Það er fátt skemmtilegra en að fara í bíó, halla sér aftur og njóta myndarinnar á risatjaldi. Það getur gerst að maður lendi á slæmri mynd þótt maður reyni að vanda valið en mun oftar hef ég lent í fyrirbæri sem ég tel verra en slæma mynd. Slæm bíóupplifun.

Fólk að fikta í símanum og að tala smávegis yfir myndinni er ekkert nýtt fyrir bíógesti landsins. Ef þú kemst í gegnum heila bíóferð án þess að lenda í einhverjum dóna með símann á lofti eða að tala um fótboltaleikinn frá í gær, þá ertu nokkuð heppinn aðili. Þessi „smávægilegu“ brot geta farið illa í taugarnar á mér en oftast sogast ég í myndina og tek lítið eftir þeim. Örfáum sinnum hef ég upplifað virkilega slæma bíóferð. Virkileg slæm bíóferð í minni bók er þegar truflun í sal eða bilun tækja dregur mig algjörlega úr myndinni. Ein þannig upplifun er enn fersk í minningu þótt að hún hafi gerst árið 2005 því hún samanstóð af öllum mínum helstu martröðum. Harry Potter and the Goblet of Fire var búin að vera úti í smá tíma þegar ég ákvað að fara með litlu frænku minni á hana. Ég hafði örlitlar áhyggjur af henni. Er hún að fara að tala alla myndina út af bjagaðri enskukunnáttu? Þegar myndin hófst kom í ljós að það átti ekki eftir að vera vandamál.

talking-in-cinema-e1331831554693Myndin hófst en rosalega var hljóðið skrýtið. Það var eins og að hlusta á myndina í gegnum vegg. Svona voru fyrstu fimm mínúturnar þar sem ég skildi nánast ekkert sem var sagt. Hljóðinu var síðan kippt í lag en örfáum mínútum seinna var komin ný tæknibilun. Það vantaði neðri helming skjásins. Á honum voru nú hvít og svört form sem titruðu. Salurinn beið í fimm mínútur í einum stórum leik af „Chicken“. Eftir þann tíma skrapp ég fram, lét þau vita af vandamálinu og settist aftur inn. Skyndilega stöðvaði myndin og skjáauglýsingar prýddu tjaldið. Starfsmaður sagði okkur að nú væri hlé. Tæplega tuttugu mínútur voru liðnar. Það versta var þó eftir því þegar klukkutími var liðinn eftir hlé var hent í annað hlé, „alvöru“ hlé. Uppbygging myndarinnar var sem sagt brotin upp tvisvar.

Tæknin var ekki eina vandamálið því ágætur hópur eldri borgara lagði leið sína á þessa bíósýningu. Greinilega vissu þau ekki að þetta væri framhald að einhverju og skildu ekki stakan hlut. Þau ákvaðu því að leysa myndina eins og púsluspil meðan á myndinni stóð. Þau töluðu alla myndina. Hver einasta lína var krufin og þegar einhver sagði þeim að þegja móðguðust þau og töluðu um það hversu móðguð þau væru. Aldrei hef ég lent í öðru eins þegar kemur að talandi fólki í bíó.

Það er ekkert verra en talandi fólki í bíó. Sýnum bíógestum virðingu og sleppum því að tala, vera í símanum og öllu sem tilheyrir ekki að sitja kyrr og þegja. Bíóhúsin sjálf mega svo endilega vera viss um öll tæknileg atriði áður en sýning hefst. Ég fór á Noah í fyrra og hlutföllin voru öll vitlaus eftir hlé.  Þetta skiptir allt saman máli.