Þegar það kemur að kvikmyndum eins og Dunkirk, þ.e.a.s. stórmyndum sem að bera með sér gífurlega háar væntingar, í þessu tilfelli vegna þess að Christopher Nolan situr á bak við klappspjaldið. Þá getur verið ákveðin áskorun að horfa á þessar kvikmyndir án nokkurrar hlutdrægni og gefa hreinskilið álit frekar en að gefa þessum myndum hreina tíu í blindni.

Myndin fylgir ekki þessari mest hefðbundnu formúlu heldur eru sagan sögð frá þremur sjónarhornum, við fylgjumst með landgönguliðum, orustuflugmönnum og áhugasjóurum. Myndin er “einungis” klukkutími og 40 mínútur þannig að við fáum í raun aldrei að kynnast þessum karakterum rosalega vel. Þetta er hvorki kostur né galli að mestu leyti þar sem mér finnst áhugavert að reyna fjarlægja persónuleikann frá þessum mönnum þar sem þetta er stríð og menn deyja þarna í þúsundatali en þar á móti kemur að þegar Nolan ætlar að skapa eitthvað drama með þessum karakterum er mér bara nokkuð sama um þá, þar sem ég hef ekkert fengið að kynnast þeim.

 

Það sem ég hef mest út á að setja eru þessi þrjú sjónarhorn. Nolan flakkar á milli þeirra eins og honum lystir og mér finnst hann missa marks þegar það kemur að því að útskýra hvenær hvað er að gerast. Það má vel vera að við annað áhorf hafi maður betri tilfinningu fyrir þessu en ég er ansi hræddur um að gagnrýnendur og áhorfendur komi til með að gefa honum hálfgert stikkfrí fyrir þetta einfaldlega því að þetta er Christopher Nolan.

Það sem er aftur á móti gert alveg hreint meistaralega eru spennu og orrustuatriðin. Flugorusturnar eru þær bestu sem ég hef séð á hvíta tjaldinu og er ekki mikið sem að hefði verið hægt að bæta hvað þær varðar. Það voru ekki beinlínis mikil spennuatriði þegar fylgst var með landgönguliðunum en þó tekst mjög vel að fanga vonleysið sem þeir hafa verið að upplifa.

Veikasti hlekkurinn er þá þriðjungurinn sem fylgist áhugasjóaaranum sem Mark Rylance leikur ásamt syni hans og vin. Því meira sem ég kryf þann hluta því augljósara finnst mér það verða að það er heldur þvinguð saga, enda ekki mikil spenna sem fylgir því að sigla yfir Ermasundið á litlum bát. Hérna skína svolítið í gegn ókostir þess að kynna ekki karakterana betur því að eina sem að þessi hluti myndarinnar getur byggt á er dramað á milli karakterana um borð en eins og ég sagði áðan á þá var mér bara nokkuð sama um þá alla.

Myndin er vissulega mjög góð. Ofangreind gagnrýni einblínir að mestu á það sem mér fannst að hefði mátt fara betur frekar en að hrósa henni fyrir allt sem hún gerði rétt, sem er vissulega mikið (tónlistin og hljóðvinnslan alveg upp á 10).

Dunkirk er vissulega sönn bíóupplifun, sem að ég mæli með að allir sem vilja sjá hana sjái hana í bíó frekar en að horfa á hana heima hjá sér (eða í það minnsta á risastórum skjá!). Hefði þó verið langskemmtilegast að fá að sjá hana í 70mm IMAX.