Fyrir meira en tveimur áratugum brenndi ein skærasta stjarna Chile sig á kvikmyndaiðnaði Bandaríkjanna og dró sig í sjálfskipaða útlegð sem varði vel inn í 21. öldina. Árið 2013 leit síðan loksins ný mynd eftir leikstjórann Alejandro Jodorowsky dagsins ljós undir nafninu The Dance of Reality. Ólíkt mörgum af kollegum sínum á svipuðum aldri, þá leitaði Jodorowsky inn á við frekar en út með myndinni og stefndi á að rekja upp ævisögu sína í gegnum fimm kvikmyndaverk sem myndu sameina sannleikann með súrrealisma, táknmyndum, myndlíkingum og draumum.

Sú fyrsta tæklaði barnæsku leikstjórans í smábænum Tocopilla í Chile, og einblíndi á stormasama samband hans við föður sinn. Nokkur mikilvæg ár í lífi Jodorowsky eru framsett sem litríkur farsi og nánast hvert smáatriði er ýkt til muna, en þjóna oftast þeim tilgangi að endurspegla minningar barns sem leitað er í áratugum seinna. Sem dæmi hljómaði rödd móður Jodorowsky ávalt sem englasöngur í eyrum hans, og því syngur hún allar línurnar sínar í myndinni eins og barmamikil valkyrja. Að sama skapi man hann eftir föður sínum sem ströngum einræðisherra og því hagar hann sér eins og versti níðingur, en maður finnur það á sér að ýkjurnar á atferli föðursins séu með þeim minnstu í myndinni. Tilgangur Dance of Reality er þó ekki aðeins að velta sér upp úr ljúfsárum æskuminningum, heldur einnig til að horfast í augu við þær sem fullorðinn maður og sjá þær sem meira en bara sykursæta drauma og dimmar martraðir.

Sonur leikstjórans, Brontis Jodorowsky, leikur afa sinn sem hann kynntist aldrei persónulega og Jodorowsky sjálfur hangir yfir atburðarrásinni sem bæði sögumaður og lærimeistari fyrir sitt unga sjálf. Úr verður súrsætt endurlit á tíma sem er löngu liðinn, og tilraun leikstjóra til að sætta sig við lífið sem hann mun bráðlega skilja við, enda fer Jodorowsky að skríða upp í níræðisaldurinn. Jafnvel ef þú skerð burt persónulegu tengingu leikstjórans við verkið, hefurðu enn fyndna, hjartnæma, fallega, myrka og draumkennda för barns í átt að manndómi.

Allan sinn starfsferil hefur Jodorowsky barist að einhverju leiti við framleiðendur og stúdíó vegna peninga, og á þessum tímapunkti sækist hann ekki einu sinni eftir því að græða á myndunum sínum; en það hefur einnig aldrei verið eins erfitt að fá fjármagnið til að gera þær. Það ásamt versnandi heilsufari hans stuðluðu að því að upprunalega áætlunin um fimm kvikmynda skjalfestingu á lífi hans þurfti að minnka við sig og endar (vonandi) sem þríleikur. Dance of Reality var að einhverju leiti fjármögnum með hjálp aðdáenda, en þegar kom að framhaldinu, Endless Poetry, var nánast helmingur myndarinnar fjármagnaður þannig.

Þremur árum eftir að fyrsti kaflinn kom út fengum við loks að sjá þann næsta, en hann fylgir ævintýrum Jodorowsky eftir að hann flutti með fjölskyldunni til borgarinnar Santiago sem ungur strákur og fór að uppgötva sig sem listamann. Ljóðlist eignaði sér huga hans og sál, þrátt fyrir ströng mótmæli föður hans. Hann fellur inn í dafnandi listaheim borgarinnar og kynnist jafningjum sínum sem opna augu hans enn meira fyrir frelsandi eðli lífernisins.

Aftur er þessi heimur framsettur á öfgafullan hátt og haldast myndirnar tvær samlaust í hendur; það er talað um að sitt hvor standi á eigin fótum, en það er frekar loðin leið til að líta á þær og þú ert að gera sjálfum þér mikinn ógreiða að tækla ekki báðar í réttri tímaröð. Endurlit leikstjórans er nánast enn sterkara en áður og með því sem verða eflaust síðustu myndir hans, þá er Jodorowsky að skilja eftir sig einstaka arfleifð sem undirstrikar mátt listarinnar. Það er þess virði eitt og sér að sjá þær til að upplifa samtöl manns á tveimur pólum líf síns; góðu og slæmu hliðar yngri áranna og ellinnar, hvernig hann lítur á blóma æskunnar og dauðann sem nálgast, hvernig hann reynir að endurskrifa fyrri mistök með visku endurlitsins. Hvernig lífið er framsett sem leikrit og veruleikinn svið.

Myndirnar geta orðið langdregnar, en innihaldið er svo ríkulegt, djúpstætt og einstakt að það afsakar nánast alla vankantana. Það eru alltof fá skipti þar sem svona persónuleg sýn leikstjóra nær bæði að snerta við áhorfendum inn að beini og vera einlægt uppgjör við sjálfan sig, hvað þá að hún sjái dagsins ljós yfir höfuð. Við þurfum því að veita því athygli þegar það gerist og á móti fáum við kannski tól til að beina að okkur sjálfum þegar sá tími kemur.
Nú vonum við bara að maðurinn fái tækifæri á að loka þríleiknum.