Margir kvikmyndaunnendur kannast við það hvernig frægar kvikmyndir eins og Apocalypse Now, World War Z, The Revenant og Waterworld voru, samkvæmt fólkinu á setti, algerar martraðir í framleiðslu. Allar kvikmyndaframleiðsur eiga sín vandamál í mismiklu magni, en þegar þegar orsakir eru náttúrulegar þá eru lausnir yfirleitt einfaldar. Hollywood og kvikmyndaiðnaðurinn er hins vegar stútfullur af egóum og fólki sem vill ná sínu fram, en oft blandast fólk illa saman, sem gerir lífið mjög leitt fyrir alla aðra á settinu. Stundum er útkoman stórkostleg kvikmynd, en stundum ekki. Það er lykilmál að fólk vinni saman þegar kemur að kvikmyndagerð, en jafnvel stærstu Hollywood framleiðslur með milljarða á baki sér, hrjást vegna kjánalegra vandamála út frá barnalegum egóþvælum.

Kíkjum á nokkur dæmi.

Salvador (1986)

Eftir að Oliver Stone gerði hryllingsmyndina The Hand (1981) og áður en hann gerði Platoon (1986), þá gerði hann Salvador, lítið þekkta en sannsögulega mynd um ástandið í El Salvador árin 1980-1981. Sagan var sögð í gegnum augu blaðamannsins Richard Boyle, leikinn af James Woods, sem fékk réttilega Óskarstilnefningu fyrir hlutverkið.

Bakvið tjöldin var framleiðslan hinsvegar alger martröð. Fyrir tökur þá var ráðgjafi myndarinnar drepinn í Salvador, þar sem borgarastyrjöldin hrjáði enn landið. Woods og Stone hötuðu hvorn annan við tökur, en Woods var með stanslausa teprustæla varðandi hreinleika og Stone var útúr kókaður að kljást við stressandi framleiðsluaðstæður. Þegar kom að því að taka upp eina lokasenuna (ath. Höskuldarviðvörun!) þegar taka á Woods af lífi í ónýtri rútu, þá hafði Woods áhyggjur af því hvort riffillinn sem átti að skjóta hann með væri ekki öruggur. Stone nennti ekki stælunum í Woods, sem missti að lokum þolinmæðina, greip riffilinn og komst að því að það var skothylki í honum. Woods óð af setti brjálaður, því þó að hylkið hafi ekki verið alvöru kúla heldur púðurskot, þá átti riffillinn að vera það nálægt höfðinu hans að það hefði auðveldlega getað drepið hann. Eftir mikla leit að Woods, þá fannst hann í miðri tilraun við að yfirgefa landið á fæti. Hann var þá tekinn aftur á settið, senan kláruð og tökum lauk stuttu seinna.

Þetta er bókstaflega tilfelli þar sem samskiptaleysi leikstjórans við aðalleikarann sinn orsakaði næstum því dauðsfall. Mörg fleiri vandamál áttu sér stað, klipparinn hélt t.d. filmunum í gíslingu eftir tökur og skilaði þeim ekki fyrr en hann fékk öll laun sín greidd. Hinn raunverulegi Richard Boyle, sem James Woods lék, tók einnig þátt í framleiðslunni og hataði Woods. Richard Boyle var alger fyllibytta og þverhaus sem hagaði sér eins og skíthæll svo Woods vildi heldur ekkert með hann gera. Miðað við viðtölin sem ég hef séð við Boyle, þá er það skiljanlegt.

Það var nánast kraftaverk að hægt var að klára myndina og að útkoman hafi verið heldur betur góð, meira að segja ein af betri myndum hans Stone. Woods og Stone sættust eftir frumsýninguna þegar þeir sáu báðir hversu gott verk þeir höfðu framleitt, en fólk frá El Salvador faðmaði James Woods með tárin í augunum fyrir leik hans í myndinni. Woods lék seinna stórt hlutverk í Nixon (1995) með Stone í leikstjórasætinu, svo þeir hljóta vera góðir í dag.

 

Ishtar (1987)

Það er varla til gleymdari kvikmynd en Ishtar, sem er talin vera ein misheppnaðasta grínmynd allra tíma. Gagnrýnendur og áhorfendur voru ekki hrifnir á sínum tíma, en álit á myndinni hefur breyst aðeins með árunum til hins jákvæða. Tökurnar voru erfiðar, enda var myndin tekin upp að miklu leiti í eyðimörkum Morokkó undir erfiðum aðstæðum.

Leikstjórinn, hún Elaine May, lenti oft í rifrildum við marga samstarfsmenn, sérstaklega kvikmyndatökumanninn fræga, Vittorio Storaro. Á endanum var May jafnvel farin að rífast við Warren Beatty, sem hafði verið hennar helsti bandamaður við byrjun framleiðslunnar, enda skrifuðu þau saman Reds (1981). Eftir tökur þá flæktust hlutirnir enn meira. Beatty, May og Dustin Hoffman höfðu öll réttinn til að velja lokaútgáfu myndarinnar, en ekkert þeirra gat verið sammála um neitt. Enn þann dag í dag er óvíst hvernig var leyst úr þeirri krísu, þar sem sögurnar frá viðstöddum stönguðust á við hvor aðra, en lokaniðurstaðan var mikil vonbrigði fyrir alla.

Warren Beatty hélt að hann væri að gera Elaine May stórkostlegan greiða með því að leyfa henni að leikstýra, en hún hafði víst ekki kraftinn í framleiðsluna. Kannski telst það skiljanlegt, May var talin vera með fullkomnunaráráttu, en það getur verið erfitt þegar samstarfsmenn þínir eru það líka (Beatty og Hoffman). Eyðimerkuhitinn var heldur ekki fyrir alla, þar sem allir höfðu sinn þolunarþröskuld. Framleiðslan hafði þó engin áhrif á vináttu Beattys og Hoffman, en báðir fíluðu myndina og léku þeir seinna saman í Dick Tracy (1990). Elaine May var ekki jafn skemmt, en hún talaði varla við Beatty í nokkur ár eftir útgáfu Ishtar og skipti sér lítið af kvikmyndagerð næstu árin. Hún skrifaði þó The Birdcage (1996) og fékk Óskarsverðlaunatilnefningu fyrir handritið að Primary Colors (1998).

 

The Island of Doctor Moreau (1996)

Ég mæli með að horfa á heimildarmyndina Lost Soul: The Doomed Journey of Richard Stanley’s Island of Dr. Moreau (2014) til að skilja hverskonar stórslys The Island of Dr. Moreau var. Hún hófst sem metnaðarfull sýn hjá ungum, listrænum leikstjóra sem hafði því miður ekki persónuleikann né þroskann til að höndla Hollywood kerfið. Niðurstaðan var afar slöpp „slapped together“ 90’s þvæla sem gleymdist nánast strax við dreifingu.

Mjög sorglegt var að sjá hvernig áhugaverð og metnaðarfull hugmynd breyttist í algert drasl, því Richard Stanley var með feikilega áhugaverða sýn á H.G. Wells sögunni sem myndin er byggð þá. Því miður varð nánast ekkert úr henni, en Stanley var rekinn eftir aðeins nokkra daga tökur og skipt út fyrir John Frankenheimer, sem var einungis uppfyllingarleikstjóri, honum gat ekki verið meira sama um Richard Stanley og sýn hans á sögunni.

Það er ómögulegt að benda á eitthvað eitt sem tortímdi framleiðslunni, en helsti vandinn til að byrja með var þó Stanley sjálfur. Með eina „low budget“ breska mynd að baki sér, Hardware (1990) sem fékk mikið lof, þá átti maðurinn bágt með að aðlagast Hollywood aðferðum og hvarf fljótt inn í sjálfan sig. Tökuliðið eyddi megninu af þeim tíma sem framleiðslan var sett í bið í að drekka og dópa á tökustað og sú hefð hélt áfram gegnum allt tökuferlið. Fljótt varð þetta að vímumartröð, fólk svaf hjá hvor öðru öðru hægri og vinstri og oftar en ekki með óviðeigandi háttum á óviðeigandi tímum. Leikaranir voru nú lítið skárri, Marlon Brando var alveg sama hvaða mynd hann var að gera og kom með fáranlegustu kröfur á setti af engri ástæðu.

Val Kilmer var alger skíthæll og tók varla við leiðbeiningum. Ekki nóg með það heldur hötuðu Brando og Kilmer hvorn annan. Aumingja David Thewlis lenti víst í miðjunni á þessu öllu og þrátt fyrir að leika aðalhlutverkið í sögunni og eiga talsvert meiri skjátíma en Brando og Kilmer, þá fékk hann hvorki efsta leikarakredit né að vera á veggspjaldinu. Enn þann dag í dag þá neitar Thewlis að ræða stakasta orð um myndina, enda var hann algerlega fjarverandi í heimildarmyndinni.  Djöfull væri áhugavert að heyra hans hlið af framleiðslunni. Vonandi einhvern tímann.

The Island of Dr. Moreau (1996) er heldur betur misheppnuð kvikmynd og það er erfitt að finna ekki fyrir samkennd með Richard Stanley, sem nánast hætti í kvikmyndagerð eftir þessa upplifun. Heimildarmyndin er frábær og ég mæli með henni fyrir áhugasama.

 

The Boondock Saints (1999)

Fyrir þá sem muna eftir árunum 1999-2000, þá munið þið líklega eftir því hversu mikið „cult hit“ The Boondock Saints var á sínum tíma og á árunum 2000-2005 þá var hún oftar en ekki á topplistum hjá ungu fólki. Þetta virðist hafa þroskast úr flestum og þó The Boondock Saints sé ekki beint slæm mynd, þá er hún ekki það meistaraverk sem fólk var að missa sig yfir.

Bakvið tjöldin er merkileg saga leikstjórans, Troy Duffy, sem náði því ótrúlega verki að lenda fáranlega góðum samningi við Miramax og Weinstein bræðurna uppá 15,000.000 USD fjármagn, en út af sínu stjórnlausa egói þá missti hann alla stjórn og samninginn. Hann náði þó að lokum að gera myndina, en ekki án þess að haga sér eins og alger mannfjandi við nánast alla í kringum sig. Heimildarmyndin Overnight (2003) gefur áhugaverða innsýn í persónuleikann sem er Troy Duffy.

Troy hefur þó svarið gegn heimildarmyndinni og heldur því fram að hegðunin sem hann sýnir sé undantekningin, ekki reglan. Heimildarmyndin sýnir svo ótrúlega hegðun að það er í raun ómögulegt að trúa Duffy. Hann virðist vera alger egó brjálæðingur sem missir gjörsamlega tök á sjálfum sér.

Hvort hann hafi breyst eða lært af þessu veit ég ekki. Hann hefur þó náð að gera glatað framhald að Boondock Saints sem afhjúpaði hversu gríðarlega takmarkaður hann er sem kvikmyndagerðamaður. Það er spurning hvort hegðun hans hafi hjálpað eða skaðað framleiðsluna. Líklega hið fyrra, því hann var á mörkum þess að fá stórnöfn eins og Robert DeNiro þegar Miramax var yfir myndinni. Hann endaði að lokum með minna fyrirtæki á bakvið sig með talsvert minna fjármagn og óþekktari nöfn.

The Boondock Saints (1999) hef ég ekki séð síðan fyrir 2005, og jafnvel þá var það mér ljóst að myndin var gífurlega þunn, late 90’s froða sem þóttist vera meira en hún var.

Ég get rétt svo ímyndað mér hversu illa hún hefur elst ef maður horfir á hana í dag. 1998-2003 var kjánalegt tímabil í sögu kvikmynda, að miklu leiti, svo margar þeirra eldast hræðilega, hræðilega illa.