Dario Argento er dáldið heillum horfinn þessa dagana, og það er orðið ansi langt síðan hann gerði síðast kvikmynd sem var ekki hálf kjánaleg. Það er sorglegt, vegna þess að það kom gott tímabil þar sem hann var magnaður kvikmyndagerðarmaður með mikið vald á því sem hann var að gera. Flestir þekkja frægasta verk hans, Suspiria, en það hafa ekki allir séð eða heyrt um Profundo Rosso, eða Deep Red eins og hún heitir á ensku.

Hún er ein af hans albestu kvikmyndum, og ber sterk einkenni þess sem gerði myndir hans svo góðar. Ekki var það söguþráðurinn eða leikurinn, sem var og er svona hálfgert moð, heldur andrúmsloftið sem hann náði að skapa með magnaðri kvikmyndatöku, frábærri tónlist og sviðshönnun….mise en scéne eins og það er kallað, þ.e. hvernig hönnunin og leikstjórnin sameinast í því hvernig sagan er sögð.

Myndin er, eins og flestar myndir Argento, „Giallo“, ítalskur undirgeiri kvikmynda sem fjallar um morðingja sem myrðir fórnarlömb sín á einhvern sjónrænt eftirminnilegan hátt og annaðhvort löggu, blaðamann eða hugsanlegt fórnarlamb sem leitar að honum og reynir að leysa gátuna um hvers vegna hann sé að fremja þessa glæpi. Það eru ótrúlega flott stílfærð atriði í myndinni og flott „set pieces“, þ.e. stærri atriði sem mikið er lagt í, ásamt því að tónlist sveitarinnar Goblin spilar stóra rullu í því að gera verkið eftirminnilegt.