Stutta útgáfan: Sagan helst sú sama með nokkrum óþarfa viðbótum og því miður lítið nýtt í boði fyrir gamla spilara, samt nóg til að gefa aðdáendum gott nostalgíukast.

8

 

 

Langa útgáfan:

Sömu markmið gilda þegar það á að gera barnaleik og barnamynd. Efnið þarf að vera miðað til barna en einnig að geta heillað fullorðna með dýpri húmor, stærri flækjum og góðri sögu. Ratchet and Clank eru búnir að vera til staðar í heil 15 ár og því auðvelt að segja að Insomniac Games séu meira en hæfir í að búa til barnaleiki sem heilla einnig gagnrýnendur og eldri spilara.

Flestir sem byrjuðu að spila þessa leiki sem krakkar eru meiraðsegja orðnir fullorðnir í dag og upplifa eflaust mikla nostalgíu þegar þeir hugsa til leikjanna. Þar af leiðandi heppnast þessi „endurgerð“ fullkomlega. Hún er fullkomin blanda af nýju og gömlu. Léttur grautur af góðri nostalgíu.

Ég spilaði upprunalega Ratchet and Clank leikinn sem kom 2002 og hann var frábær. Grafíkin í þeim leik, miðað við tölvuleiki í dag, var ekki góð en minningin mín af leiknum er fullkomlega endursköpuð í endurgerðinni. Í minningunni voru litirnir við það að springa úr skjánum og óvinirnir, byssurnar og sprengingarnar allar skórkostlegar. Minningarnar, því miður, eru rangar. Þessi endurgerð hinsvegar skapar alla þá töfra sem ég fann þegar ég spilaði leikinn fyrst. Hérna eru litirnir í alvörunni við það að springa úr skjánum. Það er svo mikið í gangi í einu að ég átti erfitt með að trúa því að rammarnir væru ekki að hrynja í fjölda. Hasarinn er villtur, byssurnar flottar og óvinirnir crispy í HD gæðum. Insomniac Games tók minninguna sem allir eiga af leiknum og ákvað að gera hana sanna.

Í bransa þar sem HD uppfærslur af leikjum eru að koma í tonnatali og grafíkin pússuð aðeins til er mjög ferskt að fá algjöra endurgerð af tölvuleik þar sem allt frá hljóði og raddleiks til grafíks og sögu er endurgert. Einmitt eitt af því sem ég nýlega kvartaði yfir í HeavyRain/Beyond uppfærslunni voru að sömu gallar voru enn til staðar og síðast, en þau vandamál einfaldlega eru ekki til staðar hér.

maxresdefault (1)

Þó að leikurinn sé endurgerð af fyrsta leiknum þá virkar hann meira eins og samansafn af öllu sem Insomniac hafa lært á þessum 15 árum sem þeir hafa framleitt leikina. Hann inniheldur helling af byssum úr öðrum leikjum, og nýjum eins og 8-bit byssunni, og upgrade kerfið er það sama og í síðustu leikjum. Þar sem þú getur uppfært allar byssurnar á þrenna hætti og safnað ótal mörgum hlutum til að fá 100% í leiknum er endurspilunargildið alveg heill hellingur. Það vill líka svo heppilega til að það er mjög gaman að safna öllu dótinu. Svo gaman að Insomniac bætti við „Challange Mode“ þar sem þú getur byrjað leikinn upp á nýtt með allar byssurnar sem þú varst með og uppfært þær ennþá meira. Um leið og ég kláraði leikinn fór ég beint í challange mode til að þóknast uppfærslu þörfinni minni og kláraði söguna aftur á nokkrum tímum.

Hann er þó alls ekki gallalaus. Sagan inniheldur þónokkrar skelfilegar tilvitnanir í myndina sem koma út eins og handritshöfundarnir hafi verið neyddir í að troða þeim inn. Betra hefði verið að sleppa öllum tilvitnunum í myndina og leyfa þessu bara að njóta þess að koma út á sama tíma. Einnig þökk sé uppfærslu kerfinu verður leikurinn léttari og léttari því lengra sem líður á hann. Óvinirnir haldast þeir sömu en byssurnar verða öflugari og öflugari. Sérstaklega þegar hann er spilaður í challange mode, sem á að vera erfiðara. Ég var margfalt fljótari að spila í gegnum challange mode þar sem öll vopn voru komin í hæstu stig. Sumum gæti liðið eins og þeir séu ekki að bæta við nægilega miklu nýju efni, sem er auðvitað satt þar sem þetta er endurgerð.  Það má þó horfa á þetta sem þrusugóður ‘Best of’ pakki.