Stutta útgáfa:
Spennandi og vel gerð kvikmynd. Balti og Gísli sýna báðir stórleik og kvikmyndatakan er einfaldlega ótrúleg. Það er þó synd að hún fer ekki almennilega í gang fyrr en eftir hlé og er sagan ósköp formúlubundin á köflum. Balti kann þó að byggja upp spennu þegar loksins að því kemur.

8

 

 

Langa útgáfan

Ég hef aldrei skilið afhverju við, íslenskir gagnrýnendur og áhorfendur, ættum að fara inn á íslenska kvikmynd með aðrar gæðakröfur en þegar við förum á erlendar kvikmyndir. Af hverju ættum við að fara í kvikmyndahús og borga meira en við gerum á erlendar myndir og lofa þeim svo í hástöfum fyrir það að vera aðeins meira en meðalgóð B-mynd af færibandi. Þetta endalausa klapp á bakið fyrir eitthvað sem er oft á tíðum augljóslega slæmt. Íslenskir áhorfendur hafa skitið yfir klisjulegar erlendar myndir en þegar að íslensk mynd endurtekur þær klisjur með verri myndatöku og enn ótrúverðulegra handriti þá fá aðstaðendur klapp á bakið og þriggja stjörnu dóm í Mogganum til að særa ekki neinn. Það skil ég ekki. Að því sögðu; ég diggaði alveg frekar mikið Eiðinn.

Íslensk kvikmyndagerð hefur alfarið farið upp á við undanfarin ár með t.d. Svartur á Leik, Hrúta og að mörgu leyti Þresti (við erum dálítið í þessum dýranöfnum) en hún toppast algjörlega í Eiðnum. Þá meina ég líka kvikmyndagerðin sjálf, eða kvikmyndaframleiðslan. Myndatakan, tónlistin, klippingin og leikurinn er allt glimrandi í Eiðnum og ætti að vera skólabókardæmi um hvernig þú gerir íslenska kvikmynd flotta án landslags skota.

Eina sem dregur myndina niður að mínu mati er sagan sjálf, sú sem að á að líma okkur við skjáinn. Það er ekki nóg að allt í kringum myndina sé gullfallegt þegar að myndin sjálf er því miður eitthvað sem við höfum séð oft áður. Það er þó tekinn annar vinkill á „hversu langt myndir þú ganga fyrir barnið þitt“ þar sem Balti fer ekki 100% Taken með byssur á lofti heldur leikur hann einfaldan hjartaskurðslækni. Það er hins vegar ekki fyrr en í lokakaflanum á myndinni sem alvöru togstreytan milli þess gera hið rétta og ranga fer að verða áhugaverð. Upp að því er í raun mjög kómiskt hvað einu ráðin hans eru að hringja dyrabjöllunni og mæla með því að dóttir sín leggi sig til að leysa erfiðar aðstæður.

ar-160908858

Gallarnir í myndinni ná þó ekki mikið lengra en það og verður að segjast að um leið og myndin fer að rúlla af stað, eitthvað eftir hlé, þá er hún drulluspennandi. Gísli og Balti eru fáranlega flottir saman á skjánum og deila þeir ótrúlega þungum atriðum sem verða aldrei kjánaleg þökk sé mjög skotheltu handriti. Balti fær að spreyta sig og teygja leikvöðvana vel og leynast eflaust bestu frammistöðurnar hans í myndinni í rólegustu tökunum þar sem mest reynir á litla svipbrigði og líkamshreyfingar í óþæginlegum aðstæðum. Persónuþróunin hans er flott og sést greinilegur munur á honum þegar siðblindan þróast hægt og rólega í gegnum myndina. Gísli stelur þó klárlega nánast öllum senum sem hann er í með ótrúlega öfluga frammistöðu. Hann gefur frá sér dýnamík sem einfaldlega stelur allri athygli og þegar á reynir að sýna sitt rétta andlit svíkur hann alls ekki.

Óttar Guðnason sannar sig einnig sem einn, ef ekki sá hæfasti, kvikmyndatökumaður landsins. Ég hef aldrei séð jafn vel skotna íslenska kvikmynd. Punktur. Myndavélin byggir upp rosalega spennu þegar hún þarf þess og eru mörg skot sem væru í höndum annara mjög einföld gullfallega skotin i hans höndum.

Eiðurinn er því með flottari kvikmyndum sem Ísland hefur látið frá sér þegar horft er á hana frá tæknilegu sjónarhorni en því miður nær hún ekki góðu róli fyrr en í seinni hlutanum. Sagan er klisjuleg en hægt að horfa aðeins framhjá því þegar framleiðslugæðin eru svona flott.