Nú hefur fyrsta sýnishornið fyrir nýja framhaldið af Pixar-færibandinu skriðið upp á yfirborðið – og eins og má gera ráð fyrir víxlast persónurullurnar smávegis í Finding Dory frá 13 ára forvera sínum.

Sagan tekur upp þráðinn u.þ.b. hálfu ári eftir fyrstu myndina. Dory er sífellt ásótt af gömlum minningum úr æsku sinni. Áður en feðgarnir Marlin og Nemo átta sig almennilega á því hefur vinkona þeirra hurfið, þökk sé venjum hennar að synda í svefni, og stefnir hún að því að finna fjölskyldu sína.

Finding Dory er væntanleg sumarið 2016.

 

Við minnum líka á að Pixar-myndin The Good Dinosaur verður frumsýnd hér á landi í lok mánaðarins. Inside Out ætti sömuleiðis að skila sér hingað á Blu-Ray í næstu viku. Ef risaeðlan á að eiga einhvern séns í þá mynd stendur hún frammi fyrir gígantískri áskorun.

Hvað Finding Dory varðar bindir Bíóvefurinn allar vonir um að hér hafi aðstandendur fundið góða framlengingarsögu til að segja í stað þess að huga eingöngu að varningasölunni (af hverju haldiði að Cars 3 sé á leiðinni?). Vonum það besta, og fyrir utan hörmungina Mr. Wrong frá ’96 er Ellen DeGeneres alltaf æði!