Jólagrínmyndin sem fer árlega í spilun hjá mörgum. Christmas Vacation er tekjuhæsta myndin frá upphafi í seríunni um Clark Griswold og misheppnuðu – en (oftast) velviljugu – plön hans með fjölskyldu sinni. Mörgum þykir þessi bera höfuð og herðar yfir allar hinar, en húmor eins og allir vita er einstaklingsbundinn og getur stundum elst illa.

Þess vegna er kjörið að skoða það hvort Christmas Vacation eigi skilið að vera hluti af jólaglápshefðum um ókomin ár eða hvort léleg samkeppni jólagrínmynda hafi einfaldlega bara gefið henni forskotið öll þessi ár. Hún er elskuð af mörgum í dag en gagnrýnendur tóku ekkert sérlega hlýlega á móti henni í denn (Roger Ebert heitinn varð fyrir sérstaklega miklum vonbrigðum og sagði hann myndina aldrei ná sér á gott flug…). Ætli eitthvað hafi verið til í því eða voru þeir bara allir fýlupúkar eins og staðalmyndinni fylgir? Hér mætast gagnstæð álit frá fastapennum vefsins, Sigurjóni Hilmarssyni og Siggu Clausen:

720x405-MSDNALA_EC037_H

Sigurjón – MEÐ

4879867948Christmas Vacation er ekki lengur kvikmynd. Hún er orðin hefð. Ekki bara á mínu heimili heldur heimilum um allan heim. Hún er ein af þeim óborganlegu jólaklassíkum á borð við Home Alone, It‘s A Wonderful Life og Miracle On 34th Street. Það eru þó engin rök fyrir því afhverju ég stend hliðhollur myndinni. Christmas Vacation er fullkomið dæmi um hvernig á að gera framhaldsmynd í grínseríu án þess að missa dampinn. Í stað þess að elta trend seríunnar um að stækka við sig (fyrst USA svo Evrópu næsta lógíska skref hefði verið Asía) þá ákveður hún að verða minnsta Vacation myndin í seríunni, þrátt fyrir að vera sú þriðja. Hún gefur minni aukapersónum frá hinum myndunum meiri skjátíma og alvöru persónuleika. Christmas Vacation er einnig fullkomið dæmi um hversu gott National Lampoon var á sínum tíma og hversu frábær Chevy Chase var áður en hann ákvað að brenna allar brýr. Handritið nýtir sér kannski nokkrar klisjur um að fjölskyldur eigi að standa saman á jólunum sama hversu öðruvísi þær eru en hún bindir fólkið saman á svo yndislega ruglaðan hátt að klisjurnar gleymast strax. Hvaða önnur klisjulega fjölskyldumynd bindir saman hjartarætur með því að láta lögregluna umkringja húsið vegna mannráns? Og á jólunum í þokkabót? Christmas Vacation er löngu orðin klassík sem heldur áfram að gleðja og er ég þar af leiðandi algjörlega MEÐ Christmas Vacation.

 

Sigga – Á MÓTI

mwl-christmasvacation-2

Það að þessi mynd er ár eftir ár krýnd jólamyndin sem fólk verður á horfa á aftur og aftur veldur mér ógleði. Hvað er svona fáránlega skemmtilegt við að horfa á fjölskyldu halda jólin með öllum ættingjunum og allt fer úrskeiðis? Ef mig langar að skemmta mér yfir fáránlegum fjölskyldusteríótýpum þá fer ég bara í jólamatarboð hjá ömmu. Myndin er svo fáránlega fyrirsjáanleg að fimm ára barn veit hvað mun gerast næst (það kviknar í trénu, jólamaturinn klúðrast, Clark fær ekki peninginn, missir vitið), eða húmorinn eldist bara svona illa. Þetta er allt bara unnið gegnum sömu formúlu og var í hinum tveimur – Vacation og European. Eitt það fáránlegasta við myndina er hvað hún kastar fram amerískri hugmynd um fjölskyldugildin og mikilvægi þess að vera góð við fjölskyldumeðlimina og þá alla. Til að slá áhorfandann svo vel utan undir gerir fjölskyldufaðirinn ekkert annað en láta sig dreyma um stórbrjósta ljósku í sundlauginni hans inn á meðan hann klúðrar öllu sem klúðra má. Ekki minnast svo á þennan óþolandi og ógeðslega frænda sem fékk sína eigin framhaldsmynd. Þá mun ég kasta upp jólasteikinni.

 

 

Segðu okkur endilega hvað þér finnst, hvoru megin við línuna lendirðu?