the-hateful-eight-poster1Íslenskir Tarantino-fíklar hafa verið duglegir að halda í vonina um að hægt verði að sjá og njóta The Hateful Eight í 70mm formattinu hér á landi, eins og er í boði að sjá hana í völdum kvikmyndahúsum á heimsvísu. Öruggt er líka að segja að þetta sé formið sem að leikstjórinn vill frekar að aðdáendur sínir sjái myndina í, enda fáir kvikmyndagerðarmenn sem styðja filmurnar og athöfnina að njóta einstakrar bíóferðar eins og Quentin gerir.

Í Facebook-grúppunni ‘Kvikmynda Áhugamenn’ situr meira að segja könnun til að athuga hvað QT-aðdáendur yrðu til í að greiða fyrir að sjá myndina í þessu formatti, skildi svona sýning verða að veruleika.

En hver er annars munurinn?

Að áferðinni utanskyldri fylgir sérstakt forspil með 70mm útgáfunni, sem og innbyggt hlé ásamt auka 6 mínútum sem eru ekki í bíóútgáfunni. Þessi svokallaða pjúra Tarantino-upplifun er í kringum 183 mínútur að lengd á meðan hefðbundna bíóútgáfan er 168 mín.

Best er annars að leyfa Samuel L. Jackson sjálfum að fræða hér aðeins um þetta formatt og hvað er átt við þegar menn tala um „Roadshow“ sýningu á The Hateful Eight.

Bíóvefurinn verður annars vegar með sérstaka forsýningu á myndinni þann 30. desember kl. 20:00 í Smárabíói, en glöggir taka að sjálfsögðu eftir að sú sýning verður ekki í 70mm (né með hléi – kaldhæðnislega, einmitt þegar leikstjórinn sjálfur styður hlé).

Undirritaður hefur ítrekað reynt að gramsa fyrir möguleikum þessa máls en virðist sem að líkurnar á slíkri filmusýningu séu litlar sem engar á næstunni, að sögn dreifingaraðila myndarinnar.

Eins og staðan er því miður á Íslandi höfum við yfir engri 70mm vél að ráða og getum þess vegna ekki sýnt hana í því formatti. Við munum fara með hana í almennt release á DCP,“ segir Konstantín Mikaelsson, framkvæmdarstjóri kvikmyndasviðs hjá Senu.

 

The Hateful Eight verður frumsýnd 6. janúar.