Konur hafa löngum átt erfitt uppdráttar innan Hollywood, sérstaklega ef þær vilja leikstýra. En það vill oft gleymast í umræðunni að þó að prósenta kvenkyns leikstjóra sé skammarlega lág, þá er samt hópur af þeim þarna úti og þær eru að gera frábæra hluti.

Kíkum á fimm kjarnakonur sem allar eiga það sameiginlegt að gera gæðamyndir.

 

Sarah Polley

Kanadíski handritshöfundurinn, leikarinn og leikstjórinn Sarah Polley er góðkunningi ansi margra Íslendinga eftir að hafa leikið í sveitasápunni Road to Avonlea á árunum 1990-1996. Hún hefur átt mjög farsælan feril sem leikkona og leikið í heilum hellingi af eftirminnilegum myndum á borð við The Adventures of Baron Munchausen, The Sweet Hereafter, Go og endurgerðinni á Dawn of the Dead. En Polley er jafnvíg fyrir aftan myndavélina eins og fyrir framan hana. Árið 1999 gerði hún fyrstu stuttmyndina sína, The Best Day of My Life og þá varð ekki aftur snúið.

Sjö árum síðar gerði hún sína fyrstu mynd í fullri lengd, hina melónkólísku Away From Her. Myndin hlaut mikið lof á sínum tíma og Polley nældi sér meðal annars í Óskarstilnefningu fyrir besta aðlagaða handritið. Árið 2011 skrifaði hún og leikstýrði Take This Waltz sem skartaði Michelle Williams í aðalhlutverki og fjallar á opinskáan hátt um langtímasambönd og hversu brothætt þau geta verið. Árið 2012 kom svo hennar persónulegasta verk út. Heimildarmyndin Stories We Tell sem fer ofan í saumana á fjölskyldu Polley og hvort að faðirinn sem hún ólst upp með sé blóðskyldur henni.

 

Marjane Satrapi


Hún vakti fyrst gríðarlega athygli fyrir teiknimyndasögurnar sínar Persepolis og Persepolis 2 sem fjölluðu um æsku hennar í Íran á tímum íslömsku byltingarinnar og svo unglingsárin í Evrópu. Árið 2007 þreytti hún frumraun sína sem leikstjóri, en hún leikstýrði mynd byggðri á Persepolis ásamt Vincent Paronnaud. Myndin fékk glimmrandi góða dóma og mikið lof. Hún var m.a. tilnefnd til Óskarsverðlauna árið 2008 í flokki teiknimynda.

Árið 2011 leikstýrði hún annarri mynd ásamt Paronnaud eftir annarri bók eftir sig, Chicken With Plums. Ári seinna leikstýrði og skrifaði hún The Gang of Jotas sem fékk ekki alveg jafn fína dóma og hinar tvær. Svo kom hún firnasterk til baka árið 2014 með vanmetnu snilldina The Voices, þar sem Ryan Reynolds fer á kostum sem rugludallurinn Jerry, hundurinn Bosco og kötturinn Mr. Whiskers.

 

Lynne Ramsay

Hin skoska Ramsey er mikill meistari sem hefur einstaklega næmt auga fyrir fallegrum smátriðum og sterkri myndbyggingu. Eins og flestar hinar konurnar á þessum lista þá hefur hún ekki gert tugi mynda, en er með 4 perlur undir beltinu sem allar taka föstum tökum á óþægilegum málefnum. Frumraunin Ratcatcher kom út 1999 og vakti töluverða athygli, en hún er óþægileg áhorfs og ekkert sérstaklega upplífgandi. En afskaplega falleg í ljótleika sínum.

Næst kom költ myndin Movern Callar árið 2002. Árið 2011 kom svo þekktasta myndin hennar, sálfræðitryllirinn We Need to Talk about Kevin, sem mörgum þótti vera ein allra besta mynd ársins. Tilda Swinton fór afskaplega vel með mjög krefjandi hlutverk og uppskar Golden Globe fyrir frammistöðuna, en hlaut því miður ekki náð fyrir augum Óskars-akademíunnar. You Were Never Really Here sem er fjórða og nýjasta mynd Ramsay kom út fyrr á þessu ári (2017) og fékk dynjandi lófaklapp í tæpar 7 mínútur á Cannes síðasta vor.

Hérna er mjög áhugaverð greining á myndum Ramsay:

 

Sofia Coppola

Margir rúlluðu augunum þegar Sofia Coppola ákvað að vippa sér á bakvið myndavélina eftir stuttan, en frekar slæman leikferil (hún fékk tvær Razzie tilnefningar fyrir frammistöðu sína í Godfather III, úff). En fyrsta myndin hennar, The Virgin Suicides, hlaut einróma lof gagnrýnenda og kom mörgum í opna skjöldu. Næst á eftir kom hin ljúfsára Lost in Translation sem blés nýjum glæðum í feril Bill Murray og Coppola uppskar bæði Óskar (besta frumsamda handrit) og Golden Globe (besta söngva-og/eða gamanmynd).

Hún var einnig tilnefnd til Óskars sem besti leikstjóri fyrir hana, en var einungis þriðja konan í sögu Óskarsins sem hefur hlotið þann heiður. Árið 2006 kom svo fyrsta floppið hennar út, Marie Antoinette, sem hlaut frekar dræmar viðtökur. Fjórum árum síðar mætti hún eldhress til leiks með hina mjög svo sjarmerandi Somewhere, sem sýndi nýja og mýkri hlið á gamla 90’s töffaranum Stephen Dorff. The Bling Ring með Emmu Watson kom út árið 2013 og fékk frekar misjafnar viðtökur, en á líklega eftir að enda sem költ mynd einn daginn. Nýjasta myndin hennar, The Beguiled, fékk hinsvegar glimmrandi móttökur og Coppola vann Gullpálmann fyrir bestu leikstjórn.

 

Kathryn Bigelow


Flestir ættu nú að kannast eitthvað við Kathryn Bigelow, en hún er búin að vera í bransanum síðan á áttunda áratugunum og hefur leikstýrt heilum helling af myndum. Meðal annars 80’s vampíruhryllingnum Near Dark, besta sörfbretta brómansi allra tíma; Point Break, framtíðartryllinum Strange Days og svo að sjálfsögðu The Hurt Locker sem landaði henni þeim heiðri að verða fyrsta konan til að vinna Óskar fyrir leikstjórn. En til gamans má geta að fyrrverandi eiginmaðurinn hennar, James Cameron, var einnig tilnefndur til Óskars fyrir leikstjórn sama ár.

 

Fleiri áhugaverðir leikstjórar:

Jennifer Kent (The Babadook)
Ana Lily Amirpour (A Girl Walks Home Alone at Night, The Bad Batch)
Mary Harron (I Shot Andy Warhole, American Psycho)
Karyn Kusama (Girlfight, The Invitation)
Leigh Janiak (Honeymoon)
Nicole Holofencer (Lovely and Amazing, Enough Said)
Ava Duvernay (Selma)
Dee Rees (Mudbound, Pariah)
Kimberly Peirce (Boys Don’t Cry, Stop Loss)