Á rúmum 22 árum hefur leikstjórinn David Fincher skorið út einn merkasta kvikmyndaferil sinnar kynslóðar og gefið áhorfendum heilbrigðan skammt af eymd, sársauka og kolsvörtum húmor. Í tilefni þess að nýjasta kvikmynd hans lítur nú dagsins ljós fer Bíóvefurinn yfir feril mannsins frá upphafi, í von um að enn fleiri dragist inn í sinnepsgula heim leikstjórans.

Þegar þetta er skrifað situr David Fincher á áhugaverðum stað í lífinu, en hann mætti vera skárri: Sjáið til, í sínu núverandi formi hefur nafn hans tekið sér bólfestu meðal flestra kvikmyndaunnenda og bransinn í heild sinni lítur vel á hann; en hins vegar svífur nafnið rétt utan við sjónarsvið almennings. Því eru það oftast, fyrir áhorfendum, myndirnar sem keyra manninn, en ekki maðurinn sem keyrir myndirnar. Áhrifin eru þá slík að Fincher er eins og stendur sviptur auteur-stöðu sinni fyrir mörgum og verðskuldar bara gott “jááá, hann,” þegar að glæsti ferillinn er nefndur.

Þvert á móti, þá á maðurinn í raun að baki sér heildstæð kvikmyndverk sem dansa öll stefnufast eftir myrka, eymdarlega og gullfallega takti Finchers. Það eru þessi taktföstu kvikmyndaverk sem við ætlum að bíta vel í í dag, kæri lesandi, hvert á fætur öðru.

David Fincher hóf feril sinn sem brellumaður fyrir Korty Films á níunda áratugnum, en fljótt fór hann síðan í faðm George Lucas, með ráðningu sinni til Industrial Light & Magic árið 1983. Þar vann hann við myndatöku og brellur í eitt ár áður en hann hélt áfram sinn veg, sem varð til þess að hann uppgötvaði heim auglýsinganna. Ákveðið hjónaband óx síðan þegar að hann færði sig yfir í tónlistarmyndbönd, en þar skapaði hann sér nafn fljótlega og var ekki lengi að hefja störf með stærsta tónlistarfólki áratugsins. Hann gekk síðar til liðs við framleiðslufyrirtæki Sigurjóns Sighvatssonar og Steve Golin, Propaganda Films sem opnuðu fleiri dyr. Þetta boðaði brátt tíunda áratuginn í garð og á einum örlagaríkum degi var hnippt í Fincher til að taka við verkefni af leikstjóranum Vincent Ward, sem hafði verið rekinn burt. Með örfáa mánuði til undirbúnings og handrit sem neytt var í endurskrifun, lagði David Fincher upp í sína fyrstu kvikmynd.

 

Alien 3 (1992)

Fincher1-300x100

Hörkukvendið Ellen Ripley hefur brotlent á fjarlægri plánetu sem hýsir aðeins gríðarstórt fangelsi, einungis fyrir karlmenn. Þung trúarrækni hangir yfir mönnunum, sem taka ekki vel í komu Ripley, en hlutirnir fara úr öskunni í eldinn eftir að titlaða geimveran lætur á sér kræla.

Margir myndu kalla Alien 3 verstu mynd Fincher, sem eitthvað er til í, þar sem hann afneitaði henni sjálfur; en það má ekki taka frá því að á köflum er myndin hreint gull, og andrúmsloftið og kvíðatilfinningin sem böðuðu síðari myndir leikstjórans eru í fullu formi hér. Myndin missir stundum fótfestuna og kolfellur í síðasta þriðjungnum, en hún tók Alien-myndirnar í áhugaverða átt og fær stórt prik fyrir að reyna að setja endapunkt á svona fræga seríu. Það sem hægt er að taka mest út frá henni hins vegar er líklegast ryðgaða og dimma útlitið, en stíll Finchers fæðist hér og stundum lítur myndin hreinlega betur út en forverar sínir og í versta falli reynast rammarnir gott desktop-skraut.

Fincher hatar hana kannski, en allir verða að byrja einhversstaðar og strax voru sáð fræ sem myndu blómstra með tilkomu seinni myndar hans. Eftir hrikalega framleiðsluferli Alien 3 dró Fincher sig í hlé og sá ekki fram á að gera aðra kvikmynd. Eitt og hálft ár hafði liðið síðan að hann sýndi einhverju áhuga, þegar að New Line Cinema sendu honum handrit eftir Andrew Kevin Walker, en gleymdu að breyta átakanlegu endasenunni. Fincher var gripinn af sögunni og lagði í að gera myndina með það skilyrði að endirinn héldi sér. Með því hófst framleiðsla á öðru verkefninu hans.

Seven (1995)

Fincher2-300x100Lögreglumennirnir William Somerset og David Mills elta uppi raðmorðingja sem stælar drápin eftir Dauðasyndunum sjö úr Kristnidómi.

Á blaði hljómar Seven nákvæmlega eins og mörghundruð systkyni sín frá tíunda áratugnum, en það hjálpaði við að draga inn fólk sem vildi bara hörkugóða mysteríu; sem það fékk. Handritið var þó skrifað með meiri metnaði en það og í höndum Finchers varð það að níhílískri og ógeðfelldri för í gegnum Helvíti á Jörðu. Myndræni stíll leikstjórans tók á flug og málaði upp grimman veruleika sem tekur sér bólfestu utan tíma og rúms og kafar með höfuðið fyrst ofan í eðli illskunnar og mörkin sem skilja að menn og skepnur. Línulögð í gegn var sterk kvíðatilfinning sem hélt áhorfandanum á tánum hverja einustu sekúndu, en tónskáldið Howard Shore undirstrikaði það með hljóðrás sem laumaði sér undir húðina.

David Fincher var mættur.

Áður en sjálf framleiðslan á Seven hófst hafði Fincher fengið handritshöfund hennar til að hjálpa sér við að endurskrifa annað handrit sem honum langaði að kvikmynda sem fyrst. Eftir að Brad Pitt fékkst í Seven tók hún forgang, en endurskrifun á hinu handritinu hélt áfram út ferlið og inn í árið 1996, þegar það var formlega sett af stað. Þar sem Seven sló í gegn hækkaði fjármagn myndarinnar talsvert og var ekki langt þar til framleiðslan hélt til San Francisco í tökur; en ári síðar leit myndin dagsins ljós.

 

The Game (1997)

Fincher3-300x100

Nicholas Van Orton er moldríkur fjárfestari sem lifir einangruðu lífi frá fjölskyldu og ástvinum. Á afmælisdeginum gefur bróðir hans honum boð í hinn titlaða Leik, sem mun að sögn breyta lífi Nicholas; hvort sem það verði til hins betra eða verra.

Aðal markmið myndarinnar var að skapa verndarsvæði, heimilið, hugtak sem allir áhorfendur geta tengt sig við, og síðan umturna heiminum í kring yfir í einkennilega og óþekkta útgáfu af honum eins og við þekkjum hann. Jafnvel sjálft heimilið er ekki verndað í veröld The Game, en úr þessu var spunnið þrælspennandi púsluspil sem hélt áhorfendum hringsnúandi. Þegar litið er á heildina tvístrar myndin flestum og kvarta margir að endalokin svíkja restina. Það er ekki erfitt að sjá hvernig hún fór í taugarnar á fólki þegar að credit-listinn fór að rúlla, en hins vegar eiga mörg slík yfirlit það til að gera lítið úr myndinni, þar sem nú var orðið ljóst að David Fincher gerði ekki “bara” spennumyndir. Með The Game hafði hann galdrað upp lítið innlit í öfgar yfirvalds, xenófóbíu og einstaklingsbundins ótta.

Ári á undan hafði rithöfundurinn Chuck Palahniuk gefið út sína fyrstu bók og greip hún athygli Finchers. Hann reyndi að kaupa kvikmyndaréttinn, sem gekk ekki, en áhugi hans á verkefninu fréttist út. Eftir útgáfu The Game fékk hann boð frá 20th Century Fox, sem höfðu keypt réttinn á slikk, um að leikstýra aðlögun á bókinni; en allt í allt voru þrír leikstjórar í viðbót í pottinum um hver fengi starfið: Peter Jackson, Bryan Singer og Danny Boyle. Vegna áhugaleysis hurfu þeir allir, en Fincher tók glaður við starfinu. Hinn nýbakaði handritshöfundur, Jim Uhls, vann ásamt Fincher að handritinu og áður en þeir vissu var komið stærsta verkefni sem leikstjórinn hafði tæklað hingað til.

Fight Club (1999)

Fincher4-300x100Andvaka hvítflibbi kynnist sápuframleiðandanum Tyler Durden og dópkvendinu Marla Singer, en úr þessum hittingum fæðist hin titlaða neðanjarðarhreyfing sem fer fljótlega úr böndunum.

Fight Club leit gagnrýnin á stöðu karlmanna við enda tíunda áratugarins, þar sem lífið hafði verið ansi gott síðustu ár og var hér því komin heil kynslóð getin af aðgerðarleysi og fyllt af gríðarlegri efnishyggju og gremju vegna þess. Sú gremja var notuð sem leiðarljós ofbeldisfullu slagsmálanna í myndinni og efnishyggjan lagði grunninn fyrir brengluðu útgáfuna af Búddista-heimsspeki sögunnar: Aðeins þeir sem eiga ekkert, geta allt. Myndin tók líka á gríðarlegu íhaldssemi trúarskoðananna í Bandaríkjunum, bæði varðandi æðra afl og fjölskyldulíf, og baðaði þeim í bullandi anarkisma og vonleysi. Allt gert með kolsvörtum húmor beint í æð, frammistöðum sem seint gleymast, truflaðari sýrupopptónlist frá Dust bræðrum og leikstjórn frá kolklikkuðum Fincher sem henti hugmyndinni um kamerumann út um gluggan.

Það var þó ekki dans á rósum þegar að þetta þrekvirki kom út, en oft var hún talin umtalaðasta ‘mainstream’ mynd síðan A Clockwork Orange. Á einum stað var hún sögð vera andvíg kapítalisma, samfélaginu og sjálfum Guði, allt í sömu setningunni. Fincher hló ásamt aðstandendum myndarinnar bakvið tjöldin á meðan að heimurinn annað hvort át upp eða reif í sig Fight Club, en þó viðbrögðin hafi skemmt honum, hafði framleiðsluferli myndarinnar tekið sinn toll. Hann ákvað að næsta verkefni yrði mun minna og enn þéttara, en handritshöfundurinn David Koepp gaf honum tækifæri til að gera einmitt það. Unnið var út frá þeirri pælingu að mest öll myndin gerðist aðeins á einni staðsetningu og gat Fincher því sest niður og kortlagt öll skot vel fyrir tökur. Hann skipulagði ferlið kannski aðeins of ítarlega, þar sem lítil vandamál urðu að stórum, enda gaf áætlunin ekkert rými fyrir mistök. Á einum tímapunkti var Fincher nánast búinn að gefast upp og hætta við, en stúdíóið þrýsti á hann að halda ótrauður áfram. Allt endaði þó vel og myndin kom út árið 2002, sem bauð leikstjórann velkominn inn í 21. öldina.

 

Panic Room (2002)

Fincher5-300x100Mæðgin Meg og Sarah Altman flytja inn í gríðarstórt hús sem á að marka nýtt upphaf fyrir þær báðar. Því er þó fljótlega raskað þegar að þrír innbrotsþjófar komast inn á heimilið um miðja nótt og neyðast mæðgin til að flýja inn í öryggisklefa. Vandinn er, það eina sem þjófarnir vilja er inni í klefanum.

Fincher hefur sjálfur kallað Panic Room “deitmynd” og sagt að hún eigi vel heima í B-flokki kvikmynda, en að mörgu leiti er það einmitt ferskt hversu hrein spennumynd hún reynist vera. Kaldhæðnin er þó sú að jafnvel þótt hann reyndi að skapa hreinan og beinan þriller, má segja að lesið hafi verið meira í Panic Room en flestar myndirnar hans upp að þessu. Litið var á hana bæði sem upphyllingu á kvenlegum gildum í nútíma myndum og sem and-feminískan áróður þar sem konan er fórnarlamb. Einnig kallaði hún á ofsóknarkennd Bandaríkjamanna með aragrúa af myndavélum og skermum sem fylgdust með hverju horni hússins í myndinni; Það var jafnvel gengið svo langt að kalla myndina hugleiðingu á dauðleika mannsins. Hverjum sem það skiptir, þá náði Fincher markmiði sínu og ríghélt áhorfendum út keyrslutímann.

Ári eftir útgáfu Panic Room fékk leikstjórinn 160 blaðsíðna handrit í hendurnar frá James Vanderbilt byggt á einu frægasta morðmáli Bandaríkjasögunnar. Hins vegar voru margar staðreyndir og upplýsingar í handritinu ekki áræðanlegar og vildi Fincher því endurskrifa það, en hefja ítarlega rannsókn á málinu áður. Fincher, Vanderbilt og framleiðandinn Bradley Fischer eyddu því mörgum mánuðum í að taka viðtöl, lesa lögregluskýrslur og fara yfir gömul sönnunargögn í von um að styrkja við frásögn myndarinnar um málið. Smám saman fór sagan að taka á sig heildstæðari mynd og var ekki langt þar til leikararnir voru ráðnir og stokkið var í tökur. Við þetta hafði myndast stærsta bil á milli kvikmynda Finchers frá upphafi, en allt erfiðið borgaði sig þegar að aðdáendur fengu að líta gripinn augum árið 2007.

 

Zodiac (2007)

Fincher6-300x100Mál hins alræmda Zodiac morðingja er tekið fyrir, en eftir að lögreglan skjögrar í rannsókn sinni tekur teiknarinn Robert Graysmith málin í sínar hendur til að finna vonandi sökudólginn.

Öll rannsóknarvinnan borgaði sig svo sannarlega, enda varð Zodiac að einni áhugaverðustu ráðgátu kvikmyndanna síðustu ára. Galdurinn var í huglægu nálgunninni, en myndin kafaði djúpt ofan í áráttuna og þörfina til að skilja sem keyrði aðalpersónurnar áfram og hélt í kjölfarið áhorfendum einu skrefi á eftir. Það sem hefði auðveldlega geta orðið að adrenalínfylltri Hollywood ræmu hélt sig óbugandi við veruleikann og andrúmsloftið sem málið hafði á aðstandendur: Það tók sinn toll. Hver vísbending sem leiddi mögulega á áhugaverða staði flækti hlutina bara enn meira og ólgusjór af vonbrigðum böðuð tímabilið; en einmitt með þessu hugarfari var áhorfandinn settur fastlega í skó Robert Graysmith og fjölmargra lögreglumanna sem eyddu lífi sínu í vangaveltur.

Samhliða Zodiac hafði Fincher tekið að sér að færa handrit, úr smiðju Eric Roth og Robin Swicord, lauslega byggt á smásögu frá árinu 1922 yfir á hvíta tjaldið. Myndin var búin að ferðast á milli framleiðenda og leikstjóra í yfir tuttugu ár í mismunandi handritsformum þangað til að hún lenti í öruggum höndum Finchers. Á meðan að eftirvinnsluferlið fyrir Zodiac stóð yfir hóf hann almenna framleiðslu á verkefninu og hélt síðan til Louisiana til að hefja tökur, en myndin endaði á að vera sú dýrasta á hans ferli; staða sem enn hefur ekki breyst.

 

The Curious Case of Benjamin Button (2008)

Fincher7-300x100Líf Benjamin Button hefst undir undarlegum kringumstæðum árið 1918, þar sem hann fæðist með líkamskvilla gamalmennis en yngist eftir því sem hann “eldist”. Hann ferðast því öfugt í gegnum tímann og kynnist á leiðinni litríkum persónum, á meðan að heimurinn í kring tekur á stærstu tæknivæðingu sögunnar.

Frá upphafi var Benjamin Button frábrugðin öllu því sem á undan hafði komið frá Fincher, enda var hún ekki keyrð áfram af dimmum cynisisma eða grípandi spennu. Í staðinn keyrði hún á baráttunni á milli ástríðunnar fyrir lífinu og óttann við dauðann, sem býr í öllum; ásamt því að líta á framgang tímanns með bæði hlutlægum og huglægum augum. Í kringum þetta var svo sköpuð rammafrásögn í nútímanum, sem hitti reyndar ekki alltaf í mark, en baðaði alla myndina í melankólíu og bullandi nostalgíu; og á sama tíma boðaði raunhæfa myndlíkingu fyrir sjálfan Dauðann: Fellibylurinn Katrína. Úr varð sjónrænt ferðalag sem fagnaði og faðmaði að sér forvitnilega viðhorfi barns á umheiminum; en á sama tíma hágrét yfir sjálfsvitund og raunsæi fullorðinna.

Myndin markaði fyrsta skiptið sem Fincher var tilnefndur fyrir Óskarsverðlaunin sem Besti leikstjóri, þó hann hreppti þau ekki. Í heildina fékk hún 13 tilnefningar, en glamúr verðlaunatímabilsins hélt Fincher ekki aftur. Strax næsta vetur henti hann sér í tökur á verkefni sem hafði verið sett saman samhliða ritun bókarinnar sem það spratt upp úr: Sannsöguleg frásögn af sköpun stærsta stafræna fyrirbæris sem nútíma æska hafði kynnst. Hann og handritshöfundurinn Aaron Sorkin, tveir gjörólíkir heimar, heilluðust báðir af ljóðræna harmleiknum sem raunveruleikinn hafði skapað og lögðu því í að skila þeim eiginleika upp á hvíta tjaldið eins og brennandi byssukúlu.

 

The Social Network (2010)

Fincher8-300x100Háskólaneminn Mark Zuckerberg lendir í löngu og ströngu dómsmáli á móti (fyrrum) besta vini sínum Eduardo Saverin og Harvardmönnunum Divya Narendra og Winklewoss tvíburnum. Þar berjast þeir allir um eignarréttinn á hinni títanísku vefsíðu Facebook.

Þar til myndin kom út hljómaði þetta eins og arfaslök ákvörðun fyrir báða Sorkin, sem skrifaði hraðskreytt og jarðbundið gamandrama, og Fincher, sem leikstýrði myrkum og pessimískum harmsögum. Enginn sá klassíkina í sönnu frásögninni sem þeir hrifust af, þar til sýningarvélarnar fóru að rúlla. Úr því sem virtist hefðbundið dómsmál og kunnulegur rígur, drógu Fincher og Sorkin átakanlega sögu um græðgi, hroka, svik, vináttu og einsemd í óendanlega tengdum heimi nútímans. Myndin skaut frá sér setningum og tilfinningum með leifturhraða, sem endurspeglaði hugarfar aðalpersónu hennar, Zuckerberg, á heillandi máta og málaði sorglega upp mann sem allur heimurinn þekkti. Rofinn vinskapur tveggja einstaklinga umbreyttist þannig í súrsæta ljósmynd af glamúr og örvæntingu nútíma samfélagsins.

Heimurinn hélt varla vatni yfir þessari nýjustu mynd Finchers og græddi hann sína seinni tilnefningu á ferlinum, og eignaðist líka góða vini í tónlistar tvíeykinu Trent Reznor og Atticus Ross. Í millitíðinni þó, tók hann ákvörðun sem hljómaði eins einkennilega og sú sem hafði leitt hann að Social Network: Hann myndi færa fyrstu bókina í vinsæla þríleik Stieg Larsson yfir á hvíta tjaldið með hjálp Steven Zaillian. Það hjálpaði ekki að ári fyrir Social Network höfðu Svíar tekið sig til og aðlagað allar þrjár bækurnar að kvikmyndaseríu. Fincher var því ekki aðeins með byrði lesenda á herðunum, heldur einnig gekk hann á förnum (og fyrir sumum, heilögum) vegi. Haldið var til Svíþjóðar um haustið og hófust aðstandendur myndarinnar við að setja saman sýna útgáfu.

 

The Girl with the Dragon Tattoo (2011)

Fincher9-300x100Blaðamaðurinn Mikael Blomkvist fær tækifæri til að sleppa frá vandamálunum sem herja á hann með tilkomu milljónamærings sem biður hann um að finna barnabarnið sitt; 40 árum eftir hvar hennar. Hakkarinn og í raun alt mulig hörkukvendið Lisbeth Salander eltir uppi Blomkvist og aðstoðar við að leysa ráðgátuna í ísilögðum stórhýsum og skógum Svíþjóðar.

Ef það var eitthvað sem var aldrei neinn vafi á við sköpun myndarinnar, þá var það að hún myndi svo sannarlega verða mun grimmari en sænska útgáfan. Svo varð raunin, en ásamt því bauð myndin upp á allt aðra tæklun á titilpersónunni heldur en sú sem Noomi Rapace hafði sementað sig með tveimur árum fyrr. Fincher og Zaillian vildu draga upp tvær stórar hliðstæður í ofbeldi gegn konum, í formi nauðgara og morðingja, og tvískipta frammistaða Rooney Mara virkaði sem grunnur fyrir slíkar hliðstæður; og á sama tíma sem grimm refsing. Margar ákvarðanir voru kannski einkennilegar fyrir bandaríska nálgun, en sjálfur leikstjórinn var hér á heimavelli. Eftir langa pásu gat hann strekkt spennutaugar áhorfenda á ný og skapað ógeðfellt andrúmsloft með enn ógeðfelldara fólki í skarpri og flottri aðlögun. Titilsenan gat einnig borið höfuðið hátt í samanburði við opnun Seven.

Dragon Tattoo virkaði sem góð upphitun fyrir Fincher, en hann vildi ólmur henda sér í framhöldin; enda seinni bókin hans uppáhalds og hafði hann frekar skýra stefnu í huga. Framhöldin tvö yrðu tekin upp saman og sagan í útgáfu Finchers og Zaillian færi á flug. Hins vegar varð ekkert úr myndunum (hingað til), þar sem Sony treystu ekki fullkomlega á þær eftir frammistöðu fyrstu myndarinnar í kvikmyndahúsum. Því snéri Fincher sér að sjónvarpsskerminum og leikstýrði fyrstu tveimur þáttum House of Cards, ásamt því að framleiða þáttaseríuna þar til bitastæðara verkefni kæmi.

Að lokum kom það, í formi bókar eftir rithöfundinn Gillian Flynn sem greip athygli Finchers við útgáfu. Hún sá um handritið, og saman lögðu þau í að skapa myndina sem við fögnum með þessari grein hér í dag.

 

Gone Girl (2014)

Fincher10-300x100Nick Dunne kemur heim einn daginn og sér að eiginkona hans, Amy, hefur horfið. Hefst þá víðamikil leit sem dregur sviðsljós bandarísku fjölmiðlanna að Nick og einkalífi hans.

Nútíminn hefur náð okkur og því er erfitt að kafa alveg ofan í afhverju Gone Girl er stórkostleg kvikmynd, sérstaklega þar sem áhorfandinn þarf að fara inn á hana blindandi; en það er hins vegar hægt að koma með nokkra punkta afhverju þú ættir að sjá hana sem fyrst:

Ben Affleck og Rosamund Pike hafa sjaldan, ef aldrei, staðið sig eins vel og hér. Hvergi má finna frammistöðu, smáa sem stóra, sem klikkar ekki fullkomlega. Jafnvel Tyler Perry er frábær.
Fincher hefur náð guðslegu valdi yfir stílnum sínum og stundum má nánast sjá hann elskast við kameruna ef áhorfendur fylgjast vel með.
Myndin tæklar nútíma fjölmiðla í Bandaríkjunum (og víða?) og brengluðu útgáfu atburða sem þeir draga upp fyrir áhorfendur heima; ásamt einkenni einstaklinga og sjálfs eðlis sambanda á milli kynjanna; allt með beittri og kolsvartri nákvæmni.
Að lokum, tónlistin eftir þá Reznor og Ross gerir kraftaverk og mun seint yfirgefa líkamann eftir áhorfið. Þung, áhrifarík og umfram allt smellpassar.