Það er dimm hlið á borgarsamfélaginu. Ótti okkar við margmennið, að týnast í múgnum, að vera nafnlaust tannhjól í kerfinu, að það sé rotinn kjarni glæpamanna sem ógni hinum almenna borgara án þess að hann fái við spornað. Þessi ótti okkar kallar á staðgengil á skjánum, einhvern sem sker upp herör og lætur ekki kúga sig, einhvern sem starir í hyldýpið og blikkar ekki. Þessi staðgengill er borgarstríðsmaðurinn.

Make_My_day_Death-Wish-3-Bronson_400Í grunninn á borgarstríðsmaðurinn sér tvær aðalbirtingarmyndir á filmu, Death Wish erkitýpan og Le Samourai erkitýpan.

Í þeirri fyrri er borgarstríðsmaðurinn að berjast við spillt, rotið kerfi með því að afskrifa öryggistæki samfélagsins (dómstóla og lögreglu), taka lögin í eigin hendur og sjá til þess að þeir sem eiga það skilið (að hans mati) fái makleg málagjöld.

Í þeirri seinni stendur hann utan samfélagsins, hafnar hefðbundnum gildum, reglum og hugmyndum um rétt og rangt. Hann lifir eftir eigin lögmálum og setur sér sjálfur siðferðisviðmið. Í þessari birtingarmynd er hann gjarnan mjög ósveigjanlegur og kýs gjarnan frekar dauða en eftirgjöf eða málamiðlun.

the_brave_one_erica_bane_with_gunBáðar týpurnar eru „hetjur“ (andhetjur) og við höldum með þeim gegn öllum rökum. Sú fyrri er að mörgu leyti auðskiljanlegri, því flest (öll?) höfum við upplifað vanmátt gegn kerfinu, reiði gegn því sem við upplifum sem valdníðslu lögreglunnar og ósanngirni dómstólanna. Við eigum auðvelt með að setja okkur í spor Paul Kersey í Death Wish þegar hann, í réttlátri reiði sinni eftir dauða konu sinnar af höndum glæpagengja, tekur upp vopn gegn þorpurum og kónum Nýju Jórvíkur. Við skiljum fyllilega hvernig Ericu Bain líður í The Brave One þegar hún vaknar úr dái á spítalanum og er sagt að ástmaður hennar hafi verið myrtur í sömu árás og hún varð fyrir…og hvernig vanmáttur og reiði hennar leiðir hana í stríð við lágmennin og vargana . Gjörðirnar eru ekki réttlætanlegar, en tilfinningarnar á bakvið þær eru mjög sammannlegar. Við eigum mjög auðvelt með að ímynda okkur að vilja einhvern feigan sem hefur ógnað eða banað fjölskyldumeðlim okkar, og við fáum tilfinningalega hreinsun (Katharsis/Catharsis) þegar við upplifum þá gjörð í gegnum dramatískan staðgengil.

Þematískan styrk seinni týpunnar er erfiðara að skilgreina þó hann sé klárlega til staðar. Þar erum við að tala um samúræjann sem lifir eftir bushido (hinni fornu japönsku leið stríðsmannsins) settan í nútíma búning. Í kvikmyndum birtist þessi borgarstríðsmaður gjarnan sem annaðhvort leigumorðingi (Le Samourai, Leon: The Professional) eða sem sérhæfður í einhverju verki (t.d. flóttabílstjóri eins og í Drive og The Driver). Gjaldið fyrir verkið er þó ekki takmarkið heldur einungis staðfesting á því að verkið hafi verið rétt leyst, og yfirleitt alltaf er fórnarlambið annaðhvort stofnun (banki eða fyrirtæki) eða manneskja sem „á það skilið“.

leon-1Nánast alltaf í þessari birtingarmynd er borgarstríðsmaðurinn/samúræjinn svikinn af kaupandanum (hann er aldrei „í vinnu“ hjá aðalglæpamanninum, antagonista verksins… hann er alltaf „hlutlaus“ verktaki) því hluti af ímynd hans gagnvart áhorfandanum er að hann myndi aldrei lúta svo lágt að vera tekinn af yfirvöldum. Til þess er hann of fær. Það er gjarnan mannlegur breiskleiki sem verður honum að endanum að falli; ást á konu eða barni (eða bæði) sem er notað gegn honum. Hann fórnar lífi sínu, eða gerir tilraun til þess, og gerir það án þess að hugsa til tvisvar um. Líf án heiðurs, líf málamiðlana, er ekki boðlegt líf og hann vill það ekki.

Við virðumst hafa þörf fyrir það að einhver geti lifað lífi sínu svona þó svo að við getum það ekki sjálf. Lífið er ein stór málamiðlun og reglulega þarf hin venjulega manneskja að kyngja einhverju ósanngjörnu, einhverju sem stríðir gegn skoðunum eða einhverju sem misbýður réttlætiskennd hennar. Samúræjinn þarf þess aldrei. Hann neitar, munaður sem við hin getum ekki leyft okkur. Þessi þörf okkar fyrir að þessi samúræji borgarinnar sé til er svo sterk að helst viljum við að hann verði ekkert svona hrifinn af þessari kellingu eða krakka því við vitum að hann er að skrifa undir eigin dauðadóm oftar en ekki. Við viljum helst að hann sé þarna áfram úti, vinnandi sín verk fagmannlega, einn og óstuddur, án nokkurra málamiðlana eða tillits til annarra (kvikmyndirnar yrðu líklega hálf endaslepptar þannig reyndar).

ryan-gosling-in-drive-007Það eru svo til tveir undirgeirar kvikmynda þar sem erkitýpan kemst nálægt því að falla undir borgarstríðsmanns-skilgreininguna. Annarsvegar er það löggan sem brýtur reglurnar og þekkir veikleikana í kerfinu af eigin raun (Dirty Harry/Lethal Weapon) og hinsvegar misnotaða konan sem sækir í hefnd gegn nauðgurum sínum (I Spit On Your Grave/They Call Her One-Eye).

Löggan er ekki borgarstríðsmaður, því þegar uppi er staðið er hún að sinna starfi. Hún fær borgað fyrir að leita uppi glæpamenn, og hún notar kerfið (eins og hægt er) til þess. Hún stendur innan kerfisins, ekki utan.

Misnotaða konan er ekki borgarstríðsmaður heldur hreinn hefnandi. Heilög og réttmæt reiði hennar gegn árásar-mönnum sínum er persónuleg, ekki afstöðutengd. Þegar síðasti nauðgarinn er dauður er verki hennar lokið.

Það sem fyrst og fremst einkennir borgarstríðsmanninn er afstaðan og heimsýnin, ekki gjörðirnar. Borgarstríðsmaðurinn neitar að viðurkenna kerfið, tekur ígrundaða ákvörðun um að hafna réttlæti, siðferði og kerfisvæðingu fjöldans. Hann lifir einungis eftir eigin lögum og reglu, útbýtir eigin réttlæti og er dómari, kviðdómur og böðull þeirra sem í hans huga eiga það skilið.

Og við elskum það.