„The most savage and brutal film in modern history.“

Cannibal Holocaust er ein af þeim myndum sem maður heyrir reglulega vitnað í sem eina rosalegastu grindhouse mynd allra tíma. Titillinn er svo alræmdur að hann lætur The Texas Chainsaw Massacre hljóma eins og Home Alone í samanburði. Þetta er verkefni fyrir hugaða menn, látum vaða!

Í upphafi myndarinnar kemur textinn: “For the sake of authenticity some sequences have been retained in their entirety”. Textinn á að vekja óhug og er sniðug leið til að sannfæra áhorfandann að um raunverulega atburði sé að ræða. Myndin fjallar um nokkra menn sem leita í frumskógum S-Ameríku að hópi sem var að búa til heimildarmynd um mannætur. Upptökur finnast (líkt og í The Blair Witch Project) og smám saman fer að skýrast hvað gerðist. Það er mikið um nekt, limlestingar, nauðganir og dráp. Það versta fannst mér samt grimmd gagnvart dýrum, t.d. er ein pokarotta rist á kvið lifandi og skjaldbaka hálshöggvin, greinilega alvöru.

Myndin er samt mikið betur gerð en ég bjóst við. Tónlistin er oft nokkuð falleg og leikurinn bara góður. Kvikmyndatakan er líka vönduð og söguþráðurinn nær að halda manni við efnið. Myndin er ádeila á mannkynið og á að vekja mann til umhugsunuar um okkur sjálf. Erum við eitthvað betri en villimenn bara af því að við klæðum okkur snyrtilega og drepum dýrin okkar í sláturhúsi?

Í heildina er myndin bara nokkuð góð. Hún er hrottalega á köflum en ekki eins erfið að horfa á og ég bjóst við. Þeir sem eru forvitnir ættu að prófa.

„I wonder who the real cannibals are.“

Leikstjóri: Ruggero Deodato