Framleiðendur Fast & Furious seríunnar vinna hörðum höndum að því þessa dagana að skoða tökustaði og útvega leyfi fyrir áttundu myndina í röðinni, sem stendur til að gefa út í apríl á næsta ári.

Leikstjórinn F. Gary Gray (eldheitur eftir velgengni Straight Outta Compton) situr nú við stjórnvölinn og mun megnið af tökunum fara fram í New York og Atlanta, en samkvæmt The Hollywood Reporter er einnig verið að íhuga að skjóta í Rússlandi og (viti menn…) á Íslandi.

Variety greindi að auki frá því að lykilsena myndarinnar yrði hugsanlega tekin upp á Kúbu, en þá yrði þetta fyrsta stóra stúdíóframleiðslan sem hefur fengið að kvikmynda þar síðan á sjöunda áratugnum.

Eins og reglulegir bíófarar vita fór ekki lítið fyrir Fast & Furious 7 á liðna árinu og sýndu aðsóknartölur fram á það að þessi sería væri hvergi nálægt því að hætta, þó svo að hún kvaddi Paul Walker með huggulegum hætti. Aðstandendur hafa hins vegar nefnt að áttunda myndin verði nokkurs konar óbeint upphaf að nýjum þríleik.

En þau sem aftur snúa eru vissulega Vin Diesel, Jason Statham, Dwayne Johnson, Michelle Rodriguez, Tyrese, Ludacris og meira að segja Kurt Russell. Lucas Black fær líka stærra hlutverk en ekki hefur sést til hans af viti í seríunni síðan Tokyo Drift kom út.

bond-cars-die-another-day-1

Ætti annars vegar að koma í ljós á næstu misserum hvort eitthvað af þessu liði sé á leiðinni hingað á Klakann, vonandi þá til að gefa okkur betri bílaeltingarleik heldur en sást í Die Another Day.
Þarf ekki mikið til.

 

*UPPFÆRT* – 11.1.

Orðrómar eru komnir nú á loft um að löngu sé búið að negla niður Ísland sem tökustað, og að liðið sé þegar byrjað að skjóta einhver senubrot með bílförmum.