Stutta útgáfan:
Viðbjóðslega flott gerð, dáleiðandi og súr kvikmynd frá manninum sem kann á stílbrögð, andrúmsloft og listina að sjokkera, þó hann eigi það til að ganga eilítið of langt í þessu síðarnefnda. En ég diggaði hana.

8

 

 

Langa útgáfan:

Danski kvikmyndalistamaðurinn, Nicolas Winding Refn, sem elskar að reyna eins og hann getur að sjokkera fólk með þá verulega grófu ofbeldi eða yfirdrifnum hugmyndum/römmum. Hér er hann kominn með nýja mynd sem er ekki hægt að segja að sé fyrir alla en hún er allavegana aðgengilegri heldur en Only God Forgives (mynd sem undirritaður dýrkar) en eins og með fyrri myndir Refn mun fólk annaðhvort elska eða hata The Neon Demon.

Í grófum dráttum fjallar The Neon Demon um módelið Jesse sem er nýflutt til Los Angeles og ætlar að reyna fyrir sér í módel bransanum.  Hún kemst síðan fljótt að því að hún hefur eitthvað framyfir öll hin módelin í bransanum; þar sem sakleysi hennar dregur fólk að sér. En það dregur hins vegar dilk á eftir sér, þar sem að hin módelin byrja að horfa á Jesse með miklum öfundaraugum. Meðan við fylgjumst með Jesse feta sín fyrstu fótspor í bransanum sjáum við hvað hann er ógeðslegur og verulega mannskemmandi og Refn er ekkert að skafa af hlutunum.

Nicolas Refn náði að draga að sér nokkra þekkta leikara í þessa geðveiki sína. Þar má helst nefna yngri Fanning systurina, Elle Fanning, sem er hvað þekktust fyrir Super 8 og Maleficent. Elle sýnir hér gæðaleik sem hina saklausu Jesse sem reynir sitt besta að vera góð við alla í þeim heimi sem módelbransinn er. Mótleikkonur hennar svo sem Jenna Malone sem förðunarfræðingurinn Ruby sem verður besti vinur Jesse í þessum módelbransa. Bella Heathcote og Abby Lee Kershaw leika síðan módelin Gigi og Sarah sem verða hinir helstu óvinir Jesse. Síðan í smáhlutverkum koma síðan Christina Hendricks sem yfirmaður módelskrifstofu og Keanu Reeves sem mjög reiður eigandi skítamótels.

Myndin er mjög djörf þegar kemur að skilaboðum; eins og með útlitsdýrkarnir þar sem meðal annars er tekið á lýtarlækningum, girnd manna og hvað manneskjan er ógeðsleg í sínum gjörðum. Hann reynir stundum að sína þetta með sínum verulega grófa svarta húmór, sem Danir eru einmitt þekktir fyrir og ofast en ekki heppnast þetta hjá honum. Það eru samt nokkur atriði í myndinni sem mér fannst Refn bara gera til að sjokkera mann án þess að sýna einhverju ástæðu fyrir því, ákveðið atriði með tunglinu kemur strax uppí hugann.

Nicolas Refn má samt eiga það að hann er með eitt fallegasta kvikmyndaauga þegar það kemur að skotum, þar sem sumar senur eða skot gætu alveg verið listaverk. Eitt draumaatriði kemur strax uppí hugann þar sem Refn sýnir sínar bestu hliðar þegar kemur að kvikmyndaskotum og hvað maðurinn elskar að nota litina bláan og rauðan. Í myndum hans sjást hvað þessir tveir litir skipta miklu máli. Það sást nokkuð vel í Only God Forgives en hér fer hann alla leið, frá opnunarskotunum til lokaskota.

The Neon Demon mun seint fara úr hausnum á manni og maður mun hugleiða hvað Refn var að hugsa varðandi nokkrar senur, en það er líklega það sem hann vill. Þessi mynd er gullfalleg, gróf, svört og dökk. Ef þú ert kvikmyndaáhugamaður er þetta skyldumynd að sjá, og verður líklegast að taka nokkur áhorf á hana til að skilja hana 100%. Minn helsti draumur er að myndin verður tilnefnd fyrir bestu kvikmyndatöku, þó það séu eiginlega engar líkur á því.