Áhyggjur vöknuðu af þeim fréttum að Dunkirk, seinni heimstyrjaldar stríðsmynd, yrði merkt með hinu bandaríska PG-13, sem staðfestir að ekki megi eiga von á blótsyrðum og blóði, þar sem að minnsta kost eitt af þessu er mjög algengt í stríði.

“Allar af stóru sumarmyndunum mínum hafa verið PG-13. Það er form sem mér líður þægilega að vinna með algjörlega,” sagði Nolan við blaðamenn á CinemaCon fyrr á árinu, aðspurður um þessa ákvörðun. “Dunkirk er ekki stríðsmynd. Hún snýst um að komast lífs af og er fyrst og fremst spennutryllir.”

Þýddur yfir á íslensku hljómar Nolan örlítið hrokafullur og ágengur, en þeir sem þekkja til hans vita að maðurinn er sá rólegasti. Að myndin sé ekki stríðsmynd er umdeilanleg staðhæfing, en samkvæmt almennum skilgreiningum á stríðsmynd þá má vel flokka Dunkirk sem slíka, en að hún sé fyrst og fremst spennumynd, (i.e. ‘suspense film’) er óneitanlegur sannleikur, og það má vel hafa í huga fyrir þá sem hugsanlega kunna ekki vel við ‘stríðsmyndir’; Dunkirk er engin venjuleg stríðsmynd. Hann hélt síðan áfram að útskýra að myndin notast ekki við blóðugu hliðar stríðs átaka til þess að ná fram spennunni sem hafði verið gert svo vel í svo mörgum myndum.

Nú er myndin komin út og þessar áhyggjur um aldurstakmarkið gætu ekki hafa verið ónauðsynlegri. Fáar R-rated myndir ná að koma svo gott sem peði á móti spennunni í Dunkirk. Ekki var skrítið að heyra nokkra aðila – í þreyttu og haltrandi göngunni út úr bíósalnum – kvarta undan áhyggjum af hjartaöng; að þetta hafi verið of mikill hasar; að óvíst væri að lifa af nóttina. Það er því hér með staðfest að PG-13 er greinilega formið sem Nolan finnst þægilegt að vinna með, algjörlega.

“Dunkirk is my most experimental structure since Memento” sagði Nolan í viðtali við TIME.

Það má segja að strúktúrinn í The Prestige geti skákað báðar þessar myndir, en það ætti ekki að vera neitt nema fögnunaratriði að Nolan sé að halda áfram í tilraunastarfsemi og ryðja brautir fyrir komandi kynslóðir. Strúktúrinn í Dunkirk hefur þann tilgang að auka spennu og halda hraðanum í hámarki. Í myndinni eru þrír söguþræðir: hermennirnir fastir á ströndinni í heila viku; breskir ríkisborgarar sem sigla yfir ermasundið í einn dag; og orrustuflugmenn sem voru í loftinu í eina klukkustund. Þetta flettist saman frá byrjun og heldur manni innan víglínanna af einni bestu lýsingu stríðs átaka sem sést hefur á stóra tjaldinu.

Myndin er í raun sagnfræðilegt meistaraverk. Þó persónur og nákvæmir atburðir eru ’skáldaðir’ ber myndin fram þessa aðstöðu sem hermennirnir voru í ógnvægilega raunverulega (fyrir utan magn blóðs og utanáliggjandi innyfla) og setur fram atburðarás sem er byggð á öllu sem átti sér stað á þessum dögum við strendur Frakklands árið 1940. Nolan tókst að gera sagnfræðilega frásögn af reynslu, eins og hann ætlaði sér.

Myndin varpar sterku ljósi á sálfræðilegar afleiðingar af stríði og áfalli, og gefur viðhorf sem sjaldan hefur sést í (bandarískum) kvikmyndum. Án þess að gefa út of miklar upplýsingar þá má einfaldlega segja að þó myndin tekur enga sérstaka afstöðu á móti stríði (erfitt er að vera á móti seinni heimstyrjöldinni og eru vonandi flestir sammála um að stríðið á móti þjóðverjum hafi verið nauðsynlegt) þá gerir myndin svolítið sem gerir hana öflugri heldur en margar ‘anti-war’ myndir: Dunkirk sýnir hversu erfitt og mannskemmandi það getur verið að vera hermaður, og ekki er hægt að ganga út með hugmyndir um hetjudáðir í hernaði.

Allt gerir hún þetta í gegn um óhefðbundinn strúktúr og skilur mann eftir með væg einkenni af áfallastreituröskun. Það sem við höfum er hreinlega mögnuð kvikmynd frá leikstjóra og höfundi sem veit nákvæmlega hvað hann er að gera. Dunkirk er gjöf frá alheiminum og að þiggja hana ekki er hreinlega móðgun.

Þessa mynd á að sjá í bíó.