Vísindakirkjan þarf (því miður) á engri kynningu að halda. Flestir þekkja til sagnanna, Kool-Aid’sins sem stórstjörnurnar (Cruise og Travolta) hafa verið að drekka eða South Park-þáttarins sem rekur gegnum alla söguna af Xenu, geimverusálunum og eldfjallafórnunum sem sci-fi óður klikkhaus krotaði á blað fyrir löngu síðan og taldist síðar til „helgirits“. Farsinn nær langt. En hvað með kapítalísku ógleðina, afneitunina, einræðið, ofbeldið og bælinguna sem fylgja þarna með smáa letrinu?

Ég taldi mig að minnsta kosti vera mátulega fróðan um Vísindakirkjuna en fátt bjó mig undir sjokkáhrifin og staðreyndasprengjurnar sem ég tók frá frásögnum fyrrum meðlima hennar – þar á meðal Paul Haggis – í þessari heimildarmynd. Við fáum martraðarsögur og pakkað innlit í þá prósessa sem Hubbard (og seinna meir óbjóðurinn David Miscavige) græddi á og hefði aldrei viljað sjá opinberaða. Myndin er innblásin af bókinni Going Clear: Scientology and the Prison of Belief eftir Lawrence Wright, sem bregður þarna fyrir á kameru.

Alex Gibney er meðal virkustu kvikmyndagerðarmanna í heimildargeiranum starfandi í dag, með stórgóða titla á skránni sinni frá Enron: The Smartest Guys in the Room til Steve Jobs: The Man in the Machine. Frá sama ári og þessi síðarnefnda kom Gibney út með mynd sem er eins hneykslandi í skömmtum og hún er þrælskemmtileg frá byrjun til enda. Umfjöllun hans á efninu ristir ekki ferlega djúpt en niðurrifin og eftirsjáin skín gegnum viðmælendur. Frásagnir Haggis (sem var meðlimur Vísindakirkjunnar í 35 ár) og annarra eru sérstaklega áhrifaríkar.

et_a04_cruise_travolta_horiz_ren640Einnig er góður fókus sem kemur inn á hreðjatakið sem kirkjan hefur yfir mönnum eins og John Travolta eða Tom Cruise, eða dekurpakkann sem hún sturtar reglulega yfir þá til þess að þeir segi sig ekki úr henni í bráð, eða nokkurn tímann.

Cruise fær heilan kafla í myndinni helgaðan út fyrir sig og hvernig hann var smátt og smátt fluttur í status lukkudýrs auk magnaðra saga af einkalífinu hans og stjórnsemi kirkjunnar á því (sagan af „bráðabirgðarkærustu“ hans er ekki falleg). Sumt af myndefninu sem hefur verið þarna safnað saman sýnir er stórmerkilegt afþreyingarefni út af fyrir sig, því í sumum þeirra er Krúsarinn gjörsamlega týndur, Travolta sömuleiðis.

Kíkið á hana, og kynnið ykkur svo The Master (aftur).

Sjáið ekki eftir því…