Þegar fólk hugsar „teiknimynd“ þá koma oftast upp hugrenningatengsl við saklausar barnamyndir með syngjandi og dansandi krúttlegum dýrum eða einföldum hetjum í ævintýraleit. Alltof margir setja allar teikni/hreyfimyndir undir sama hattinn. Brad Bird (leikstjóri The Incredibles, The Iron Giant, o.fl) hafði þetta um það að segja:

“Animation is not a genre. And people keep saying, “The animation genre.” It’s not a genre! A Western is a genre! Animation is an art form, and it can do any genre. You know, it can do a detective film, a cowboy film, a horror film, an R-rated film or a kids’ fairy tale. But it doesn’t do one thing. And, next time I hear, “What’s it like working in the animation genre?” I’m going to punch that person!”

Eins og Brad bendir réttilega á þá er galið að flokka þetta listform í einn flokk, þar sem það spannar alla flokkana.

Hérna eru fimm myndir sem eiga það allar sameiginlegt að vera áhugaverðar, marglaga, átakanlegar – og alls ekki við hæfi barna.

 

WHEN THE WIND BLOWS (1986)

Kolsvört háðsádeila byggð á samnefndri teiknimyndasögu eftir Raymond Briggs. Hún gerist í kalda stríðinu og fjallar um eldri hjón, James og Hilda, sem búa í enskri sveit og eru ekki alveg skörpustu hnífarnir í skúffunni. Þegar hálftími er liðinn af myndinni þá fellur kjarnorkusprengja á England, en skötuhjúin lifa af. Eftir það liggur leiðin beint niður á við fyrir þau og það verður verra með hverri mínútunni að fylgjast með þeim. Sérstaklega eftir að áhrif geislaeitrunar gera vart við sig. Stíllin er mjög áhugaverður, en blandað er saman lifandi efni, ljósmyndum og svo teikningum. Titillag myndarinnar er samið og sungið af David Bowie, en Roger Waters samdi tónlistina í henni.

 

THE PLAGUE DOGS (1982)

Eftir að hafa gert krúttlegu kanínumyndina Watership Down og hugsanlega eyðilagt heilan herskara af börnum, ákvað Martin Rosen að finna sér ennþá ánægjulegra viðfangsefni. Hann gerði teiknimynd eftir annarri Richard Adams bók. Og hvað er ánægjulegra en mynd um tvo hunda sem sleppa út af tilraunastofu þar sem þeir hafa þurft að þola allskonar viðbjóð, bara til að vera eltir útum allar trissur því þeir eru mögulega sýktir af kýlapest (bubonic plague) – eins og nafn myndarinnar vísar í. Þessi er ekki fyrir viðkvæma, en er vel þess virði að sjá, því undir allri grimmdinni og ljótleikanum er afskaplega falleg saga um ást, vináttu og viljann til að lifa af.

 

GRAVE OF THE FIREFLIES (HOTARU NO HAKA, 1988)

Þessi er fræg fyrir að ná að kreista fram tár úr allra hörðustu steinum og það að Roger Ebert kallaði hana eina bestu stríðsmynd sem gerð hefur verið. Í stuttu máli fjallar hún um tvö systkini, Setsuko og Seita, sem enda munaðarlaus á vergangi í Japan í seinni heimsstyrjöldinni. Hún er brútal, en líka alveg ofboðslega falleg. Skylduáhorf fyrir allt áhugafólk um góðar kvikmyndir, en ekki gleyma tissjúinu. Svo er gott að lyfta sér upp aftur með því að horfa á My Neighbour Totoro beint á eftir, en þær voru einmitt sýndar saman í bíó í Japan á sínum tíma.

 

WALTZ WITH BASHIR (VALS IM BASHIR, 2008)

Ísraelski leikstjórinn Ari Folman reynir að púsla saman minningum sínum um stríðið í Líbanon árið 1982 og komast til botns í því hvort að hann hafi átt þátt í fjöldamorðunum í Beirút. Fersk nálgun á mjög erfitt viðfangsefni, en öll myndin er teiknuð, fyrir utan eina lykilsenu. Myndin fór sigurför um heiminn þegar hún kom út og er meðal annars fyrsta teiknimyndin sem tilnefnd hefur verið bæði til Óskars og Golden Globe verðlauna sem besta erlenda myndin (hún fékk hnöttinn en ekki Óskarinn). Ekki voru samt allir jafn hrifnir af henni, til dæmis er hún stranglega bönnuð í Líbanon.

 

ANOMALISA (2015)

Enn eitt meistaraverkið frá Charlie Kaufman. Þetta er fyrsta hreyfimyndin frá honum, en hann leikstýrði henni í samstarfi við stop-motion sérfræðinginn Duke Johnson. Myndin er algjört augnakonfekt og það er mikil natni lögð í hvert einasta smáatriði. Michael Stone er giftur miðaldra maður í tilvistarkreppu sem fer á ráðstefnu í Cincinnati til að kynna nýjustu bókina sína. Allir í kringum hann hljóma eins og líta svipað út. Allt er ósköp mónótónískt þangað til hann hittir Lisu (Tom Noonan talar fyrir alla karakterana nema Michael og Lisu) og verður yfir sig hrifinn af henni. Anomalisa er átakanleg á allt annan hátt en hinar myndirnar á þessum lista. Það er enginn dauði, stríð eða tilraunir á dýrum hér. Bara óbærilegur einmannaleiki, tilvistarkreppa og geðveiki. Þrátt fyrir þungt innihald tekst henni líka að vera merkilega fyndin út í gegn. Myndin skartar líka einu allra innilegasta ástaratriði síðan Don’t Look Now kom út.