Stutta útgáfan:
Stórfyndin, miskunnarlaus og vel gerð með frábæru leikaravali. Skylduáhorf fyrir sögunörda.

 

Langa útgáfan:

Kvikmyndaiðnaðurinn er blessunarlega ekki laus við pólitískar ádeilur, en þar má nefna meðal annars kvikmyndirnar Dr. Strangelove og Inglourious Basterds. Hollywood hefur oftar en ekki tekist vel að koma með kómíska árás á dökkan og þurran veruleika stjórnmálanna.

Í ár (eða réttara sagt í fyrra) kom út kvikmyndin Death of Stalin í leikstjórn skosk/ítalska leikstjórans Armandi Iannucci, en hann skrifar einnig handritið af myndinni ásamt öðrum. Eins og titillinn gefur til kynna fjallar myndin um dauða harðstjórans Jósefs Stalíns og eftirmála hans, þegar litríkur hópur Sovét-elítunnar fer að berjast um völd og áhrif innan ríkisins. Í framhaldi myndast óútreiknanleg og kómísk atburðarrás sem flæðir mjög vel í gegnum myndina. Myndin nær fullkomlega að skapa það þrútna andrúmsloft sem réð ríkjum í Sovétríkjunum á þessum tíma og á sama tíma lætur okkur fá magaverk af hlátri, já það er afrek út af fyrir sig.

Leikstjórinn sýnir sögunni enga miskunn, þrátt fyrir að Dauði Stalíns sé gamanmynd, þá er ekki langt í kalda veruleikan sem var til staðar í Sovétríkjunum á sjötta áratug síðustu aldar, en myndin gefur sig út fyrir að vera „lauslega byggð á sannri sögu“. Myndinni tekst að láta áhorfandann spyrja sig þeirri siðferðislegri spurningu hvort að maður ætti í raun að vera að hlægja að þónokkrum atriðum þar sem húmorinn er oft bundinn við þau voðaverk sem voru framin af harðstjórninni.

Þegar maður horfir á myndina kemst maður ekki hjá því að spyrja sig hvort að tímasetningin á útgáfu myndarinnar hafi verið strategísk þar sem að tengsl á milli vesturlanda og Rússlands hafa kólnað síðustu misseri og ekki bætti úr skák að sýningar á Dauða Stalíns hafa verið bannaðar í Rússlandi. Oftar en ekki hefur Hollywood nýtt sína krafta til að gera óspart niðurlægjandi grín að pólitískum andstæðingum Bandaríkjanna, eins og mátti sjá í Inglorious Basterds, Team America, eða annari hverri mynd eftir Mel Brooks.

Einn stærsti kostur myndarinnar er frábært teymi af flottum leikurum. Jeffrey Tambor er flottur sem Georgy Malenkov, næstráðanda Stalíns, en samt átti hann frekar erfitt með að hrista af sér Arrested Development stælana sína sem passaði ekki alveg inn í dýnamíkina þarna. Þeir leikarar að mínu mati sem stóðu upp úr voru Steve Bucemi sem hinn geðilli Nikita Krústjoff og Rupert Friend, en sá síðarnefndi leikur Vasily, son Stalíns, og hélt uppi myndinni oft með stórkostlegum túlkun hans á misheppnaða og snarklikkaða afkvæmi harðstjórans. Einnig var Jason Isaacs flottur sem hinn ofur-karlmannlegi og sjarmerandi Zukhov marskálkur, en Isaacs sýnir nýja kómíska hlið á sér, en maður er vanur að sjá hann í miklu alvarlegri hlutverkum.

Niðurstaðan er skýr. Söguþráðurinn er skemmtilegur og heldur góðum og jöfnum dampi í gegnum myndina. Myndin er ótrúlega vel skrifuð en hún heiðrar atburðarrásina sögulega séð og á sama tíma rífur hana í sig með látum. Áhugamenn um alvöru breskan húmor, sem og sögunördar munu eiga góða kvöldstund með Dauða Stalíns.