Gamanmyndin What We Do In The Shadows sem kom út í fyrra rauk í sterkt uppáhald hjá afskaplega mörgum, lenti á mörgum topplistum og hefur sest í elskulegan sess fyrir það eitt hversu lengi er hægt að kvóta í hana („Werewolves, not swearwolves!“). Hún sýndi okkur veröld vampíra eins og alvöru mocumentary mynd sæmir, en nú er búið að tilkynna ‘framhald’ sem mun snúast að mestu kringum varúlfana og mun heita hinu dásamlega nafni We’re Wolves.

maxresdefault (1)

Leikstjórinn, framleiðandinn, höfundurinn og leikarinn Taika Waititi er staddur á Sundance og þar talaði hann um að hann væri að vinna í að skrifa handrit að þessu „spin-off’i“ sem yrði líklegast næsta verkefnið hans. Þetta kemur fram á Collider en einnig sagði Jermaine Clement sem er meðhöfundur og leikstjóri að myndin muni snúast að mestu leyti um varúlfinn Anton. Hann var leiðtoginn í pakkinu og leikinn af Rhys Darby (einhverjir þekkja hann einnig sem Potter-óða yfirmanninn úr Yes Man).

Augljóslega er nóg að gera hjá Waititi við undirbúning á Thor: Ragnarök sem er væntanleg á næsta ári. Ekki er búið að ráða leikstjóra né ræða tímaramma á útgáfu, en í millitíðinni er alltaf hægt að finna sér ástæðu til þess að rifja upp aftur eina af ferskari vampírumyndum síðari ára.