Hægt er að skilgreina vanmetnar myndir á ýmsan hátt. Sumar fá enga ást frá gagnrýnendum, en ekkert nema aðdáun frá áhorfendum og svo öfugt. Aðrar þykja flottar um leið og þær koma út, en falla svo í gleymsku nokkrum árum síðar og enginn vill kannast við hrósið. Svo eru það þær sem gagnrýnendur og áhorfendur upp til hópa eru sammála um að séu rusl, en eru svo alls ekkert svo slæmar þegar nánar er að gáð.

Skoðum nokkrar vanmetnar myndir:

 

RISKY BUSINESS (1983)

Mörgum finnst ef til vill skrítið að vera með þessa mynd á listanum, sérstaklega þar sem hún fékk almennt mjög góða dóma. Í seinni tíð er hennar helst minnst fyrir atriðið þar sem Tom Cruise dansar um á hvítum nærbuxum, en hún er bara svo miklu, miklu meira en það. Myndin er í raun tregafull ádeila á kapítalisma í dulargervi sex-romp grínmyndar. Tom Cruise á stórleik sem hinn taugatrekkti uppa-unglingur Joel Goodsen, sem er að kikna undan viðbjóðslegri pressu um fullkomnun frá foreldrum sínum – sér í lagi móðurinni. Rebecca DeMornay gefur honum líka ekkert eftir sem Lana, vændiskonan ekki-með-hjarta-úr-gulli sem snýr öllu á hvolf í lífi Joels. Myndin inniheldur tryllta tónlist eftir Tangerine Dream sem nær algjörum hápunkti í “Love on a Real Train” atriðinu. Best er að sjá myndina með upprunalega endinum (hann er á Blu-Ray útgáfunni, reyndar sér í lagi), sem er töluvert melankólískari en nýi endirinn sem stúdíóið neyddi Paul Brickman til að skjóta.

 

DEATH BECOMES HER (1992)


Þessi dásamlega svarta kómedía var á undan sinni samtíð og alveg glæpsamlega vanmetin. Hún fékk gjörsamlega ömurlega dóma þegar hún kom út, sem er mikil synd því þetta er með bestu myndum Robert Zemeckis. Stjörnurnar þrjár (Streep, Willis og Hawn) sýna öll snilldartakta. Brellurnar eru algjört konfekt og þær eldast ótrúlega vel, enda eru þær það eina við myndina sem fékk einhverja viðurkenningu og ást á sínum tíma, en myndin var tilnefnd til Óskars fyrir bestu tæknibrellur… og vann!

 

THE LOST BOYS (1987)


Margir gagnrýnendur höfðu ekki mikla þolinmæði fyrir þessari unglinga- og vampírumynd þegar hún kom út, sérstaklega ekki Leonard Maltin. Það voru ennþá rúm tuttugu ár í fyrstu Twilight myndina og gagnrýnendur höfðu ekki hugmynd um hversu vont þetta gat orðið.
Í mínum huga er Lost Boys allt það besta við 80’s-inn á einum stað. Ótakmarkað magn af mullet-um, Corey-arnir tveir í sínu besta formi, frábært sándtrakk og olíuborinn saxófónleikari (sem er enginn annar en Tim Capello sem var vanur að túra með Tinu Turner og já, hann var alltaf löðrandi í olíu). Hvað meira er hægt að biðja um?

 

THE LEGEND OF BILLIE JEAN (1985)


Mjög mörgum finnst þessi mynd arfaslök. Þá sérstaklega Pat Benatar, sem á titillagið Invincible (frábær 80’s smellur), en hún þreytist seint á að drulla yfir þessa mynd á tónleikum. Helen Slater (hvað í ósköpunum varð um hana?) leikur unglinginn Billie Jean sem fær nóg af ranglæti heimsins. Eftir röð af furðulegum atvikum endar hún á flótta ásamt nokkrum vinum sínum og bróður (leikinn af Christian Slater, enginn raunverulegur skyldleiki samt). Hún klippir hárið á sér stutt og byrjar að nota frasann “Fair is fair”, sem veldur því að hún verður algjör stórstjarna hjá ungu fólki, sem lítur upp til hennar og sér hana sem sameiningartákn gegn valdinu sem fullorðið fólk hefur yfir þeim. Er hún vel skrifuð? Nei. Er hún vel leikin? Tjaaa, eiginlega ekki… Vel leikstýrð? Neibb. En hún hefur eitthvað sérstakt. Einhvern svakalegan sjarma sem er ekki alveg hægt að negla niður. Til gamans má geta að Yeardley Smith (Lisa Simpson) leikur stórt hlutverk í myndinni.

 

JACKIE BROWN (1997)


Ein allra besta mynd Tarantinos, en einnig sú vanmetnasta. Já, hún fékk frábæra dóma, en gleymist síðan vandræðalega oft. Leikhópurinn stendur sig frábærlega og Pam Grier á algjörlega myndina, að öðrum ólöstuðum. Það hreinlega gustar af henni í titilhlutverkinu og það er alveg grátlegt að hún hafi ekki fengið sömu endurlífgun á ferlinum eins og Travolta fékk eftir Pulp Fiction.

 

Þessar náðu næstum inn á listann:

Smiley Face (2007) – Anna Faris fer algjörlega á kostum í þessari yndislega súru stóner-gamanmynd frá furðufuglinum Gregg Araki.

Junior (1994) – Ó, svo vanmetin og langt á undan sinni samtíð. Óléttur Schwarzenegger er besti Schwarzeneggerinn.

Seconds (1966) – Frábært sci-fi drama, sem bombaði gjörsamlega fyrst þegar hún kom út, en er sem betur fer komin í költ status núna.

 

Ertu sammála?

Hvaða myndir finnst þér vera vanmetnar?