Franski kvikmyndagerðarmaðurinn Luc Besson hefur kannski ekki verið upp á sitt besta í leikstjórasætinu í áraraðir, umdeilanlega frá því að The Fifth Element kom út (þó Lucy eigi sér ýmsa litla verjendur, undirritaður er þar á meðal), en nú í júlí má búast við dýrustu „indí“-mynd allra tíma frá kappanum, með ofurlanga titilinn Valerian and the City of a Thousand Planets.

Myndin er byggð á hundgamalli franskri myndasöguseríu eftir Jean-Claude Mézières, seríu sem m.a. George Lucas sótti mikinn innblástur í þegar hann lét vaða í Star Wars á sínum tíma. Besson er sagður vera gríðarlegur aðdáandi þessara sagna og hefur ekki farið leynt með það að þessi metnaðarfulla geimópera er búin að vera draumamyndin hans síðan hann var krakki. Útkoman virðist allavega stíllúkka!

Til gamans má einnig geta að virtu brellufyrirtækin ILM og Weta unnu bæði að verkefninu, sem verður að teljast nokkuð merkilegt – og sjaldgæft. En með helstu hlutverkin fara Dane DeHaan, Cara Delevingne, Clive Owen, Rihanna, John Goodman og Ethan Hawke.

Nú er kominn glænýr trailer fyrir myndina sem undirstrikar allverulega hversu mikið púður (og pixlafjöldi) hefur farið í gerð hennar. Stikluna má sjá hér að neðan – og með íslenskum texta.