„An Interactive Trip To Hell“

Ég var fyrst og fremst forvitinn að sjá þessa mynd. Hún er gerð á þeim tíma þegar talið var að spilun og áhorf tölvuleikja hefðu þau áhrif á notandann að hann yrði ofbeldishneigður og jafnvel geðveikur. Hefur þetta viðhorf annars ekki örugglega breyst? Þessi mynd notar sér þessa umræðu og kynnir til sögunnar tölvuleik sem er lífshættulegur!

Við kynnumst svölum unglingi, leikinn af Edward Furlong, sem á tölvu sem hann getur talað við. Hann á óþolandi vin sem segir „best buds forever“ og hann er skotinn í stelpunni í næsta húsi sem sýnir honum brjóstin í gegnum gluggann. Í staðinn fyrir að vera heilbrigður og ná í dömuna fer hann í tölvuleik sem verður að teljast mjög slæm mistök. Hann sogast inn í heim þar sem vondur gaur lætur hann fremja morð í leik sem eru í raun alvöru morð. Vondi kallinn, The Trickster, er frekar glataður. Hann er einhverskonar brengluð útgáfa af Freddy Krueger eða Beetlejuice en kemst ekki nálægt þeim spöðum. Þetta er áhugavert hugtak en að mestu illa framkvæmt. Furlong er reyndar fínn og Frank Langella er þéttur sem rannsóknarlögreglumaður. Ekki beint hægt að mæla með þessari samt skemmtileg á sinn hátt.

„Erections don’t rape people, people rape people.“

Leikstjóri: John Flynn (Best Seller, Lock Up)