Nýlega ferðaðist ég um Suð-Austur Asíu. Tilgangurinn var sá að kynnast nýjum menningarheimum, skoða umhverfi sem líkist ekki hinu vestræna og sjá og upplifa nýja hluti. Þrátt fyrir ferðina mína um hinn ólíka heim gat ég ekki losnað við bíógirndina og leitaði uppi kvikmyndahús í nánast hverju einasta landi sem ég fór í. Í Filippseyjum, í cirka febrúar, var hin áður margumtalaða 50 gráir skuggar sýnd og var ákvörðun hópsins að nýta eitt kvöldið í að sjá hana.

Strax hringdu viðvörunarbjöllurnar um að þetta yrði furðuleg sýning. Við kaup á miðunum vorum við öll spurð um skilríki. Þrátt fyrir að fremsti maður sýndi aldur var restin einnig tekin í yfirlit fyrir þessa (að þeirra mati) hrottalega klámfengu 18+ mynd. Ekkert popp var í boði þar sem poppið hafði klárast á 8 sýningunni. Þau töldu greinilega ástæðulaust að poppa annan skammt. Við neyddumst því að fara úr bíóinu, sem var í verslunarmiðstöð, og fara fram í litlan sjoppu-flóamarkað sem gaf frá sér þá tilfinningu að þeir væru að selja veitingar í leyfisleysi fyrir utan bíóið.

Salurinn var þó stútfullur af fólki. Allir virtust jafn spenntir að sjá kvikmyndaða útgáfu af mesta mainstream klámi fyrr og síðar. Loftið var algjörlega rafmagnað og spennan bókstaflega lak af Filippseyingum. Eftir svona korter af eitthverjum furðulegustu auglýsingum sem ég hef séð blandað við trailera sem ég skildi oft ekki orð í hófst eitt athyglisverðasta augnablik í minni bíósögu; Þjóðsöngur Filippseyja var spilaður hástöfum í græjunum og myndband sýnt með um landið. Allir stóðu upp og sungu hástöfum í takti með springandi úr stolti. Það sem var súrast við þetta augnablik var ekki endilega bara það að þjóðsöngurinn hafi spilast heldur einnig að hann hafi verið spilaður á undan 50 Shades. Fastagestunum fannst hinsvegar ekkert skrítið við þetta. Það er kannski möguleiki að við fáum myndband af Óla Ragnari fyrir hverja sýningu hérna heima.

fifty-shades-10Þeir sem hafa svo séð myndina vita auðvitað að það þarf ekkert að bíða voðalega lengi eftir því að fyrsta af fjölmörgum kynlífsatriðum hefst. Tók þá við enn skrítnara augnablik þar sem risavaxinn svartur kassi var lagður yfir leikarana. Í næsta skoti voru þau svo blörruð og í skotinu þar á eftir sneri svarti kassinn svo aftur. Þetta endurtók sig út alla myndina í hverju einasta atriði sem var talið of gróft fyrir meðalmanninn. Þar af leiðandi sá ég ekki nema kannski svona 70% af myndinni. Ekki nóg með að ég hafi verið beðinn um skilríki við innganginn þá var mér einnig bara neitað að horfa á myndina vegna myndbrengls.

Þannig að ekki nóg með það að öryggið hafi verið í hámarki heldur var líka allt þetta leikna kynlíf einnig falið undir filterum. Þetta stöðvaði þó ekki Filipsseyingana þar sem þeir flissuðu og „úúu´-uðu“ ítrekað til skiptis í öllum salnum. Myndin þótti svo rosalega krassandi að þeir einfaldlega gátu ekki falið tilfinningar sínar. Í hvert skipti sem ég leit í kringum mig til að horfa á allt fólkið í salnum kom í ljós að áhorfendur höguðu sér eins og þetta væri hið grófasta efni sem hægt væri að sýna á stjóra tjaldinu. Mennirnir sukku í sætin og glottu á meðan konurnar flissuðu og fóru alveg hjá sér (ég vil ítreka að allt var blörrað eða falið). Það mætti halda að ég hafi verið viðstaddur einhverja play-along sýningu þar sem áhorfendur ættu að herma eftir leikurum myndarinnar. Þessi hálfblörraða-svarta klessa sem var uppi á skjánum var semsagt greinilega alltof, alltof krassandi fyrir fólkið.

Því var þessi öryggismikla, popplausa, þjóðlaga syngjandi, blörraða og tilfinningaríka sýning ein sú athyglisverðasta og furðulegasta sem ég hef á ævinni lent í og er eina ástæðan fyrir því að ég get hugsað jákvætt um 50 Shades.