnar voru þá er skiljanlegt að hún hafi útbúið tilfinningaríkara mix teip. Þá saknar maður laganna sem heyrðust í lok fyrstu og tilheyrðu nýju kasettunni sem hefðu getað hljómað hér.

Það er harla óvænt að myndin er uppfull af tölvubrellum og mikið tekin upp við grænt tjald þar sem 2/5 af meðlimum Verndaranna eru tölvugerðir eftir á. Það er samt alveg ótrúlegt hvað þetta er allt rosalega flott og vel gert. Litaæði og hasargleði leikstjórans fær að njóta sín enn einu sinni og ég verð að segja að James Gunn hefur náð að forðast framhaldsbölvunina sem fellur á svo marga.

Það er þessi pæling að blóð er ekki alltaf þykkara en vatn, sem gætir þess að myndin verður aldrei að afriti forvera síns. Auðvitað snýst ekki allt um fjölskyldulífið. Það er einnig eitthvað um rán og ruplerí ásamt rifrilda meðal áhafnarmeðlima. Hún þorir að stíga í tilfinningapollinn og vekja upp ólíkar tilfinningar yfir tveggja tíma skemmtun. Lokabardaginn færir okkur svo smá af þessu gamla góða með persónunum okkar í essinu sínu að reyna að bjarga vetrarbrautinni á sinn einstaka plan B máta.