Eins frábært og Netflix getur verið þá er stundum erfitt að velja gott efni sem maður nennir að horfa á. Þetta er svipað vandamál og þegar fólk átti til að festast endalaust á vídeóleigum hér í denn, það er svo rosalega mikið í boði að maður á það til að fletta endalaust áfram í von um að finna eitthvað enn betra og áður en langt um líður þá er hálftími farinn í ekki neitt.

Til þess að auðvelda aðeins fyrir ykkur þá ákvað ég að taka á mig flettingarnar og punkta niður nokkrar myndir sem ég mæli klárlega með. Sumir gætu hafa séð allar þessar myndir en þá er tilvalið að taka annað áhorf en ef þú hefur látið eitthverja fram hjá þér fara þá skaltu nýta tækifærið á meðan að hún er í boði.

 

Blue Jasmine (2013)

Þetta er án efa með betri myndum sem Woody Allen hefur gert, punktur. Woody er orðinn dálítið hrifinn af því halda sér bara fyrir aftan myndavélina og fyrir vikið nær hann ótrúlegum frammistöðum frá aðalleikurunum sínum. Kate Blanchett fer hér með aðalhlutverkið og leikur konu sem lífið lék við en þarf nú að horfast í augu við raunveruleikann eftir að spilaborgin féll í kringum hana þegar kreppan skall á. Blanchett fékk Óskarinn fyrir hlutverkið og átti það vel skilið. Eins og gengur og gerist með Allen-myndir þá er handritið frábært, leikararnir í essinu sínu og andrúmsloftið með smá kómísku yfirvafi. Mæli klárlega með Blue Jasmine.

 

Sweeney Todd: The Demon Barber of Fleet Street (2007)

Ég viðurkenni að ég bjóst nú ekki við miklu þegar ég sá hana fyrst á sínum tíma. Söngvamynd með Johnny Depp og Helena Bonham-Carter í aðalhlutverki? Öhm, pass. En ég hafði sem betur fer alveg stjarnfræðilega rangt fyrir mér. Að sjálfsögðu eru þau ekkert frábærir söngvarar en lögin, atmó-ið, kvikmyndatakan og handritið eru pjúra snilld. Söguna um Sweeney Todd þekkja auðvitað margir en í leikstjórn Tim Burtons er allt margfalt drungalegra. Ég á ekki tölu yfir því hversu oft ég hef horft á þessa mynd, hún er sjúklega skemmtileg og eins grimm og lögin eru þá eru þau frekar catchy. Einnig tel ég þetta vera ákveðinn endi á frábæru samstarfi Johnny Depp og Tim Burton. Ef einhver er í stuði fyrir dökkan og góðan Burton/Depp þríleik þá mæli ég með Edward Scissorhands/Ed Wood/Sweeney Todd kvöldi (mööögulega Sleepy Hollow, ef tími gefst).

 

Bonnie and Clyde (1967)

Bonnie and Clyde þekkja allir en líklegast eru færri sem hafa í rauninni séð hana. Þessi mynd var mikill brautryðjandi á sínum tíma og bókað er að allir hafa í það minnsta séð tilvitnun í hana í einum eða öðrum miðli. Myndin sjálf er frábær. Auðvitað er hún orðin 50 ára gömul og kannski aðeins öðruvísi en nútíma glæpamyndir. Það þarf þó að hafa í huga að á þessum tíma var lítið um kvenkyns glæpamenn í kvikmyndum og loka atriðið í myndinni var eitt ofbeldisfyllsta atriði sem sést hafði. Warren Beatty og Faye Dunaway eru æðislegt skjápar og það er erfitt að halda ekki með þeim þrátt fyrir það að þau séu að brjóta lögin.

 

Eternal Sunshine of the Spotless Mind (2004)

Jim Carrey og Kate Winslet leika hér par sem er að hætta saman og kýs að láta þurrka allar minningar af sambandinu úr minninu. Carrey gjörsamlega á þessa mynd. Ég elska myndir þar sem grínleikarar fá að spreyta sig í drama hlutverkum, þeir eiga það til að gjörsamlega negla það. Eternal Sunshine er jafn óvenjuleg og hún er æðisleg. Þar sem hún einkennist dálítið af ólínulegri frásögn tekst henni fullkomlega að túlka hvað minnið okkar getur verið gallað og að við getum ekki einfaldlega kosið að gleyma því slæma en halda því góða. Ég ætla ekki að fara of djúpt út í þemu myndarinnar, horfið bara á hana og njótið.

 

Good Will Hunting (1997)

Ætla ljúka þessum lista á annari mynd þar sem frægur grínleikari tekur að sér drama hlutverk og eignar sér myndina. Robin Williams heitinn fékk Óskarinn fyrir besta aukahlutverk og eitt af mörgum dæmum um hversu öflugur hann gat verið í alvarlegri rullum. Matt Damon og Ben Affleck skrifuðu handritið og fengu óskar fyrir það og Gus Van Sant hnyttir öllu frábærlega saman í leikstjórastólnum. Good Will Hunting er að öllu leyti æðisleg mynd sem ætti að heilla alla upp úr skónum og hefur gert það síðustu 20 ár, en hún fagnar einmitt 20 ára afmæli um þessar mundir. Því er alveg við hæfi að nýta sér að hún sé á Netflix og horfa á hana aftur ef maður hefur séð hana.

 

Fimm frábærar myndir sem er vel þess virði að kíkja á, allar í boði á Netflix. Þó að það séu margar fleiri frábærar í boði þá eru þessar fimm staðfest að fara skemmta ykkur konunglega í stað þess að eyða alltof miklum tíma í að fletta í úrvalinu.