Þegar kemur að 80’s B-hryllingsmyndum er af nógu að taka. Sumar eru svo hörmulegar að maður vildi óska að hægt væri að fá mínúturnar sem eytt var í myndina til baka. Aðrar eru fínasta afþreying sem gleymast um leið og slökkt er á sjónvarpinu. Svo eru þær sem eru það frábærar og eftirminnilegar að þær ná algjörum költ status.

Kíkjum á nokkrar svoleiðis:

 

FROM BEYOND (1986)

Mjög góð body horror mynd hér á ferð, byggð á sögu eftir H.P. Lovecraft. Vísindamaður hannar vél sem örvar sjötta skilningarvitið, en í leiðinni opnast óvart dyr inn í annan og verri heim. Frábærar brellur, fínn húmor og hæfilega mikið af ógeði. Dr. Pretorious stelur hverri einustu senu sem hann er í.

 

NIGHT OF THE COMET (1984)

Halastjarna flýgur yfir jörðina og breytir öllum sem ekki voru varðir af stáli í uppvakninga eða öskuhrúgur. Systurnar Reggie og Sam lifa af og þurfa að standa saman gegn uppvakningunum og dularfullum vísindamönnum. Ekki mikið um hryllilegan hrylling hér svo sem, en ótrúlega fjörug og hress mynd engu að síður með dúndrandi 80’s stemmningu.

 

XTRO (1982)

Maður sem var numinn á brott af geimverum mætir aftur á svæðið og setur sig í samband við ungan son sinn og fyrrverandi eiginkonu… með agalegum afleiðingum. Þessi er mjög low-budget, en með æðislegum brellum og virkilega óþægilegu andrúmslofti. Rusl af bestu gerð.

 

SOCIETY (1989)

Ennþá betra body horror og önnur Brian Yuzna myndin á listanum, en hann kom líka nálægt From Beyond. Fyrirmyndarpilturinn Bill finnur fyrir ónotatilfinningu gagnvart fjölskyldunni sinni og finnst hann ekki passa almennilega inn í hana, þrátt fyrir að á yfirborðinu sé allt eins og það eigi að vera. Þegar hann svo heyrir upptöku af foreldrum sínum og systur í miður geðslegum aðstæðum, leggur hann allt í sölurnar til þess að komast að því hvað í ósköpunum sé í gangi. Förðunar- og brelluteymið stendur 100% fyrir sínu og endaatriðið er ógleymanlegt. Ullabjakk.

 

DEADLY FRIEND (1986)

Undraunglingur endurlífgar vinkonu sína með því að græða í hana tölvukubb sem hann tók úr BB, vélmenni sem hann hafði smíðað nokkru áður. Það dregur dilk á eftir sér því vinkonan kemur ansi æst til baka og byrjar að myrða mann og annan. Stórkostleg B-mynd frá meistara Wes Craven, svo vond að hún verður góð. Kristy Swanson á stórleik sem vélmenna-uppvakningurinn BB. Anne Ramsey blessunin á líka einn eftirminnilegasta dauðdaga í hryllingsmynd. Morðvopnið: körfubolti.