9780099422464Í mörg ár hefur það verið rætt að gera framhald af Trainspotting, líklega allt frá því hún kom út árið 1996. Höfundur bókarinnar Trainspotting, Irvine Welsh, skrifaði meira að segja framhald af bók sinni árið 2002, undir heitinu Porno.

Núna, næstum 20 árum seinna, er Trainspotting 2 loksins að verða að veruleika. TriStar Pictures hafa komist að samkomulagi við Danny Boyle og handritshöfundinn John Hodge, ásamt framleiðandateymi, um að fjármagna og dreifa framhaldinu sem fer senn í framleiðslu og stefnt er að frumsýna hana einhverntíma fyrri part ársins 2017. Það er því greinilegt að þetta verður næsta mynd Boyle sem er nýbúinn að senda frá sér hinu stórfínu Steve Jobs.

Myndin verður þó ekki byggð á framhaldsbókinni Porno heldur hefur handritshöfundurinn John Hodge, sem einnig ritaði fyrstu myndina, skrifað frumsamið handrit. Fyrsta myndin er líka talsvert frábrugðin bókinni að mörgu leyti og það því kannski ekki svo skrítið.

Trainspotting2

Myndin mun fylgja eftir aðalpersónum myndarinnar 20 árum seinna og sjá hvernig þeim hefur vegnað og munu allir helstu leikararnir snúa aftur, Ewan McGregor, Jonny Lee Miller, Ewen Bremner og Robert Carlyle þ.á.m. Ekkert hefur verið gefið upp um söguþráð ennþá en fyrri myndin var heldur ekki beint mynd sem gekk út á einhvern svaka söguþráð, meira bara lýsing á ákveðnum lífsstíl og fólkinu sem stundar hann.

Þetta verður fyrsta framhaldsmynd Boyle og nú er bara að vona að hún verði í það minnsta næstum jafn góð og sú fyrsta sem er ennþá hans besta, í það minnsta að mati undirritaðs.