Hinn virti en í senn umdeildi leikstjóri, Darren Aronofsky (sem er að auki ósvikinn Íslandsvinur), var spurður spjörunum úr á Reddit fyrir skömmu. Aronofsky tók þátt í hinum skemmtilega Ask Me Anything-lið í tilefni af frumsýningu sinnar nýjustu myndar, mother! (já, með litlum staf og upphrópunarmerki).

Aronofsky var opinn og hreinskilinn, auk þess að vera hæfilega diplómatískur og fræðandi. En til að gera langa sögu stutta týndum við saman ýmis dæmi – og þýddum þau vissulega.

Hvers vegna er upphrópunarmerki í titlinum? Af hverju er titillinn allur í lágstöfum? Hver er tilgangurinn með þessu?
Í fyrsta lagi verða margir spillar í kringum þetta, þannig að ef þú vilt ekki láta skemma neitt fyrir þér, gætið ykkur á öllu sem þið lesið. Myndin spilast fyrst og fremst út eins og mystería, þangað til vonandi í lokin þegar þú spyrð sjálfa/n þig „wtf?“ En til þess að komast betur að ástæðunni með lágstafa m-ið mæli ég með að þú skoðir kreditlistann og leitir að nafninu sem er öðruvísi stafað en hin. Síðan skaltu spyrja þig, er til eitthvað annað heiti fyrir þá persónu?

 

Hvað er mikilvægasta einkenni sem leikstjóri getur búið yfir?
Auga fyrir smáatriðum.

 

Hvað er það besta við þína vinnu?
Samvinna með leikurum.

 

Hey Darren! Þegar þú ert að skrifa, hvernig er ferlið hjá þér? Hlustarðu á tónlist, horfiru á sjónvarp eða þarftu algjöra þögn?
Blanda af öllu, annaðhvort eða. Það fer svolítið eftir því líka hvað ég er lengi að velja mér tónlist til að skrifa við.

 

Af hverju ákvaðstu að skjóta þessa mynd í 16mm?
Ég elska filmu. Allar þessar nýju upptökuvélar líta eins út fyrir mér. 16mm gefur einstakt lúkk. Áhorfendur fíla allt sem er einstakt.

 

Markaðssetningin fyrir myndina er geggjuð. Tókst þú mikinn þátt í henni?
Ég vann eitthvað með Paramount að kynningarefninu, og ég er virkilega ánægður með allt sem þeir gerðu.

 

Ertu með einhverjar hugmyndir um verkefni sem þú heldur að þú munir aldrei geta gert, en vonar að verði að veruleika?
Það var Noah.

 

Ætlarðu alltaf að fókusa á myndir sem þú skrifar sjálfur eða ert þú tilbúinn til þess að vinna með handrit sem einhver annar skrifar?
Ég er alltaf leitandi að góðu efni.

 

Hefurðu einhvern tímann spáð í því að tækla gamanmynd?
Mig dauðlangar til þess. Er að leita að þeirri réttu.

 

Hverjar eru uppáhaldsmyndir þínar frá síðustu árum?
Ég var mjög hrifinn af The Tribe frá Úkraínu, The Club frá Pablo Larrain. Fyrir utan það er ég mikill Rick and Morty aðdáandi.

 

Hvað með Get Out?
Mér fannst hún æðisleg.

 

2001: A Space Odyssey eða Star Wars?
Kubrick. Dö.

 

Hvaða álit hefur þú á Blade Runner?
Elska upprunalegu myndina. Hlakka til að sjá framhaldið.

 

Er pylsa samloka?
Nei.

 

Hver var innblásturinn á bakvið valið á Jennifer Lawrence og Javier Bardem í aðalhlutverkin?
Frábærir leikarar, bæði tvö. Mikill heiður að vinna með þeim.

 

Af hverju hófstu samband við Jennifer Lawrence en ekki Javier Bardem?
(ekkert svar)

 

Ef þú myndir velja eitt vinsælt popplag til að tengja við þessa mynd, hvaða lag yrði fyrir valinu?
End of the World

 

Ókei, Darren svaraði næstum því öllu. Annars má lesa alla yfirheyrsluna hér.