Þessu bjóst enginn við. Maðurinn sem er þekktur fyrir að stangast á við framleiðendur og vilja hafa hlutina með sínum hætti, maðurinn sem segir ekki já við hverju sem er og hefur áður brennt sig á framhaldsmyndagerð, David Fincher – samkvæmt Variety – ætlar að taka að sér World War Z framhaldið… ef samningsviðræður ganga vel.

Díllinn er ekki alveg kominn í gegn, en hann er víst sagður vera á lokametrum. Reyndar hefur þessi framhaldsmynd verið í svolitlu limbói, nánar til tekið óvissu um hvort hún verði gerð eða ekki. Upprunalega stóð t.d. til að J.A. Bayona myndi leikstýra en hann hafnaði tækifærinu á endanum og er núna á fullu að sinna Jurassic World framhaldinu. Brad Pitt, sem einn af framleiðendum myndarinnar, hafði víst hitt fullt af öðrum leikstjórum en ekkert gekk eftir.

Orðrómar um að Pitt vildi grípa gamla félaga sinn Fincher í þetta verk voru búnir að vera í gangi í svolítinn tíma og þykir líklegt að það hafi ekki verið auðveldasta verk í heiminum að sannfæra leikstjórann um að taka þátt. Fincher og Pitt, fyrir ykkur sem ekki muna, hafa þrisvar sinnum unnið saman hingað til, við Se7en, Fight Club og Benjamin Button.

Það segir sig kannski sjálft en Fincher er talinn vera einn besti (og smámunasamasti) leikstjóri sinnar kynslóðar; „auteur“ mikill og með risa-stúdíómynd eins og World War Z 2 væri spurning hvort hann myndi leyfa sér bara að prófa eitthvað nýtt í samvinnu við framleiðendur eða hvort hann fengi í rauninni fullt vald yfir verkinu. Og ætli hún verði PG-13 eins og fyrri?

Fyrri World War Z myndin sló í gegn árið 2013 og fékk meðalfína dóma, sem þótti merkilegt í ljósi þess hvað framleiðslan á þeirri mynd lenti í miklu veseni.

Annars er alveg sama hvaða nafn gefinnar myndar er, ef Fincher leikstýrir henni er það næg ástæða til þess að hlakka til – sérstaklega ef þetta er mynd um uppvakninga!