„Kom!“ Og ég sá, og sjá: Bleikur hestur, og sá er á honum sat, hann hét Dauði, og Hel var í för með honum. Þeim var gefið vald yfir fjórða hluta jarðarinnar, til þess að deyða með sverði, með hungri og drepsótt og láta menn farast fyrir villidýrum jarðarinnar.“ – Opinberunarbókin

„Come And See“ er að mati undirritaðs næstbesta stríðsmynd allra tíma („Grave of the Fireflies“ verður aldrei toppuð). Hún var síðasta myndin sem leikstjórinn Elem Klimov leikstýrði, og sagði hann eftirá að hann teldi sig hafa sagt með henni allt sem hann langaði til að segja.

Titillinn vísar í  Opinberunarbók Nýja Testamentisins, og er réttnefni, því myndin sýnir okkur helvíti og viðurstyggð stríðs eins og fáar aðrar kvikmyndir hafa gert. Hún gerist 1943 í Rússlandi og sýnir okkur hvernig ástandið er orðið þannig að unglingsstrákar úr þorpum landsins eru kallaðir til að sinna herskyldu og standa gegn innrás Þriðja Ríkisins í Rússlandi. Aðalsöguhetja okkar, pilturinn Flyora, er augu okkar og eyru meðan við ferðumst í gegnum víglínurnar, upplifum hryllinginn (í miklum contrast við fegurð landsins og skóganna) og sorgina sem fylgir ávallt í kjölfar slíkra hörmunga. Myndin er algjört listaverk, ótrúlega áhrifarík og hreint út sagt mögnuð upplifun. Algjört skylduáhorf fyrir alla sanna kvikmyndaunnendur.