The Terminator 1 & 2, Predator, Conan The Barbarian, Commando, The Last Action Hero og Total Recall. Þetta eru án efa fyrstu kvikmyndirnar sem poppa í höfuð manna þegar hugsað er til gullaldar Arnold Schwarzeneggers. Inn á milli leyndust óvinsælli myndir eins og Raw Deal, Red Heat og The Running Man eða eins og ég kýs að kalla hana, upprunalega Hunger Games myndin með eistu. Engin Hunger Games mynd getur keppt við ofbeldisfulla 80‘s Arnold mynd, alveg sama hversu mikið af fuckable ungu fólki birtist á skjánum.

Sjálfur horfði ég á Arnold myndir eins og það væri trúarbragð gegnum alla æskuna og geri það enn, það er ótrúlegt hvernig þessi maður er búinn að stimpla sig endanlega sem grískur Guð kvikmyndagerðar. Maðurinn hefur vafasama leikhæfileika og tilraun hans í leikstjórastólinn var grafin og gleymd strax eftir dreifingu. Tjekkið á Christmas in Connecticut (1992), já Arnold leikstýrði einu sinni kvikmynd.

Framleiðslusagan bakvið The Running Man er soldið áhugaverð því upprunalega átti Andrew Davis (maðurinn bakvið Under Siege og The Fugitive) að leikstýra en var rekinn viku í tökur og skipt út fyrir Paul Michael Glaser sem Arnold fannst vera hræðilegt val þar sem hann var þáttaleikstjóri og hafði enga reynslu í kvikmyndum. Ekki gleyma að sagan var upprunalega skrifuð af Stephen King sem af einhverjum ástæðun ákvað að gefa söguna út undir dulnefninu Richard Bachman. En vel áður en Arnold leikstýrði kvikmynd þá lék hann í The Running Man, tekin upp seinni hluta 1986 og gefin út ári seinna, tímabil þar sem 80‘s áratugurinn var bókstaflega að fá það yfir allt mannkynið.

runningman_3

Byrjunin á The Running Man er eitthvað sem ég væri til að sjá aftur í kvikmyndum, andrúmsrík 80‘s synth tónlist meðan textarúlla útskýrir baksöguna á þeirri ömurlegu framtíð sem The Running Man á sér stað í sem er tæknilega séð þremur árum eftir þessi umfjöllum er skrifuð. Arnold leikur Ben Richards árið 2019, þyrluflugmann fyrir þá glötuðu bandarísku ríkisstjórn sem sveltir þegnum sínum og misþyrmir þeim undir harðstjórn og einokun. Honum er skipað að skjóta á almenna borgara í mótmælum en Arnold verandi Arnold neitar og honum er hent í fangelsi. Þar kynnist hann Yaphet Kotto og gaurnum með gleraugunum sem enginn veit hvað heitir en lék flugmann í Fandango (1985) með Kevin Costner. Köllum hann Lárus. Þetta er ekkert dæmigert fangelsi heldur eru vélrænir kragar settir kringum fangana sem sprengja höfuðin þeirra reyna þeir að fara yfir þröskuldinn í kringum fangelsið.

Einhvern veginn held ég að ekkert einasta höfuð sést springa í Hunger Games því ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei nennt að horfa á þær myndir. Arnold, Yaphet og Lárus flýja fangelsið og þá kynnist Arnold Mariu Conchita Alonso sem Arnold tekur í gíslingu svo hann komist yfir landamærin. Hann er þó gómaður og vinir hans einnig og þá kemur að fjörinu. Þeir eru látnir taka þátt í raunveruleikakeppninni The Running Man þar sem fólk er elt niður og drepið í beinni útsendingu. Þeir sem lifa af til leiðarloka fá frelsið sitt aftur.

Það er sterkur þefur að Paul Verhoevenesque fasismagríni þar sem myndin er löðrandi í 80‘s auglýsinga og þáttagríni. Richard Dawson leikur Damon Killian, þáttastjórnandann og aðal drullusokkinn bakvið þættina og fullkomið val hann er þar sem maðurinn var stjórnandi Family Feud í tíu ár á sínum tíma. Maðurinn eignar sér hlutverkið auðveldlega.

Arnold hins vegar leikur voða tóma persónu, eða betur sagt þá er hann að leika Arnold meira en nokkurn annan. Við vitum lítið sem ekkert um hann nema að hann vildi ekki drepa fólk sísvona, sem er auðvitað góður hlutur en burtséð frá því þá er persónusköpunin nánast engin. Við fáum að vita að hann á bróður og að hann er svartsýnn varðandi umbreytingar í þjóðfélaginu. Það er þó enginn missir, fyndið hvað hlutir eins og persónusköpun og frumleiki skipta engu máli þegar Arnold er í forgrunni, virðist vera hængur frekar en kostur. Munið eftir Batman & Robin þegar við fáum það dýrðlega móment þar sem Mr. Freeze dettur í ísfroðuna? Eða hlægilegu forsögu hans í Raw Deal og vináttu hans við yfirmann sinn? Arnold er bestur þegar hann fær vera Arnold, engar neyddar baksögur eða flækjur til að dýpka persónuna.

The_Running_Man_Arnold_Richard_Dawson

Svo ég tel það sem kost frekar en neitt annað að persónusköpunin sé ábótavön, Arnold þarf hana ekki. Það sem myndinni skortir í persónusköpun bætir hún vel upp með þéttum söguþræði, vel gerðum hasarsenum og fjörugri atburðarrás og ekki gleyma fullt af frábærum one liners. Það er eitthvað gullið við þessar gömlu 80‘s hasarmyndir. Tónlistin er oftast mergjuð, filmu lookið er alltaf dýnamít og ofbeldið er alltaf gert með praktískum brellum og engum höggum mýkt. Horfið á Taken 2 eða margar þessar nýju „hasarmyndum“ sem gelda sig í þágu PG-13. Samanburðurinn er hlægilegur og jafnvel með myndir eins og John Wick, eins fín og sú mynd var þá er alltof mikið af tölvugerðu ofbeldi. Skiptir engu máli hversu góðar tölvubrellur verða þær geta aldrei komið í stað squibs og „alvöru“ gervi líkamsparta.

Ég get einungis talað fyrir sjálfan mig en mig dauðlangar að sjá nýjar kvikmyndir taka skref til baka í þessari deild. Horfið á fyrstu Independence Day í samanburði við Resurgence, ógnin og eyðileggingin virkar í fyrstu en er alger tölvuleikur í seinni. Allt raunsæið er fjarlægt og spennunni er fórnað fyrir tölvubrelluklám. Hljómar eins og ég sé einhvað tölvubrelluhatandi kvikmyndasnobb en ég sver að ég elska tölvubrellur eins og hver annar maður þegar þær eru notaðar rétt. Það er ekkert verra en kvikmynd sem baðar sig ónauðsynlega í tölvubrellum því þegar þær eru notaðar vitlaust þá tekur það allt bit úr sögunni. Sem betur fer er ekki þefur af þessu vandamáli í The Running Man, þetta er eins 80‘s og það gerist. Við fáum að sjá Arnold slátra óvinum sínum með vélsög, gaddavír og hann stingur penna í bakið á umboðsmanni sínum.

Ef þú hefur ekki séð The Running Man þá þarftu að drulla þér í að afgreiða þann verknað. Ekki það að hér sé um að ræða gleymt meistaraverk, ég myndi lýsa The Running Man sem voða fjörugri dystopian Arnold ræmu með mikið skemmtanagildi. Ekki gleyma að Steven E. de Souza, maðurinn á bakvið Street Fighter (1994) skrifaði handritið. Ef það sannfærir þig ekki þá veit ég ekki hvað gerir það. Plús Jessie Ventura er þarna og ég hvet alla að tjekka á Captain Freedom‘s Workout hér fyrir neðan.