Stundum getur taumlaus hroki, stress, reiði og rifrildi við tökur skilað af sér einhverri snilld, en oft getur útkoman farið í klessu líka.

Hérna má sjá rennt gegnum ýmsar sögur sem búið er að dekka (þ.á.m. af Ishtar og The Boondock Saints), en kíkjum nú á fleiri skrautlegar!

Predator (1987)

Margir vita líklegast ekki að Predator var nálægt því að verða algert stórslys. Veðrið í Mexíkó, þar sem myndin var tekin upp, var víst það slæmt fyrstu vikuna að það þurfti að hætta allri framleiðslu á meðan því stóð. Leikstjórinn, John McTiernan, minnist á það í commentary hljóðrás myndarinnar að fyrsti dagurinn hafi verið einn sá versti tökudagur sem hann hafi nokkurn tímann upplifað. Veðrið náði samt sem áður ekki að vera stærsta vandamálið, heldur var helsti vandinn upprunalegi predatorinn, sem var leikinn af engum öðrum en Jean-Claude Van Damme.

Hönnunin á verunni var allt önnur og margfalt verri en sú sem endaði á hvíta tjaldinu. Hreint út sagt ömurleg. Ef þið viljið eitthvað til að hlæja að, leitið þá að Van Damme sem Predator á Youtube. Sem betur fer, þá fannst Van Damme glatað að leika hlutverk þar sem aldrei sást í andlitið hans, svo hann hætti og hönnunin endurbætt þar til við fengum loks Predatorinn eins og hann sést í dag. Sem betur fer. Þetta telst mögulega sem eitt af fáum skiptum þar sem egó leikara breytir til hins betra.

 

American History X (1998)

Á 1990’s árunum var rasismi alengt kvikmyndaþema og eitt þekktasta dæmið er American History X, myndin sem skaut Edward Norton upp í stjörnuhimininn, eða var það kannski Primal Fear (1996)? Sjaldan áður hafði sést jafn kaldrifjuð en raunsæ saga um rasisma og hvað þá frá hlið rasistanna.

Það sem gerir American History X áhugaverða er hvernig hún sýnir venjulega fjölskyldu breytast í martröð eftir dauðsfall föðursins og gengur út á þróun tveggja bræðra, leiknir af Edwördunum tveimur. Á bakvið tjöldin hins vegar, þá er það saga breska leikstjórans Tony Kaye sem toppar allt annað.

Sagan byrjar þó ekki fyrr en eftir tökur, þegar frumútgáfa af myndinni var sýnd í prufusal. Þó að sýningin hafi heppnast mjög vel, þá byrjuðu skipanir um breytingar að flæða til leikstjórans frá bæði kvikmyndaverinu og Edward Norton sjálfum, sem á það til að skipta sér kannski aðeins of mikið af framleiðslum. Kaye viðurkennir reyndar að viðbrögðin hans við þessum nótum hafi verið aðeins of harkaleg, en afleiðing þeirra var sú að hann var bannaðir frá klippiherberginu. Eftir samningsviðræður við kvikmyndaverið var honum loks hleypt aftur inn, en eftir smá tíma lét Kaye stúdíóið vita að hann hafi fundið „nýja kvikmynd“ út úr klippunum og að hann vilji heilt ár í viðbót til að klippa myndina. Þá tekur Edward Norton málin í sínar eigin hendur og fær aðstoðaklipparann til að klippa myndina með sér án Kaye. Þegar Kaye frétti af þessu, þá varð hann svo reiður að hann lamdi vegg og braut á sér höndina.

Upprunalega 95 mínútna útgáfan hans Kaye lengdist um tuttugu mínútur í útgáfu Nortons. Kaye heldur því fram að myndin hafi breyst úr því að vera sagan sem hann vildi segja í Norton veislu, til að sýna hversu frábær leikari Edward Norton væri. Kaye fór jafnvel það langt að krefjast þess að nafn hans yrði fjarlægt af kreditlistanum og í stað hans sett nafnið Humpty Dumpty. Það er soldið erfitt að segja nákvæmlega til hver á sökina á hverju, en þetta virðist vera tilfelli þar sem stór egó einfaldlega neituðu að vinna með hvor öðru og það verður að segjast að Tony Kaye virðist vera stórfurðulegur fugl.

Niðurstaðan var þó merkileg kvikmynd sem sem tæklaði mjög alvarleg málefni á djarfan hátt, sem enn og aftur sýnir að vandalaus framleiðsla þýðir ekki endilega frábær mynd, og öfugt.

 

 

Battlefield Earth (2000)

Það er nú lítið sem þarf að segja um þessa mynd, nema þá staðreynd að hún virðist einingus hafa verið gerð útaf egóinu hans John Travolta, sem var smitað af þvælunni hans L. Ron Hubbard. Bókin var gefin út árið 1982 og er víst algert rugl, hef ekki lesið hana og hef ekki áhuga. Hubbard dó árið 1986 og Travolta virðist hafa sett það markmið að kvikmynda bókina hans sama hvað, en engin kvikmyndaver höfðu áhuga á handritinu. Fáir vilja vera tengdir vísindakirkjunni en ég held að ástæðan hafi frekar verið sú að handritið var algert drasl.

Travolta byrjaði að koma myndinni af stað árið 1995, vinnslan tók fjögur ár og myndin var svo gefin út rétt fyrir sumarið 2000 í Bandaríkjunum. Ég man að ég tók þá ákvörðun, þá aðeins 13 ára gamall í september 2000 að fara á Battlefield Earth frekar en Road Trip (2000). Í minni vörn þá var og er ég alger sci-fi hóra, en ég sjaldan tekið jafn slæma ákvörðun á lífsleiðinni. Miðað við upplýsingarnar sem fáanlegar eru um framleiðsluna, þá virðist enginn hafa haft áhuga á að gera myndina nema Travolta. Með stjörnuaflinu og Hollywood/vísindakirkju-tengslum, þá náði hann að redda 80 milljón dollara USD fjármagni í augljóst egó verkefni skapað einungis til að efla vísindakirkjuna og uppáhaldið hans Travolta, hann L. Ron Hubbard.

Niðurstaðan var eitt merkilegasta flopp allra tíma, Battlefield Earth ætti að vera kennd í kvikmyndaskólum sem dæmi um hvernig á ekki að gera kvikmynd. Battlefield Earth verður bara fyndnari með hverju ári og hún mun seint gleymast, svo að minnsta kosti var einhverju áorkað.

 

Kingdom of Heaven (2005)

Þetta er eitt af fáum tilfellum þar sem skortur á egói, í þessu tilfelli hjá Ridley Scott, hefur haft neikvæð áhrif á lokaútkomuna. Líkt og með Blade Runner (1982), þá fékk kvikmyndaverið alltof mikil völd í eftirvinnslunni. Ég man vel eftir 2005, fyrir heilum 12 árum síðan (fuck my life). Ég var mikil Ridley Scott gelgja á þessum tíma og ég var dauðspenntur að sjá Kingdom of Heaven.

Þessi mynd er núna orðin að „skólabókadæmi“ um það þegar sýn leikstjórans er slátrað í klippingu fyrir kvikmyndahús en er svo bjargað á DVD sem director’s cut. Þetta er einnig mögulega besta dæmið, ég held að engin mynd skáni jafn mikið og Kingdom of Heaven, miðað hversu slæm bíóútgáfan var og hversu miklu betri director’s cut er. Ástæðan bakvið þessa styttingu á sínum tíma var sú að geta náð fleiri sýningum á einum degi með þeim tilgangi að fá meiri gróða. Af hverju að gera þannig á tímabili rétt eftir að stórmyndir eins og Lord of the Rings myndirnar og fleiri, allar þrír klukkutímar eða lengri, eru að slá í gegn? Gladiator var nálægt þrír klukkutímar, græddi fúlgur af seðlum og vann óskarinn. Svo það er mér óskiljanlegt hvernig Ridley Scott gat ekki komið í veg fyrir þetta, þarna hefði hann einfaldlega átt að seta fótinn niður og leyfa egóinu að ráða förum. Mögulega gerði hann það, en hann þykist hafa verið ánægður með bíóútgáfuna á sínum tíma, sem er ekki beint sannfærandi.

Kingdom of Heaven dó hratt eftir dreifingu og græddi talsvert minna en gert var ráð fyrir, líklega útaf slæmu umtali, því bíóútgáfa myndarinnar var algert klúður. Ekki hjálpar það myndinni heldur að hafa Orlando Bloom í aðalhlutverki. Af hverju í andskotanum var hann ráðinn? Ég hef séð verri leik, en maðurinn er bara alltof þurr til að leika svona hlutverk, hann er óspennandi og verst af öllu, óáhugaverður. Maður þarf bara að horfa á screen testið hans til að sjá hversu óspennandi hann er í hlutverkinu. Var Ridley Scott að hlýða skipunum frá kvikmyndaverinu með því að ráða hann? Sem betur fer er restin af leikaraliðinu fáranlega öflugt og það nær að beina athyglinni vel frá Bloom, mikið af tímanum.

Mitt álit er að þetta sé tilfelli þar sem þraulreyndur og góður leikstjóri hefði átt að halda völdum við klippingu og standa á sínu. Sagan hefur sannað hvaða útgáfa var betri og ég held að Scott hafi vitað það vel allan tímann. Hafa kvikmyndaver enga virðingu fyrir þraulreyndum leikstjórum? Er Ridley Scott alger já maður sem berst aldrei á móti peningaöflunum?

 

The Man Who Killed Don Quixote (20??)

Kvikmyndin sem Terry Gilliam hefur verið að framleiða alla þessa öld og lengur, en samkvæmt nýjustu fréttum þá er tökum nýlokið. Upprunalega hófust tökur árið 2000 með Johnny Depp í aðalhlutverki en fyrstu tökurnar voru svo mikið klúður á allan hátt að það þurfti fljótt að stoppa alla framleiðsluna. Afleiðingar þess varð að vítahring af klúðrum sem endust til 2016 þegar myndin fór loks aftur í tökur sem kláruðust 4. júní 2017.

Því miður er búið að ráða Adam Driver í aðalhlutverkið, ég skil ekki þessa Adam Driver þráhyggju eftir Forced Awakenings, gaurinn er sæmilegur leikari en engan veginn efni í aðalhlutverk. Martin Scorsese notaði hann hæfilega í Silence (2016) en ég bara sé ekki manninn halda stórmynd á eigin fótum. Vonandi mun hann koma mér á óvart, hinsvegar þá deilir hann tímanum með Jonathan Pryce sem Quixote, sem er talsvert efnilegri leikari.

Í raun hefur egó haft lítil áhrif á framleiðslu myndarinnar held ég, allavega ekki á neikvæðan hátt. Það þarf hinsvegar sterkt egó til að viðhalda tveggja áratuga trú á eigin verkefni sem lendir í engu nema vandræðum. Á nítján árum þá hefur Gilliam reynt að koma myndinni af stað átta sinnum, byrjandi árið 1998 til í dag.

Heimildarmyndin Lost In La Mancha (2002) er góður leiðarvísir fyrir byrjunina á þessum vítahring en engan veginn endirinn, það er örugglega hægt að gera heimildarmyndarseríu um 20 ára klúðrið sem þessi framleiðsla var. Vonum bara að þessi tuttugu ár hafi borgað sig fyrir Terry Gilliam, frekar aðdáðunarvert af honum að hafa ekki gefist upp öll þessi ár. Hvað ef myndin reynist algert stórslys?

Úff. Vonum ekki.