Stundum er ekkert betra á fallegu haustkvöldi en að fá sér kakó, breiða yfir sig teppi og horfa á vel gerða heimildarmynd.

Rennum yfir nokkrar góðar.

 

GRIZZLY MAN (2005)

Timothy Treadwell var mjög skrautlegur maður sem skartaði glæsilegri prins Valíant klippingu og gat státað sig af því að hafa búið 13 sumur meðal bjarndýra í Katmai þjóðgarðinum í Alaska. Þangað til hann var étinn af einu þeirra. Timothy var duglegur að taka upp ævintýri sín með björnunum og náði alveg óhemju flottum skotum af sér og þeim saman.

Myndin er samsett af upptökum frá Timothy, ásamt viðtölum við vini og aðstandendur hans, margskonar sérfræðinga og svo er æðislegt voice-over frá Werner Herzog sem bindur myndina listilega vel saman (en hann leikstýrði einnig myndinni). Myndin hefði auðveldlega getað snúist upp í að gera bara grín að Timothy, enda er hann mjög auðveldur skotspónn, en Werner nálgast viðfangsefni sitt af virðingu og nærgætni og nær að draga upp mynd af manni sem er ekki bara kjánalegur og öðruvísi, heldur líka margbrotinn, viðkvæmur og mjög andlega veikur.

 

CAPTURING THE FRIEDMANS (2003)

Myndin fjallar um Friedman fjölskylduna, sem á yfirborðinu virðist vera frekar týpísk amerísk úthverfafjölskylda. En á níunda áratugnum voru feðgarnir Arnold og Jessie Friedman handteknir fyrir barnamisnotkun. Myndin er unnin upp úr heilum helling af heimamyndböndum sem voru til af fjölskyldunni, sérstaklega var til mikið efni frá þeim tíma sem Jessie og Arnold biðu eftir að réttarhöldin yfir þeim hæfust. Myndin var tilnefnd til Óskars í flokki heimildarmynda árið 2003 en tapaði fyrir The Fog of War.

 

THE CENTRAL PARK FIVE (2012)

Nafnið vísar í 5 unglinga sem dæmdir voru fyrir að ráðast á og nauðga skokkara í Central Park árið 1989. Það myndaðist mikið fjömiðlafár og múgæsingur í kringum málið á sínum tíma og það var mikill þrýstingur á lögregluna að handtaka einhvern sem fyrst fyrir árásina. Úr varð að lögreglan skellti skuldinni á hóp vandræðaunglinga sem allir neituðu sök. Þeir enduðu samt á að eyða á milli 6-13 árum af lífi sínu á bak við lás og slá fyrir verknaðinn. Þangað til að raðnauðgarinn og morðinginn Matias Reyes játaði að hafa verið gerandinn í þessu máli líka. Farið er ofan í saumana á rasismanum, óvönduðum vinnubrögðum hjá lögreglunni og þrýstingnum sem umkringdi málið og leiddi til þess að 5 saklausar manneskjur voru sakfelldar.

 

Dear Zachary (2008)

Þegar besti vinur hans, Andrew Bagby, er myrtur ákveður kvikmyndagerðarmaðurinn Kurt Kuenne að gera heimildarmynd um hann. Aðallega svo að barnungur sonur Andrews, Zachary, gæti átt eitthvað til að minnast pabba síns seinna meir. En eins og svo oft í lífinu þá fara hlutirnir ekki alveg eins og maður áætlar og það sama á við um þessa mynd. Mælt er með að fólk fari kalt inn í hana og kynni sér sem minnst um söguþráðinn áður en horft er.

 

Tickled (2016)

 

Þessi gullmoli byrjar sem heimildarmynd um “competitve endurance tickling” (keppnis kítl?), en endar sem eitthvað allt, allt annað. Best er að segja ekkert um framvinduna í þessari því gott er að vita sem allra minnst um hana áður en horft er. Hún er algjör rússíbanareið og líklega ein mest spennandi heimildarmynd síðustu ára. Sjaldan hefur tagline myndar átt eins vel við: It’s not what you think.

 

Aðrar frábærar heimildarmyndir sem vert er að skoða:

Lake of Fire (2006)

Jesus Camp (2006)

The King of Kong (2007)

Blackfish (2013)

Going Clear (2015)