Bryan Singer hefur verið duglegur að henda út loforðum í tengslum við komandi X-Men myndina sína. Í fyrsta lagi hefur hann sagt að engin X-mynd hafi komist áður nálægt því að vera jafn umfangsmikil eða dökk eins og þessi verður, enda snýst hún í kringum upprunalega stökkbreyttinginn Apocalypse, sem mun gera allt vitlaust og vonandi standa miskunnarlaust undir nafni sínu.

Í öðru lagi telur Singer ekki ólíklegt að þetta verði hiklaust lengsta myndin í seríunni, sem hann gaf upp þegar orðrómar voru um að þessi gæti verið nær þriggja klukkutíma markinu.

„Ég hef yfirleitt reynt að halda þessum myndum undir tveimur tímum, en þessi þyrfti helst að vera töluvert lengri því við erum að þræða saman allt að sex bíómyndir,“ sagði Singer í viðtali við Screen Rant og nefndi að þetta væri bæði framhald og endastöðin fyrir X-Men 1, 2, 3, First Class og Days of Future Past. Spurningunni hefur líka loksins verið svarað um hvenær ungi Charles Xavier muni missa hárið.

janes-got-a-gun-natalie-portman-2

Að þessu sinni er enginn Hugh Jackman né Patrick Stewart eða Ian McKellen sökum þess að sögusviðið er níundi áratugurinn, en fjöldinn allur af kunnuglegum karakterum mun koma fram með ‘yngra’ leikaraliðinu (James McAvoy, Michael Fassbender, Jennifer Lawrence, Nicholas Hoult o.fl.), svo sem Cyclops (leikinn nú af Ty Sheridan), Jean Grey (Sophie Turner), Nightcrawler (Kodi Smit-McPhee) og Storm (Alexandra Shipp).

Oscar Isaac leikur ofurskúrkinn Apocalypse, sem er merkilega lítið sýndur í þessum fyrsta trailer – hugsanlega út af öllu netumtalinu þar sem honum hefur verið borið saman við Power Rangers-illmennið Ivan Ooze.

ew-cover-1373-xmen_612x380-1

En DofP-unnendum til mikillar aukaánægju virðist líka hafa meira fundist til að gera fyrir Quicksilver.

Sýnishornið fyrir X-Men: Apocalypse má sjá hér.

Myndin er væntanleg í maí.