„Revenge is in all of us.“

Þessi mynd verður sennilega alltaf meistaraverk Shane Meadows í mínum huga. Ég hef sé þrjár myndir eftir hann og hann er líklega langt frá því að vera búinn en ég á erfitt með að sjá hann gera betri kvikmynd en Dead Man´s Shoes. Þetta er ótrúlega áhrifarík mynd. Á köflum er erfitt að horfa á hana og ég á ekki von á að allir hafi maga í hana. Paddy Considine er rosalegur sem hefndarengillinn, kaldur og kvikyndislegur. Ástæða reiðinnar er sýnd smám saman og þegar maður hefur séð heildarmyndina er maður skilinn eftir með fölt andlit og kartöflu í hálsinum.

Þetta var annað áhorf á þessa mynd. Hún var alls ekki áhrifaminni fyrir í seinna skiptið, í raun þvert á móti. Af því að maður veit allt veit maður betur hvenær Meadows er að blekkja mann og maður horfir öðruvísi á myndina. Notkun Meadows á sjónarhornum, hljóðum og tónlist er mjög áhrifarík.

„You, you were supposed to be a monster, now I’m the fucking beast. There’s blood on my hands, from what you made me do.“

Leikstjóri: Shane Meadows