Nú er áttunda (!) myndin í stærstu vöðvabílaseríu heims komin í bíó. Það er auðvitað ekkert grín að þessi sería skuli hafa náð svona langt (og það eru a.m.k. tvær í viðbót á leiðinni).

Við gerðum smá könnun á Facebook-síðunni okkar, Bíófíklar, og spurðum þar fólk hvernig það myndi raða upp þessum sjö sem komnar eru… eða allavega þeim sjö sem flestir hafa séð á þessum tímapunkti. Þetta voru niðurstöðurnar, byrjum aftast:

 

THE FAST AND THE FURIOUS: TOKYO DRIFT

Já, eitthvað voðalega þykir Tokyo Drift vera óvinsæl. Kannski var það skorturinn á lykilteyminu, suðurríkjahreimurinn hjá Lucas Black eða nærvera (áður Lil’) Bow Wow. Hins vegar á myndin sína fylgjendur og verður því ekki neitað að upplýsta Tokyo-borg og töffarataktar karaktersins Han (leikinn af Sung Kang) hafa einhverja sjarma í sér.
Einhverja.

 

IMDb: 6.0
Rotten Tomatoes: 37%

 


FAST AND FURIOUS

Fjórða myndin reyndi að stuða aftur lífi í seríu sem virtist vera deyjandi út. Nú voru helstu fjórmenningarnir (Diesel, Walker, Rodriguez, Brewster) mætt aftur í fyrsta sinn síðan þau sameinuðust átta árum áður. Niðurstaðan kitlaði hörðustu aðdáendur seríunnar en hlaut heldur volgar viðtökur – t.a.m. hefur engin Fjúríus mynd hlotið verri dóma en þessi. Í dag er fjórða myndin – með skringilega titilinn – aðallega séð sem upphitun fyrir þann gír sem serían ákvað síðan að skipta um í kjölfarið á henni – þegar Dwayne Johnson ákvað að þramma inn í hana. Hann er náttúrulega „franchise Viagra“.

 

IMDb: 6.6
Rotten Tomatoes: 28%


2 FAST 2 FURIOUS

Enginn Diesel, engin Brewster (vei!), engin Rodriguez en á móti fengum við Paul Walker í bullandi stuði… eða svo gott sem. Auk þess kynnti þessi mynd fyrir okkur karaktera Tyrese Gibson og Ludacris, sem í retróspekti var bara ágætis hlutur. 2 Fast 2 Furious gaf okkur nokkrar ágætar bílasenur en spilaðist út eins og poppaður Miami Vice þáttur fyrir bílafíkla. Fyrir suma er það ekki endilega svo slæmt.

Og gleymum ekki Evu Mendez.
Mmmm.

 

IMDb: 5.9
Rotten Tomatoes: 36%

 


FURIOUS 6

Mikill hasar, mikil steypa og trúlega lengsta flugbraut kvikmyndasögunnar einkenndi þetta eintak sem tók allt sem Fast Five gerði rétt og rampaði upp hraðann og ruglið, færandi seríuna úr „heist“ geiranum yfir í ofurhetjugeirann. Inn í mixið bættist síðan Gina Carano, Luke Evans og – auðvitað – skriðdreki. Þú getur auðvitað ekki sterað upp bílaseríu sem er komin í sjötta eintakið án þess að lenda á einhverjum tímapunkti á skriðdreka.
Þannig er það bara.

 

IMDb: 7.1
Rotten Tomatoes: 69%


THE FAST AND THE FURIOUS

„Originalinn“ sjálfur. Fyrir marga er það brjáluð nostalgía að henda þessari í tækið og skoða hversu langt þessi flokkur hefur komið frá því að hann hófst með þessari mid-budget kappaksturs-glæpamynd. Allir sem höfðu annars vegar séð Point Break sáu það strax að þetta var í rauninni bara óbein endurgerð á henni, þar sem búið var að skipta út brimbrettum fyrir spyrnukagga. Þökkum glötuðu bíósumari á sínum tíma fyrir velgengni þessarar myndar, því jú, það var sama sumarið og gaf okkur t.d. Pearl Harbor, Jurassic Park III, Planet of the Apes og Swordfish.

Margir virðast þó vera með veikan blett fyrir henni, enda voru þónokkrir í grúppunni sem settu hana efst á sinn lista.

 

IMDb: 6.7
Rotten Tomatoes: 53%

 


FURIOUS 7

Samkvæmt gagnrýnendum er þetta sterkasta stykkið í hópnum, en Furious 7 snertir vissulega taug þar sem að Paul Walker fórst í miðjum tökum. Það sést svolítið á myndinni hvernig hefur þurft að púsla saman myndefni og reddingum til þess að ‘fela’ fjarveruna, en þrátt fyrir það tókst alveg ótrúlega vel að setja saman lokaútgáfuna. Einnig fáum við ofsalega ljúft lítið tribjút í lokin til leikarans. Að öðru leyti er hasarinn bráðskemmtilegur og ýktur, Jason Statham lætur vel um sig fara og myndin hamrar á því sem Back to the Future var löngu búin að spá fyrir árið 2015: Bílar fljúga!

 

IMDb: 7.2
Rotten Tomatoes: 79%

 


FAST FIVE

Sjokker. Myndin sem flutti seríuna á glænýtt level, ekki bara með tilkomu Dwayne Johnson og æðanna hans, heldur stefnubreytingunni sem hún markaði. Allt í einu snérist Furious-serían ekki lengur bara um kappakstur og píur í bikiníum, heldur var búið að skipta um geira og matreiða „heist“ mynd á sterum, þar sem allir helstu karakterarnir (fyrir utan Lucas Black, hjúkk) voru sameinaðir, Marvel-stæl.
Á sínum tíma var þetta líka lengsta og – segjum – massaðasta myndin í röðinni og var eins og leikstjórinn Justin Lin, maðurinn á bakvið fjögur eintök seríunnar, væri kominn í góða æfingu með þetta allt saman.

Fast Five er einfaldlega bara gaman. Hún reynir ekki að vera meira en það, og það er erfitt að kalla það leiðinlegt að sjá Vin Diesel og Johnson berjast hvorn við annan – þó svo að allir vita það hvernig sá bardagi færi í raun og veru.
Dísellinn ætti ekki séns.

 

IMDb: 7.3
Rotten Tomatoes: 77%