Jo Shishido, með sílíkon í kinnbeinunum svo hann líkist helst hamstri í framan, fer fremstur í flokki jafningja í stórmerkilegri yakuza kvikmynd Seijun Suzuki, Branded to Kill. Suzuki kiknaði undan leiðindunum sem fylgdu því að gera enn eina klisjukennda yakuza myndina fyrir Nikkatsu stúdíóið (eins og hann var þó ráðinn til að gera) og gerði því í staðinn sjónræna veislu, þar sem atburðir og tímarás skiptu mun minna máli en að næsta skot yrði óvenjulegt, kúl og passaði við jazz-skotna tónlistina.

Útkoman er ein skemmtilegasta og fríkaðasta mynd japönsku nýbylgjunnar, og fjallar (að nafninu til) um „Nr. 3″ hrísgrjónaþefandi leigumorðingjann sem dreymir um að verða „Nr. 1″….sem er eða er ekki til. Suzuki var svo rekinn frá stúdíóinu í kjölfarið fyrir að gera mynd sem enginn af yfirmönnunum skildi eða fannst neitt varið í. Tíminn hefur hinsvegar sannað framúrstefnulegt gildi þessa litla gimsteins eins og oft er raunin. Hvort sem þú fílar hana eða fílar hana ekki, þá er það persónulegt loforð mitt að þú munt aldrei sjá neina kvikmynd sem er eins og Branded to Kill. Eins kúl og það verður.

 

Horfðu á trailer