Stutta útgáfan: Týpísk B-afþreying en þó hress, fallega tekin upp og Blake Lively sýnir góða frammistöðu. Í einu orði sagt: fín.

6

 

 

Langa útgáfan:

The Shallows gat eiginlega ekki valið sér meira viðeigandi titil. Hann segir svo yndislega margt um alla myndina. Hér eru engar kröfur gerðar til áhorfenda nema þær einu að slökkva á heilanum og taka inn þvæluna sem á sér stað á skjánum.

Það er samt augljóst að framleiðendur séu alveg meðvitaðir um að hér sé ótrúlega þunn poppkornsmynd á ferð sem snýst um rosalega einalda atburðarrás; hákarl ræðst á stelpu, stelpa þarf að lifa af. Til að spila sem best með þetta mótíf er myndin klippt niður í litlar 80 mínútur. Það er stutt í næsta hasaratriði, engum tíma eytt í lógík og stokkið frá einu atriði í næsta svo að áhorfendum fari ekki að leiðast. Þetta er fullkomin uppskrift af týpiskri sumarmynd sem maður horfir á og gleymir svo.

Vandamálið er að sumarið 2016 er búið að vera svo slæmt að maður mun ekkert gleyma The Shallows. Þetta er ein af fáu myndum sumarsins sem fékk ekki alltof mikið umtal. Hún kom í rauninni út á akkúrat réttum tíma og náði að græða kostnaðinn sinn á opnunarhelginni. Á góðum sumarmánuði hefði þessi mynd gleymst og mögulega endað á því að tapa pening. Það þýðir þó ekki að hún sé góð að eitthverju leyti, hún er bara einfaldlega skárri kostur en margt annað akkúrat núna. Kvikmyndatakan er gullfalleg, sem kemur þvílíkt á óvart. Skotin yfir ströndina í New Mexico eru algjör fegurð. Leikstjórinn, Jaume Collet-Serra (Orphan, Non-Stop), nýtir myndavélina til að segja söguna. Það reynir því á Blake Lively að geta leikið með svipbrigðum og líkamstjáningum sem henni tekst bara þónokkuð vel stelpunni.

the-shallows

Miðað við mynd sem gerist á strönd, sem inniheldur oftast léttan fatnað, vatn og sól, þá sparar leikstjórinn alveg skotin af Blake. Það eru max 2-3 skot af henni með rassinn út í loftið fyrir karlmennina sem komu bara til að sjá hana. Sem er einfaldlega óvenjulegt miðað við svona mynd og kemur bara skemmtilega á óvart. Í staðin fær Blake að spreyta sig í að berjast við hákarl á meðan að hún er bankandi við dauðans dyr vegna næringaskorts og kulda. Kynþokkafullum skotum er skipt út fyrir blóðugum, köldum skotum sem sýna hvað ástandið hennar í raun tæpt þrátt fyrir að vera litlum 180 metrum frá ströndinni. Þetta hljómar eins og voðalega sjálfsagður hlutur en hann bara einfaldlega er það ekki.

Blake og myndatakan er í raun það eina sem stendur almennilega upp úr. Lengdin er þó góð og það er frábært comic relief í myndinni sem ber nafnið Steven Seagull en lítið meira en það. Hákarlinn er of greindur og lítið vit í atburðarrásinni. Ofan á það er reynt að troða inn hliðarsögu um krabbameinsveika móðir sem er algjörlega gagnslaus og gefur myndinni aðeins of mikið bandarískt sykur. Þannig að þrátt fyrir að brjóta upp nokkrar litlar venjur þá er heildarmyndin ekkert sem við höfum ekki séð áður. Hún er bara í aðeins fallegri umbúðum.