Eðal Japanskur hryllingur getur komið í öllum stærðum og gerðum, burtséð frá tegund myndarinnar, og hér fer hann í búning morðrannsóknar í film noir stíl. Innan úthverfa Tókýó-borgar fara óhugnaleg morðmál að spretta upp með óþægilega reglusömum hætti; en þau einkennast öll af X-merki sem skorið hefur verið í háls fórnalambsins, og að gerandinn í hverju tilviki kannast ekki við verknaðinn. Leynilögreglumaðurinn Takabe er fenginn í málið til að grafa upp mögulega tengingu milli morðanna, en veruleikinn reynist vera einkennilegri en morðin sjálf.

Cure spilar sig að einhverju leiti sem týpíska morðráðgátu eins og áhorfendur eru oftast vanir, en tekur nógu mikið af áhrifavöldum frá heimalandinu til að skapa uggvekjandi og lágstemmda atburðarrás sem jaðar á við steinsteypta hrollvekju. Berar píanónótur óma yfir vel völdum augnablikum og þögnin sem umkringir restina af sögunni skapar hljóðheim á við heimsendamynd; nema við hjarta Tókýó. Ofbeldið er þögult og fjarlægt sem ýtir aðeins undir óþægindin sem myndin smeygir undir húðina í nánast hverri senu.

Útkoman er mynd sem er skemmtilegri til að hugsa um en að horfa á, enda gerir hún þessa rannsókn alls ekki auðvelda fyrir áhorfandann. Grófleikinn á köflum er nóg til að sitja eftir í áhorfandanum einn og sér, en í heildina nær hún að standa upp úr sinni tegund kvikmynda sem einstök og fagleg nálgun.