Fljótlega fáum við að sjá þriðja framlag leikstjórans Ridley Scott til Alien-seríunnar sem hann sparkaði sjálfur í gang á áttunda áratugnum. Talið er að Alien: Covenant muni aðstoða við það að brúa bilið á milli Prometheus og upprunalegu Alien-myndarinnar og má strax sjá það á sýnishornunum að stemningin hallist meira í áttina að þeirri síðarnefndu.

Til að gefa smá forskot á sæluna ákvað sonur leikstjórans, Luke Scott, að útbúa lítinn fjögurra mínútna formála – titlaður ‘Last Supper‘ – þar sem áhorfendum gefst tækifæri til að kynnast aðeins „krúinu“ um borð í skipinu Covenant. Við fáum þarna smá tilfinningu fyrir samspili liðsins og þeirra för, en eins og fylgir þessum myndum mun ekki gefast mikill tími fyrir gleði þegar atburðarásin rúllar af stað.

Með helstu hlutverkin (bæði í myndinni og þessu sýnishorni) fara Michael Fassbender, Katherine Waterston, Billy Crudup, Danny McBride, Demián Bichir, Carmen Ejogo, Amy Seimetz, Jussie Smollett, Callie Hernandez, Nathaniel Dean, Alexander England, Benjamin Rigby og James Franco.

Kíkjum á:

Það væri gaman ef fleiri stórmyndir myndu gera eitthvað í líkingu við svona „tís“, í stað þess að gefa upp alla framvinduna í sýnishornum. Þetta kallast gott smakk. Við viljum meira!

En við þurfum víst að bíða þangað til 17. maí.