Charlie Kaufman er einn súr, komplex einstaklingur með ekkert sérlega kátt sjónarmið á mannkyninu – sem er ein af ýmsum ástæðum til þess að elska brútal hreinskilnina hans, furðulega hugmyndaflugið og þann fjölda laga sem yfirgnæfa sögurnar hans, hvort sem þær heita Being John Malkovich, Adaptation, Eternal Sunshine of the Spotless Mind eða Anomalisa.

Allt þetta eru þó myndir sem fengu glimrandi góða dóma og þykja almennt býsna aðgengilegar. Ekki er hægt að segja það sama um Synecdoche, New York (2008) – leikstjórafrumraun Kaufmans þar sem hann sleppti sér algjörlega lausum með listræna, kómískt dökka depurðarópusi sínum…

… og það er ferlega leiðinlegt að fleiri skulu ekki vera að tala um þessa mynd.

synecdoche3

synecdoche_new_york_ver2_xlgÞað fór ekkert sérlega mikið fyrir þessari mynd hér á landi á sínum tíma. Myndin er líka þung, tormelt og liggur við að þurfi leiðarvísi til að skilja hana til fulls við fyrsta gláp en að mati undirritaðar er hún sömuleiðis úthugsuð, einstök á allan veg og hreint út sagt brilljant við nánari skoðun. Einnig býður hún upp á einhverja albestu frammistöðu sem Phillip Seymour Hoffman heitinn skildi eftir handa okkur. Það eru stór orð, enda stórglæsilega næmur og tilþrifaríkur leikur hér á ferð, og kröftugur stuðningur frá leikkonum á borð við Michelle Williams, Emily Watson, Diane Wiest (og fleirum) gerir gott enn betra.

En ef þú hefur séð Synecdoche, New York, þá annaðhvort veistu allt þetta nú þegar – eða þú ert enn að melta kvikindið og þar af leiðandi í leit að smá svörum.

YouTube-arinn Adam Johnston, hjá rásinni YourMovieSucks, gaf út fjögurra þátta (augljóslega spoiler-ríka…) krufningu á myndinni þar sem hann fer ítarlega yfir lög, földu skilaboð og þemu myndarinnar. Hvert vídeóið er um 20 mínútur að lengd, og nýtir hann tímann vel og varpar ljósi á margt sem gæti hafa farið framhjá einhverjum áhorfendum.

 

…Og ef þú hefur ekki kíkt á þessa mynd, dragðu djúpt andann og hentu þér í það verk undir eins áður en þú kemur svo aftur. Ef þú ert aðdáandi (segjum) „öðruvísi“ bíómynda þá er þetta gargandi skylduáhorf.

Kíkjum á hvað Adam hefur að segja:

 

PS. Því miður er ekkert enn vitað um hvort Anomalisa rati í kvikmyndahús á Íslandi.
Bömmer.