Það var tímabil í mannkynssögunni þegar vöðvastæltir steraboltar með tæpa enskukunnáttu réðu yfir hvíta tjaldinu og keisari þeirra var án efa Arnold Schwarzenegger. Maður sem hefur uppfyllt nánast alla æskudrauma sína og náð ótrúlegum frama í þokkabót. Sem vaxtarræktarmaður og kvikmyndastjarna er hann ómetanlegur, hver þekkir ekki Arnold? Og betri spurning væri, hverjum líkar ekki vel við manninn í þessum deildum?

Það er hægt að deila um pólitísku hlið hans, sem ég er alls enginn aðdáðandi, eða persónulegu hlið hans og hvernig honum hefur mistekist í fjölskyldumálum. Ég er þó viss um að framtíðin eigi eftir að muna eftir Arnold á hápunkti frægðar sinnar, árin 1984-1994. Þegar karlmenn voru karlmenn og konur voru nánast lagðar á hilluna sem aukahlutir eða augnakonfekt. Tímabil þar sem líkamlegur kraftur og styrkur í bland við útlit var mikilvægara en leikhæfileikar, allavega í þeim skilningi að græða peninga.

Þegar ég lít til baka á þetta tímabil þar sem Arnold var á sínum hápunkti, einnig tímabil þar sem höfundur þessar greinar kom í heiminn, þá sé ég hugmyndafræði og veruleikasýn sem myndi aldrei ganga upp í dag. En þess vegna er sagan svona skemmtileg, því mannfólk er alltaf að breyta um áherslur, eða þykist gera það. Það sem var í lagi þá er kannski gífurlegt taboo í dag og þvert á móti.

Tekin upp frá apríl til júlí 1985 og gefin út í október á sama ári, með tíu milljón dollara budget sem var talsvert meiri penge en í dag og græddi margfalt þá upphæð til baka. Commando sannaði fyrir fullt og allt að Arnold var peningamaskína. Af einhverjum ástæðum þá var þetta austurríska tröll alger sjarmi og dollarasvarthol. Á þessum tíma átti Arnold þegar að baki sér Conan The Barbarian (1982), Conan The Destroyer (1984) og The Terminator (1984) sem aðalstjarnan.

Commando er þó í fyrsta sinn sem kvikmynd veltur einungis á stjörnuafli Arnolds, því án hans væri Commando mjög hefðbundin 80’s schlock-ræma sem hefði án efa gleymst fljótlega eftir útgáfu. Ef þú skoðar kvikmyndaferil Arnolds þá er það fremur skýrt að eftir Commando er maðurinn ráðinn í fleiri Commando-esque hlutverk. Þegar ég hugsa það frá nútímalegu samhengi, þá er það algerlega fucking absúrd að þessi maður hafi verið ráðinn til að leika aðalhlutverkið í Commando, mynd sem fjallar um bandarískan sérsveitaliða sem heitir JOHN fucking MATRIX!? Raw Deal (1986), The Running Man (1987) og Total Recall (1990) eru önnur dæmi þar sem ráðning Arnolds meikar ekkert sens nema í peningalegu samhengi.

Þetta hefur þó sér fleiri rætur, því stór partur af þessu tímabili var útlitsdýrkunin. Frá sirka 1975 byrjaði líkamsrækt að heltaka Bandaríkin en heimildarmyndin Pumping Iron (1977), sem Arnold var aðalpersónan í, hafði gífurlega hvetjandi áhrif á þessa þróun. Sylvester Stallone, Jean-Claude Van Damme, Dolph Lundgren, Steven Seagal, Chuck Norris og jafnvel Bruce Lee, áður en hann lést, voru einnig höfuðpaurar í þessari þróun. Þú þurftir ekki að vera leikarameistari né einu sinni góður í enskunni, það sem skipti máli var að þú leist vel út ber að ofan og kunnir að slást. Hversu barnalegt er það eiginlega? Það er hreint út sagt ótrúlegt þegar virkilega er hugsað út í það. Hinsvegar hafa poppstjörnur fengið að gera sínar eigin „sjálfsævisögur“ á borð Cool As Ice (1991) og Glitter (2001), svo það er allt til í þessum heimi.

Þeir sem hafa séð Commando eru án efa meðvitaðir um að myndin hefur enga þrá til að tengja sig við raunveruleikann. Arnold veður yfir allt og alla með karlmennsku sinni og óendanlegu úrvali af skotvopnum, beittum vopnum og sprengjum. Ég er óviss um hversu mikið af myndinni sé viljandi fyndið og hvað ekki, því leikstjórinn Mark L. Lester sem myndi síðar gera Showdown in Little Tokyo (1991), aðra epíska þvælu, virðist líta á myndina með fremur alvarlegum augum. En hvernig í andskotanum er það hægt? Var fólkið að snorta það mikið kókaín að það missti tök á veruleikanum? Hvaða hugsunarháttur skapaði þessa mynd?

1985 er hjartaár forsetatíðar Ronald Reagans, þegar græðgi var talin góð og fólk var hvatt til að kaupa, kaupa og kaupa. Komdu þér í skuld, hjálpaðu ríka fólkinu að verða ríkara og þá græðir litla manneskjan kannski á því einnig, hugsunarháttur sem er enn ráðandi þrátt fyrir að enginn trúi á hann. Þetta er einnig tímabil þar sem BNA var í sinni mestu afneitum um stöðu sína í heiminum sem þjóðfélag og áratugurinn þar sem peningaeyðsla í hernað (auk ýmissa annarra leyndra verkefna) rauk upp eins og raketta. BNA stjórnvöld, eða þeir á bakvið þau, vildu stilla upp „frjálsa landinu“ sem lögregluveldi heimsins, eitthvað sem hafði verið í uppsiglingu frá byrjun kalda stríðsins. Ég er á þeirri skoðun, og án efa margir aðrir, að þessi heimsmynd og stefna í BNA hafi laumað sér í kvikmyndaheiminn. Þetta er engan veginn mín kenning, en mér finnst hún standast rök.

Það er einnig áhugavert að hafa í huga sagan af samvinnu milli kvikmyndavera og leyniþjónustu/hervalda í BNA er löng, þar sem áróður og hreinsuð saga er endurtekið sýnd í kvikmyndum. Man einhver eftir Charlie Wilson’s War (2007) um stríðið í Afganistan á níunda áratuginum, með Tom Hanks? Sjaldan hefur sést jafn lygileg og ógeðfelld hreinsun á sögunni í þágu BNA áróðurs. Ég veit nú ekki hvort það sé tilfellið með Commando, en það kæmi ekki á óvart.

Sjaldan hef ég séð jafn skammarlausa auglýsingu fyrir 80’s Reaganisma og hetjudýrkun hvíta mannsins. Eins og John Carpenter sagði í viðtali fyrir myndina They Live (1988), þá „lifum við ennþá í níunda áratuginum, við lifum enn í þeim heimi sem sá áratugur skapaði fyrir okkur“. Það er að vissu leiti satt, en á sama móti þá er mikið af fólki hætt að trúa lyginni sem sá áratugur „kókaði“ upp sem sannleika. Menningin hefur breyst aðeins, ný kynslóð hefur sett eigið spor á þessa þróun og núna lifum við í tímabili „vafans“. Óvissa ríkir og flest fólk fílar sig ekki í þeim aðstæðum. Hvað er næst? Í kvikmyndalegu samhengi er það fáránlega góð spurning.

Þetta er þó engin ástæða til að hundsa Commando sem kvikmynd, því eins fáránlegt og allt þetta er þá eru þetta lykilástæður þess af hverju myndin er æðisleg. Commando fullkomlega þekur nánast allt við níunda áratuginn sem gerði hann einstakan og fáránlegan. Það er meira gildi í þessar mynd í dag en nokkurn tímann árið 1985, þegar svona myndir voru fremur algengar.

Það er hægt að deila um það hversu mikil áhrif Commando hafði á svona myndir, en á sama tíma var First Blood II (1985) að koma út sem innihélt svipaðan stíl. Síðan þá hafa gagnrýnendur oft notað orðatiltækið „Commando clone“ þegar svipaðar myndir koma út. Það er einnig skondin staðreynd að framhald var í undirbúningi, en eftir að Arnold hætti við þá breyttist það handrit að lokum í Die Hard (1988). Já það er staðreynd. Die Hard var upprunalega Commando 2. Það er mögulega til einhver önnur vídd þar sem Commando 2 varð að veruleika og Die Hard var aldrei gerð. Áhugaverð pæling.

Eins og margar Arnold myndir þá telst Commando vera klassík, en ég geng aðeins lengra í þetta sinn og kalla Commando „eldingu í flösku“. Hún er engan veginn hágæðamynd, en hún er minnismerki tímabils sem er ennþá að bögga okkur í dag. Hún er einnig brunnur af húmor og brosverðum fáránleika og þrátt fyrir þá ógeðfelldu veruleikasýn sem myndin baðar sig í, þá get ég ekki annað en saknað þessa tímabils af kvikmyndum. Þegar sorpið var eðlilegt og sjálfsagt, þegar gæði féllu til hliðar í þágu útlitsdýrkunar og karlrembuástar.

Það er magnað að sagan fór þessa leið og var talin sjálfssögð í langan tíma. Tímarnir hafa svo sannarlega breyst, að minnsta kosti á yfirborðinu, en 2010’s mætti til dæmis kalla áratug kvenmannsins. Síðan ég man eftir mér hef ég aldrei tekið eftir jafn mikilli áherslu á konuna í almennu lífi, sem er jákvæð þróun ef ekki tekin í öfgar, því það myndi verða jafn fáránlegt og karlmennskudýrkunin á níunda áratuginum. Þó að myndir á borð við Commando séu ennþá framleiddar, þá eru þær yfirleitt „straight to BluRay/DVD“ eða enda sem fremur óvinsælar ræmur í bíóhúsum. Áherslan er önnur í dag og pólitísk rétthugsun er mikið ráðandi sem hefur sína kosti og galla því oft er þannig hugsun eitur fyrir spennandi sögur, hvort sem þær séu raunsæar eða ekki.

Sama hver framtíðin verður fyrir kvikmyndaiðnaðinn og heiminn almennt, þá getum við alltaf huggað okkur við þá tilhugsun að Commando er til og mun alltaf vera það.