Breska myndasyrpan sem Bond á enn eftir að skáka! Þó húmorinn sé langt í frá að vera menningarlega fjölbreyttur í Carry On-seríunni stórmerkilegu verður að gefa henni heilmikið kredit fyrir dugnað og visst hugmyndaflug. Á rúmlega þremur áratugum tókst þessari breiðu grallaragrúppu að mjólka út hvorki meira né minna en þrjátíu og einni bíómynd, allar (vitanlega…) misgóðar – sumar m.a.s. andstyggilega vondar, fyrir lítinn pening og varla nein laun. En aðstandendur voru langoftast þeir sömu og þó flestir þeirra hafi verið brjóstaklípandi, perraglottandi aulabárðar fyrir framan tökuvélarnar var margt í þessu góða sprelli þeirra sem ómögulega var ekki hægt að hlæja aðeins, en bara þegar vitleysingarnir voru í réttum gír.

Algjör börn síns tíma, og oft ánægjuleg sem slík. Af þeim 28 sjálfstæðu myndum sem ég hef persónulega séð er Carry On Regardless með þeim skemmtilegri sem ég man eftir (fyrir utan Abroad, Camping og Cabby), líklegast því hún fjallar ekki um neitt nema röð atvika sem eru hver öðrum bjánalegri. Söguþræðirnir hjá „Áfram“-genginu voru alltaf í smáum skömmtum en þessi gerði sér a.m.k. alveg grein fyrir því frá byrjun. Góðar minningar.