Stutta útgáfan:
Vel unnin, leikin og skotin, en því miður skilur sagan ekkert eftir sig með handrit að vopni sem hefur mikinn áhuga á ráðgátunni, en litlu öðru.


 


Langa útgáfan:
Það er vonandi ekki umdeild alhæfing að segja að Ísland hafi hingað til ekki getið af sér góða, eða jafnvel sæmilega, hrollvekju á hvíta tjaldið í þessi fáu skipti sem slíkt hefur verið reynt. Hvernig sem á því stendur má eiga sökótt við hverja mynd fyrir sig, en í dag sitjum við með nýja hryllingsmynd í kjöltunni og staðan heldur sér satt að segja óbreyttri með útgáfu Ég man þig. Þegar kemur að ótta er auðvitað ómögulegt að koma með einhvern hlutlægan mælikvarða fyrir kvikmyndir og margir munu (og hafa) gengið frá myndinni með hjartað í buxunum og svenflausar nætur, sem er bara flott mál. Það sem hins vegar á það til að gerast með svona genre myndir er að svo fremur sem áhorfandanum líði eins og ‘hryllings-kvótinn’ hafi verið fylltur innsiglast heildarmyndin í sykursætri minningu og öll gagnrýnin umræða deyr samstundis. Þar sem ég tel slíka umræðu bráðnauðsynlega á Klakanum fær Ég man þig ekki að sleppa með skrekkinn þó að einhverjum þarna úti hafi brugðið; á sama tíma er það myndinni alls ekki í hag að brennimerkja eingöngu sem ódýran reifara fyrir húsmæður á myrku kvöldi með því að sleppra dýpra samtali um kosti og galla hennar sem kvikmyndar.

Saga Ég man þig deilist á tvö sögusvið. Á Ísafirði er læknirinn Freyr dreginn inn í áragamla ráðgátu eftir að sjálfmorð grefur upp sársaukafullar minningar um hvarf sonar hans þremur árum áður. Samhliða því stendur parið Garðar og Katrín, ásamt vinkonunni Líf,  í að gera upp gamalt hús á Hesteyri í von um að hefja þar rekstur á gistiheimili. Fortíð staðarins er þó djúpstæðari en þau gera sér grein fyrir og brátt fara afleiðingar hennar að hafa áhrif.

Farvegur Ég man þig fram í dagsljósið hefur verið langur og örugglega erfiður; með tökutímabili sem tafðist verulega og einhver endurskrif á handriti í miðju ferli. Leikstjórinn, Óskar Þór Axelsson, gaf síðast frá sér Svartur á leik fyrir heilum fimm árum og ég get ekki neitað því að eftirvæntinginn fyrir nýju myndinni byggist að miklu leiti á því hversu sprengfim innkoma Óskars var í kvikmyndaheiminn og sá það hver maður að hér væri ferskur hæfileiki kominn í bransann. Það má í kjölfarið þá alveg segja að ég hafi farið á myndina með of háar væntingar, en það gerir ekki hversdagsleika og þýðingarleysi Ég man þig eitthvað bærilegra.

Það verður fyrst að segjast, að það ætti ekki að koma neinum á óvart að með svona hæfileikaríkt framleiðsluteymi bakvið myndavélina þá lítur Ég man þig oftast mjög vel út og nær hún að skapa náttúrulegt útlit sem virkar bæði eðlilegt og uggandi á sama tíma. Sem dæmi átti ég oft erfitt með að greina hvort sena var þaulunnin eða skotin nánast eingöngu í dags/tunglsljósi og sitja margir rammar eftir í manni.

Það sama má þó ekki segja um hljóðheiminn og tónlistina. Á blaði virka þau sem fínn kostur (þó daðra við að vera klisjukennd) en í framkvæmdinni reynast drunurnar og drónarnir hlægilega yfirþyrmandi og sjá oftast um að keyra upp þá spennu sem ætti að vera til staðar í tiltekinni senu með þeim afleiðingum að hljóðrásin fer að virka eins og hækja. Galdurinn í drungalegri senu er fljótur að fara þegar tónlistin hljómar eins og hún sé hrædd við að áhorfandinn gæti verið sofandi. Þetta á þó aðallega við í þeim senum sem flokkast undir „draugagang“, annars keyrir hljóðheimurinn bara vel áfram.

Leikararnir standa sig allir með prýði og má varla við öðru búast með svona þéttum hóp, en efnið sem þau hafa í höndunum er þó allt annað mál. Handritið úr smiðju Óskars Þór og Ottó Geir Borg virkar eftir því sem ég best veit sem dygg aðlögun samnefndu bókarinnar eftir Yrsu Sigurðardóttur yfir í kvikmyndaform, en ef sú er raunin hefur efniviðurinn ekki gert þeim marga greiða. Yrsa skrifar einfalda reifara, þetta vita landsmenn og hafa greinilega gaman af, en það sem gæti virkað fyrir spennandi lestur er ekki öruggt fyrir sjónrænan miðil. Ef ég má stinga spjóti í rithöfundinn svona eldsnöggt, þá finnst mér Yrsa skrifa til að halda lesandanum flettandi blaðsíðum, sem er auðvitað enginn glæpur, en það virkar svo þröngsýnt markmið; því þetta leggur allt púður í eina upplifun, fyrstu lesninguna. Flestir lesa auðvitað bækur ekki oftar en einu sinni þannig þetta sleppur frekar vel í þeim miðli, en þegar aðlögunin upp á hvíta tjaldið fylgir sömu sporum virkar heildarverkið einstaklega innihaldslaust. Það sem þú sérð er allt sem þú færð í hendurnar, svo einfalt er það. Framvindan og persónurnar eru þarna fyrir ráðgátuna, og þegar hún hefur verið leyst hefur áhorfandinn varla ástæðu til að koma aftur þar sem allt eldsneyti er farið í að halda þér í myrkrinu.

Það er auðvitað hægt að yppa öxlum og segja ‘hvað með það?’ og manneskjan væri ekki vitlausari fyrir vikið; ef fyrsta upplifunin er góð hefur það margt að segja og flestir eru kannski ekki að leita að einhverju bitastæðara. Maður þarf að gagnrýna myndina sem maður hefur, ekki sem maður vill. Það er því skömm að óháð einhverju huglægu áliti um stærri áhrif myndarinnar, þá hefur handritið ansi marga vankanta sem erfitt er að hunsa. Persónuupplýsingum er stundum miðlað með grófum útskýringum, persónur flatar eða óáhugaverðar og senustrúktúrinn getur orðið einhæfur. Satt að segja þá skyldu sögurnar einfaldlega ekkert eftir sig og það kemur aftur inn á þvölu ræðuna hérna fyrir ofan; þar sem myndin ásetur sér aðeins ráðgátuna fyrir þetta eina áhorf, því fá persónurnar varla dýpt, sagan engin litbrigði eða þunga, og endirinn virkar snubbóttur.

Ég gekk bara einstaklega tómur frá henni og á erfitt með að sjá hvernig einhver getur unnið upp í sér eldmóðinn til að hylla hana. Þetta er allt saman að hljóma mun neikvæðara en ég hafði hugsað mér, en að einhverju leiti kemur það út frá vonbrigðunum við að sjá  eins faglega gerða kvikmynd með jafn lág markmið.

Fólkið í kringum þig mun eflaust mæla með Ég man þig sem góðri hrollvekju og spennandi bíói, og þó að ég sé ósammála, þá er ekkert sem segir sérstaklega að þau hafi rangt fyrir sér. En umræðan í kringum myndirnar okkar þarf að vera þrívíðari; því á þessum tímapunkti virðist samtalið vera á sama plani hvort sem um er að ræða þriller, hryllingsmynd eða háklassadrama og í kjölfarið sitjum við föst í leðju án greinilegrar löngunar til að taka sporin að leið upp úr.