Íslenskar þýðingar á erlendum myndum hefur löngum verið skemmtilegt umræðuefni meðal fólks enda hafa þær oft verið ansi kjánalegar (Gott dæmi: Myndin “Turk 182” var þýdd sem “Illa farið með góðan dreng”). Aftur á móti er mun sjaldnar rætt um erlendar þýðingar á íslenskum myndum þar sem þær fara nú yfirleitt framhjá fólki. En við hjá Bíóvefnum höfum ákveðið að bæta úr því og höfum sett saman lista af 10 áhugaverðum enskum þýðingum á íslenskum bíómyndatitlum (auk nokkura fleiri sem okkur fannst skemmtilegar). Sumar eru mjög slæmar, aðrar vægast sagt furðulegar, einhverjar eru bæði og einhverjar bara nokkuð góðar ef maður spáir aðeins í þær, en þær eru allar virði þess að ræða.


(Allar þýðingarnar eru teknar frá kvikmyndavefurinn.is)

 

1. Hvítir mávar – Cool Jazz and Coconuts

Það er erfitt að toppa þetta. Nú hefur undirritaður ekki séð þessa mynd í heild sinni og auk þess mjög langt síðan þannig að kannski er þessi þýðing bara mjög viðeigandi, maður er allavega mun líklegri til að vilja sjá hana ef maður heyrir enska titilinn fyrst frekar en hitt (sem er líka vísun í íslenskt dægurlag og enginn utan Íslands myndi fatta).

Dorks-and-Damsels2. Astrópía – Dorks and Damsels

Æðislega ostakennd þýðing sem kjarnar vissulega umfjöllunarefnið en hljómar líka ansi mikið eins og léleg 80s unglingamynd. Sem þarf svosem ekki að vera slæmt.

3. Stella í orlofi – The Icelandic Shock Station

Titillinn er vísun í meðferðarstofnunina sem Stella hafði stofnað í lok myndarinnar, en engu að síður mjög villandi þar sem áhorfandinn mun líklega búast við allt öðruvísi mynd en hún er. Hvað var að “Stella on Holiday”?

4. Fúsi – Virgin Mountain

Virgin-Mountain-Poster_udenkantHérna er ein nýleg þýðing sem meikar kannski vissan sense og er svosem ágætis lýsing á aðalkarakternum en samt hreint út sagt agaleg. Þetta er titill sem ætti meira við á gamanmynd frá 10. áratugnum sem fjallar um vandræði ungs pilts í yfirstærð við að næla sér í kvenfólk, frekar en þessa hálf-listrænu karakterstúdíu sem myndin er. Hvað voru menn að spá? (En kannski er þessi þýðing bara að virka ágætlega þar sem myndin er þegar búin að fá fullt af verðlaunum erlendis)

5. Gauragangur – Hullabaloo

Hullabaloo er reyndar alveg ágæt þýðing á orðinu gauragangur þótt hún virki undarlega á mann við fyrstu. En hann lætur mann engu að síður halda að myndin sé e.t.v. mun óvenjulegri en hún er í raun og veru. Þessi titill á betri mynd skilið.

6. Villiljós – Dramarama

Önnur þýðing sem virkar fáránlega í fyrstu en er kannski ekki svo slæm ef maður spáir í hana. Orðið “rama” er dregið af “orama” og er það undir áhrifum af gríska orðinu yfir útsýni eða sjónarhorn. Villiljós má segja að bjóði upp á ágætis útsýni yfir drama í íslensku samfélagi, eða nokkur dæmi um slíkt. Engu að síður er erfitt að taka mynd alvarlega með þessum titli og sumir gætu haldið að þetta væri meiri gamanmynd en hún er.

7. Strákarnir okkar – Eleven Men Out

Þessi þýðing er bæði skemmtilegur leikur með fótbolta og samkynhneigð og segir í raun meira en íslenski titillinn, í senn orðaleikur og lýsir ágætlega efnivið myndar um fótboltamann sem kemur út úr skápnum. Einnig er til önnur þýðing af myndinni, “Balls”, en það er öllu vafasamari orðaleikur sem myndi passa betur við unglingamynd frá 9. áratugnum.

ElevenMenOutthe-big-rescue

 

 

 

 

 

 

 

 

8. Algjör Sveppi og leitin að Villa – The Big Rescue

Það veit auðvitað enginn hverjir Sveppi og Villi eru utan Ísland þannig að svona banal titill verður víst að duga. En hverjum datt samt í hug að reyna að selja þessa mynd utan Íslands?

9. Falskur fugl – Ferox

Remote_Control_(1992_movie_poster)Ferox er latneska og þýðir einfaldlega “grimmur”. Einhver tilraun til að vera djúpur hér og um leið lýsa efni myndarinnar, en ekki eins ljóðrænt og íslenski titillinn. Sá titill myndi sem sannarlega vera “lost in translation” en það hlýtur nú að hafa verið hægt að koma með eitthvað betra. Það helsta sem manni dettur í hug er ítalska mannætuhrollvekjan Cannibal Ferox.

10. Sódóma Rvk – Remote Control

Fín þýðing hér enda snýst allt vesenið um fjarstýringuna, en þó kannski ekki mjög spennandi titill ef maður veit ekkert hvað maður er að fara að horfa á. Plakatið sem gert var fyrir Bandaríkjamarkað, og sést hér, er síðan algjört æði og eins “90s” og það gerist.

 

Aðrir titlar:

79 af stöðinni gekk undir titlinum The Girl Gogo á ensku, sem vitnar í aðalkvenpersónuna sem er kölluð Gógó. 79 af stöðinni er vitanlega erfitt að beinþýða, en þegar mynd frá 7. áratugnum er með orðið “Gogo” í titlinum gætu menn kannski búist við einhverju öðru en þeir fá í þessari mynd…

Órói var þýdd sem Jitters á ensku, sem er reyndar fín þýðing. Jitters myndi reyndar útleggjast sem hrollur eða skjálfti á íslensku en það er alveg nógu nálægt, enda myndi orðið órói ekki beinþýðast svo vel á ensku (uneasiness?).

Að lokum er það enski titillinn á Ófeigur gengur aftur (mynd sem er samt líklega aldrei að fara að ganga utan Íslands) en hann er hvorki meira né minna en Spooks and Spirits, ætli það sé eftir sama mann og þýddi Astrópíu sem Dorks and Damsels?